«

»

Lítið eitt um Lottó

Eiður Svanberg Guðnason:

LÍTIÐ EITT UM LOTTÓ

 

Fyrir nokkru birtist í Morgunblaðinu stutt grein eftir Ágúst Guðmundsson forseta Bandalags íslenskra listamanna.Greinin hét: Menning og lottó. Sá sem þetta ritar, hefur ekki orðið þess var að greinin hafi vakið nein viðbrögð. Í greininni kemur fram að bæði á Norðurlöndunum og í Bretlandi njóti menningin góðs af  miklum hagnaði af lottórekstri.

 

Gildandi lög um lottó, eða talnagetraunir, hér á landi voru  upphaflega samþykkt í maí 1986. Þá fengu þrír aðilar einkaleyfi til að reka lottó fram til ársloka árið 2005. Í desember árið 2003 var  þetta einkaleyfi framlengt til 1. janúar árið 2019. Lögverndað einkaleyfi til lottóreksturs er beinn ríkisstyrkur. Þau þrenn samtök, sem skipta með sér hagnaði af þessu ábatasama fyrirtæki  eru: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands (60%) og Öryrkjabandalag Íslands (40%).

 

Þrír stjórnmálaflokkar gerðu með sér óformlegt bandalag á þingi um að hafa þetta svona. Það samkomulag var gert að næturlagi í þingflokksherbergi Alþýðubandalagsins, – líklegalega reykfylltu bakherbergi,- eða þannig. Þetta voru: Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinnn og Alþýðubandalagið. Sjálfstæðisflokkurinn var aðalbakhjarl íþróttahreyfingarinnar, Framsókn sá um Ungmennafélagið sem lengi hafði verið einskonar deild í flokknum , Alþýðubandalagið talaði einkum fyrir Öryrkjabandalagið. Oddur Ólafsson,læknir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði upphaflega flutt þetta mál. Ætlan Odds var sú  að Öryrkjabandalagið eitt nyti góðs af talnagetraunum. Oddur var alla tíð  öflugur talsmaður öryrkja á Alþingi. Þá brá svo við að Ellert B. Schram , sem þá var þingmaður utan flokka en jafnframt forystumaður í Íþróttahreyfingunni stöðvaði málið með málþófi í neðri deild  þingsins. Upp úr því var svo gert þetta samkomulag sem fyrr getur.  Alþýðuflokknum var haldið fyrir utan þennan bræðing þessara þriggja  stjórnmálaflokka. Þetta var fyrir rúmlega 23 árum.

 

 Í umræðum um málið leyfði ég mér að benda á að verið væri að setja á laggirnar einhverja afkastamestu peningamaskínu ,sem nokkurn tíma hefði verið gangsett á Íslandi. Það reyndist rétt. Ég gagnrýndi einnig hinn langa gildistíma laganna,  sem þá var „aðeins” fram til 2005 og ennfremur að  ekki skyldu fleiri samtök eða verkefni   á  sviði mannúðar- og  menningarmála njóta  góðs af þessari nýjung. Ég talaði fyrir daufum eyrum. Það var búið að ákveða þetta. Kökunni hafði þegar verið skipt. Mig minnir, að ég hafi lagt til að skipting hagnaðar af þessu fyrirtæki yrði endurskoðuð á fimm ára fresti eða svo.Ekki var heldur hlustað á það.

 

Þegar ég nú löngu seinna skoða   það sem  minnihluti   allsherjarnefndar efri deildar,  þau  Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og  Stefán Benediktsson auk mín  höfðu um þetta mál að segja   er ég  svolítið stoltur. Allt  sem við  sögðum hefur reynst rétt.

 

 Með þessu greinarkorni er tekið undir það sjónarmið forseta Bandalags íslenskra listamanna að fleiri fái að njóta góðs af lottóarðinum. Það þarf að endurskoða þetta kerfi frá grunni og það þarf að gera áður  en núverandi einkaleyfi rennur út. Tvímælalaust ber að íhuga  að  gefa fleiri samtökum möguleika á að starfrækja starfsemi af þessu tagi þar sem ágóðinn færi til mannúðar- og menningarmála.

 

Lottóarðurinn á  ekki að fara í að greiða innlendum eða innfluttum atvinnumönnum í íþróttum ofurlaun. Eða til að fjármagna fyrirhugaðan hótelrekstur og lóðabrask Ungmennafélags Íslands í miðborg  Reykjavíkur eins og frægt er að endemum.

 Í tæpan aldarfjórðung hafa þessir þrír aðilar skipt með sér lottóarðinum. Nú þarf að hugsa málið upp á nýtt, semja nýjar reglur.

 

ES: Þann 10. nóvember óskaði  greinarhöfundur eftir upplýsingum um  rekstrarkostnað Íslenskrar getspár, arð af  rekstrinum og skiptingu hans milli  eignaraðila síðastliðin fimm ár. Þeim upplýsingum var lofað. Þær hafa ekki borist.

 

Eiður Svanberg Guðnason. Birt í Fréttablaðinu 02.12.2009

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Snorri Örn,
    Þessu kerfi var aldrei ætlað að verða við lýði til eilífðarnóns. Þessvegna voru tímamörk á leyfinu. Margt gerir íþróttahreyfingin gott, – annað miður gott. Stundum finnst manni stjórendur þar lifa í eigin heimi. Ungmennafélagshugsjónin var mikilvæg á sínum tíma, en tími hennar er liðinn. Hver trúir því að í íþróttahreyfingunni séu 100 þúsund félagar og 70 þúsund í Ungmennafélögum. Það er góðra gjalda vert að Öryrkjabandalagið njóti góðs af þessu, en hversvegna mega ekki fleiri koma að borðinu? Hvað með langveik börn, hvað með félög sem styðja þá sem kljást við hjartasjúkdóma, krabbamein, Alzheimer , Parkinson ? Fleira mætti nefna
    Hvað með önnur ungmenna og æskulýðssamtök sem lengi hafa starfað en aldrei fengið sæti við lottóborðið eins og skátahreyfinguna? Það er fróðlegt að bera saman framlög til Landsmóta UMFÍ og landsmóta Bandalags íslenskra skáta.
    Það á og verður að endurskoða þetta fyrirkomulag.

  2. Snorri Örn skrifar:

    Þú hefur verið aðalhvatamaður þess að núverandi lottókerfi verði kollvarpað og að fleiri fái hlutdeild í þeim fjármunum sem þaðan er útdeilt. Ég efast ekki um að þetta verði skoðað, enda eðlilegt að útdeiling fjármuna ríkisins og einkaleyfi á lottó, happadrættum og sambærilegum „peningavélum“ sé rætt reglulega og endurskoðað ef þörf krefur. Það sem veldur mér þó áhyggjum er að þarna er tillaga um að skera af þeim litlu fjármunum sem stærsta fjöldahreyfing Íslands hefur úr að moða, án þess að tillaga um að annað komi á móti. Hefur þú sem aðalhvatamaður þessarar umræðu eitthvað hugsað út í það eða vakið máls á því?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>