«

»

Molar um málfar og miðla 232

Áfram flæða ambögurnar í eyru okkar úr Efstaleiti. Í fréttum (05.01.2010) var talað um að kappkosta við að eyða. Málvenja er að tala um að kappkosta ,ekki kappkosta við eitthvað. Þá var og sagt að Kastljós væri líka hlaðið af Icesave. Þetta er ekki íslenska. Útvarp ríkisins verður að gera betur en þetta.

Fréttastofu útvarps ríkisins tókst að dengja á okkur að minnsta kosti þremur ambögum í kvöldfréttum (04.01.2010). Fyrst var sagt frá ummælum breska fjármálaráðherrans um Icesave og talað um að grípa inn í málinu. Skárra væri, en þó ekki gott, að tala um að grípa inn í málið. Síðan var sagt frá tíu ára gamalli stúlku frá Filippseyjum, sem hér dvelst og talað um aðgerðaáætlun fyrir veglaus börn. Veglaus þýðir án vegar, torfær, illfær, sbr. vegleysur. Vegalaus þýðir hinsvegar heimilislaus, án athvarfs. Það var orðið, sem fréttamaður átti að nota. Loks var fjallað um lækkun höfuðstóls íbúðalána hjá Landsbankanum. Þar var sagt: Skuldir umfram 110 prósentin verða þá felld niður. Þarna hefði átt að segja…verða þá felldar niður. Málfarsráðunautur RÚV þarf ekki að kvíða verkefnaskorti á nýju ári.

Þegar rætt er við fólk á götum úti og spurt um álit á málum eins og gert var í lok Kastljóss (05.01.2010) vakna áleitnar spurningar. Er öll viðtölin birt? Eru þau birt í þeirri röð sem þau áttu sér stað ? Eða er valið þannig að nokkurnveginn sé jafnt með og móti? Þetta ætti RÚV að upplýsa. Annars eru þessu viðtöl marklaus með öllu bara eins og það sem Útvarp Saga kallar skoðanankannanir, en er bara leikaraskapur.

Margan gullmolann er að finna á vefmiðlinum pressan.is. Þar var eftirfarandi klausa (03.01.2010):

Hæsta bygging heimsins, sem heitir Burj Dubai og er staðsett í Dubai, opnar í dag. Hann er 818 metra hár, 300 metrun hærri en sá næststærsti, Taipei 101 sem er í Kína. Í fyrsta lagi væri rétt að segja hæsta bygging heims. (Svo heitir heimurinn ekki Burj Dubai) í öðru lagi þá opnar þessi bygging ekki neitt. Hún verður líklega opnuð almenningi frá og með deginum í dag. Í þriðja lagi er orðið bygging kvenkyns og í fjórða lagi er Taipei á Taiwan, sem Kínverjar með miklum rétti telja hluta af Kína (og Íslendingar taka undir) en heimamenn á eyjunni, sem einu sinni var kölluð Formósa (Fagurey) eru ekki allir á sama máli.

Í sama miðli er eftirfarandi fyrirsögn (03.01.2010): Leikmenn Manchester United vanhelguðu Old Trafford. Þetta er út í hött. Að vanhelga þýðir að saurga eða vanvirða helgidóm.

Molaskrifara finnst óborganlegt að lesa , að AMX ,sem segist vera: „Fremsti fréttaskýringavefur landsins” skuli nú (03.01.2010) vera einn helsti stuðningsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar og hvetja hann til að hafna staðfestingu Icesave laganna. Undarleg tík ,pólitík, og aldrei undarlegri en þessa dagana. En skrifarar AMX verða líklega að skipta um skoðun til að ganga í takt við formann Sjálfstæðisflokksins,sem telur forsetann eiga að staðfesta lögin.

Í fréttum Stöðvar tvö (04.01.2010) var tekið svo orða, að Íslandi skorti talsmann. Hér er þágufallssýkin á ferð. Einhvern skortir eitthvað. Það er hinsvegar fínt framtak hjá Stöð tvö að bæta Winnipeg inn á veðurkortið af Norður Ameríku. Það er notalegt að sjá hitastigið hjá vinum okkar í Winnipeg, – jafnvel þótt frostið þar fari niður fyrir 35 gráður.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Birgir Örn skrifar:

    Burj Dubai haahhahahahah er hægt að gera fleiri villur. Er þetta ekki met?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>