«

»

Molar um málfar og miðla 219

Molar 219

 

Bolvíkingur með klúrið jólalag, segir í þriggja dálka fyrirsögn í Fréttablaðinu (10.12.2009).Þetta hafði farið fram hjá molaskrifara,,en málvís vinur vakti athygli á þessu. Æ fleiri hafa samband við Molaskrifara og benda á vont mál og rangt mál. Megi þeim fjölga sem mest, sem slíkar ábendingar senda..

Orðmyndin klúrið er ekki til íslensku.. Þarna hefði átt að standa: Bolvíkingur með klúrt jólalag. Sá sem fréttina skrifar kann reyndar orðið klúrt,sem þýðir klámfenginn, – en ekki sá sem fyrirsögnina samdi.

Aðra fyrirsögn úr sama hluta Fréttablaðsins, sama dag, nefnir Molaskrifari: Framhaldsmyndir gera sig líklegar. Óskiljanleg fyrirsögn. Skilst heldur ekki, þótt lesin sé fréttin undir henni.

Freistandi er að nefna hér til sögunnar þriðju fyrirsögnina úr Fréttablaðinu þennan sama dag: Milljón mismunandi manns !  Þið getið betur en þetta, Fréttablaðsmenn.

 

Endemis heilsíðuauglýsing er í Fréttablaðinu þennan sama dag (10.12.2009) Þar auglýsir: Stærsta Outlet landsins, Merkjaoutlet, Korputorgi . Þar er líka  talað um Taxfree daga og allar vörur séu án VSK  Svona auglýsingar eru  atlaga að tungunni. Kaupmenn og auglýsingamenn vinna markvisst að því að festa orðskrípið outlet í sessi. Er það iðja ófögur. Þó má þetta fyrirtæki eiga , að með örsmáu letri er sagt að ríkissjóður fái virðisaukaskatt af öllum seldum vörum. Afslátturinn sé á kostnað Merkja Outlets. Þetta er rétt, því ekkert fyrirtæki getur afnumið virðisaukaskatt af tilteknum vörum. Fyrirtæki geta hinsvegar veitt afslátt,sem nemur skattlagningunni. Þetta hefur verið sagt svona fimmtíu sinnum í í Molum !!!

 

Meira um Lottóauglýsingar. Ég er að vona að þessi auglýsing sé að gera sig, sagði forstjóri Lottósins í sjónvarpi ( 11.12.2009). Líklega eru ekki gerðar kröfur um íslenskukunnáttu, þegar ráðið er í þessa forstjórastöðu.

 

Í Garðapóstinum (10.12.2009) segir að bæjarfulltrúi hafi fengið Laurel heiðursviðurkenningu. Hversvegna ekki að nota móðurmálið og tala um lárviðar heiðursviðurkenningu ?

 

 

 

Nokkrir íslenskir fjölmiðlar hafa látið mikið með konuna Ásdísi Rán. Lottóið sótti hana, líklega með ærnum tilkostnaði, til Búlgaríu til að leika í frekar hallærislegri auglýsingu. DV birtir þriggja síðna viðtal við Ásdísi Rán (11.12.2009) þar sem hún segir í undirfyrirsögn að búlgörskum fjölmiðlum kvíði deginum sem hún yfirgefur landið.  Betur hefði hún sagt: .. búlgarskir fjölmiðlar kvíða deginum,sem… Haft er eftir búlgörskum blaðamanni í sömu undirfyrirsögn, að þetta sé rangt og konan sé bara  lítillega fræg, eins og það er orðað. Sem sagt ekki mjög fræg. Hún er þó allavega fræg hjá fáeinum íslenskum blaðamönnum og má  það vera henni mikil huggun harmi gegn.

Þennan pistil er einnig að finna á www.eidur.is ásamt nokkrum pólitískum athugasemdum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>