Frosthörkur og fannfergi í Evrópu hafa komið við sögu í fréttum að undanförnu. Í fréttum Stöðvar tvö (10.01.2010) var sagt: Fólk var hvatt til að halda sér heima. Réttara hefði verið að segja að fólk hefði verið hvatt til að halda sig heima, -ö fara ekki út úr húsi.
Í fréttum Stöðvar tvö var (07.01.2010) talað um umfjallanir erlendra fjölmiðla. Orðið umfjöllun er ekki til í fleirtölu. Þess vegna er það út í hött að tala um umfjallanir. Það er auðvelt að komast að raun um að þetta er eintöluorð með hjálp orðabókar. En það er engu líkara en hörgull sé á orðabókum og handbókum um íslenska tungu á fréttastofum og ritstjórnum fjölmiðla. Kannski eru bækurnar til, en menn telja sig ekki þurfa á þeim að halda.
Í fréttum sömu fréttastofu, var daginn eftir notað orðið utankjörfundur. Talað var um að utankjörfundur hæfist. Þetta orð hefur Molaskrifari aldrei heyrt. Það er hægt að kjósa eða greiða atkvæði utan kjörfundar, til dæmis hjá sýslumanni eða fógeta. Það er hægt að tala um utankjörfundar atkvæði og utankjörfundar kosningu En orðið utankjörfundur er ekki til .
Svo enn sé vitnað til fréttastofu Stöðvar tvö (08.01.2010) , þá las prýðilegur fréttaþulur án þess að depla auga: Rjómi verka norrænna samtíðarlistamanna hefur verið komið fyrir í Listasafni Íslands…. Rjómi verka er ekki komið fyrir. Rjóma verka þessara listamanna hefur verið komið fyrir….. Það er að segja því besta úr verkum þeirra. Ótrúleg ambaga.
Eitt af lögunum í Söngvakeppni RÚV sjónvarpsins heitir Knock Upon My Door. Frægur texti eftir Shakin´Steven heitir Don´t Knock Upon My Door. Tilviljun ?
Ein af fyrstu starfsetningarreglum sem flestir læra er að í orðinu þátttaka eru þrjú t . Sá sem skrifaði skjátexta í fréttatíma sjónvarps ríkisins (09.01.2010) hefur ekki náð að tileinka sér þessa reglu.
Eftir greinaskrif um Lottó í desember er nú farið að minna á það í hverjum útdrætti í sjónvarpi að ágóðinn Lottóinu renni til öryrkja, íþrótta- og ungmennafélaga. Í þessari röð. Íþrótta- og Ólympíusambandið og UMFÍ fá bróðurpart hagnaðarins og Öryrkjubandalagið sýnu minnst. Svo ættu þeir hjá Lottóinu að lagfæra málfarið hjá sér og hætta að tala um að spila með.
Í fréttum Stöðvar tvö var skemmtileg úttekt á því hvernig núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur snúist hring eftir hring á stuttum stjórnmálaferli í málum eins og afskiptum forsetans af lagasetningu og svo Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslu. Geri ráð fyrir að fleiri hafi orðið hissa.
Stöð tvö sagði formann Sjálfstæðisflokksins hafa vitnað í orð Jóns Sigurðssonar: Vér mótmælum allir á Valhallarfundi (09.01.2010). Í ævisögu Jóns Sigurðssonar fyrra bindi eftir Guðjón Friðriksson er sagt frá lokum þjóðfundarins 1851 á bls. 506 . Þegar Trampe greifi hafði slitið fundinum, mótmælti Jón , rjóður í framan af reiði, í nafni konungs og þjóðarinnar og kvaðst áskilja þinginu rétt til að klaga þessa lögleysu til konungs. Síðan segir Guðjón: „Um leið og Trampe og Páll Þ. Melsteð strunsa út eru allir þingmenn risnir á fætur og flestir hrópa í einu hljóði: Vér mótmælum allir!” Þannig að þetta voru orð þjóðfundarmanna, ekki Jóns eins.
Fáir hafa sjálfstraust á borð við Ásdísi Rán Gunnarsdóttir, segir á bloggsíðu Jónasar Kristjánssonar (09.010.2010). Föðurnafn konunnar ætti að sjálfsögðu að vera í þolfalli… Gunnarsdóttur. Óvenjulegt, því málvillur eða innsláttarvillur er nær aldrei að finna á bloggsíðu Jónasar , jonas.is Hann er vandur að virðingu sinni , þegar kemur að tungunni.
Skildu eftir svar