«

»

Molar um málfar og miðla 233

Í sjónvarpsauglýsingu um ágæti Fréttablaðsins segir : Fréttablaðið er dreift um allt land. Þetta er ekki rétt.  Rétt væri að segja: Fréttablaðinu er dreift um allt land. Einhverju er dreift. Vinsamlega leiðréttið þetta, Fréttablaðsmenn. Þetta hefur  dunið á okkur að minnsta kosti tvö kvöld í röð.

Eftirfarandi er  úr dv.is (05.01.2010): Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans er staddur á ferðalagi . Þetta er  nokkuð sem  Molaskrifari hefur aldrei áður  heyrt, –  að einhver sé  staddur á  ferðalagi. Hægt er að segja  að menn séu á  ferðalagi eða að ferðast. Að vera staddur á ferðalagi er auðvitað fáránlegt orðalag.  Ekki veit  Molaskrifari hvar sá sem þetta skrifaði  hefur verið staddur. Allavega ekki á  málakri íslenskrar tungu.

Mikil mildi var að ekki fór verr, er eldur kom upp í  gömlu  timburhúsi við Hverfisgötu í Reykjavík. Frá þessu var sagt (07.01.2010)  í  sjónvarpsfréttum RÚV. Fréttaþulur komst vel að  orði  er   sagt var að  lögreglumennirnir  sem  vöktu  fólkið í húsinu hefðu unnið þrekvirki. Fréttamaðurinn,sem  fréttina   flutti  sagði hinsvegar að líklegt  væri að tilburðir lögreglumannanna hafi  bjargað mannslífum.  Að mati  Molaskrifara á  orðið  tilburðir ekki heima þarna. Frekar hefði  að að tala um snarræði  lögreglumannanna.  Orðið  tilburðir hefur með sér neikvæðan hljóm, til dæmis: Það var ekki sjón að  sjá  tilburðina  þegar hann var  að reyna  að dansa  Vínarvals.

Í sama fréttatíma RÚV sjónvarps var sagt  frá óhappi á  Keflavíkurflugvelli ,sem olli því  að loka  þurfti einni af flugbrautum vallarins í 15 mínútur.  Tvær  flugvélar áttu þá skammt  til lendingar og  þurftu að  bíða,  fljúga biðflug  eins og  sagt er. Í fréttum RÚV var hinsvegar  sagt að  flugvélarnar hafi þurft að  fljúga um á meðan.  Einkennilega til orða  tekið, en  ekki endilega  rangt.

Ekki kann Molaskrifari að meta orðalag í auglýsingu um  þátt í Ríkisútvarpinu  á sunnudagsmorgnum. Þar er talað um: Að hafa það  gaman saman. Þetta finnst Molaskrifara einstaklega óíslenskulegt orðalag. Við tölum  ekki um að hafa  það gaman. Við  getum haft gaman af einhverju. Við getum haft það  skemmtilegt. Við getum skemmt okkur  saman. En þegar maður  heyrir   sagt að hafa það gaman  saman , þá er það eiginlega lapið hrátt úr  ensku: To have  fun together.  Þetta er  ekki til eftirbreytni  hjá útvarpi  allra landsmanna.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>