«

»

Molar um málfar og miðla 253

Ein hallærislegasta auglýsing, sem Molaskrifari hefur er lengi séð, er frá Sjóvá. Þar er talað um að viðskiptavinbir fái sendar ávísanir og sagt „Sjóvá- ávísun á ánægju“. Þetta er nú eiginlega hámark skrums og hræsni .Ríkissjóður er nýbúinn að greiða á annan tug milljarða til að bjarga Sjóvá. Eigendurnir höfðu nefnilega tæmt bótasjóð félagsins sjálfum sér til hagsbbóta. Milljarðarnir mörgu frá ríkissjóði voru ekki „ávísun á ánægju“ fyrir íslenska skattgreiðendur ! Þetta er ótrúleg óskammfeilni.

Meira um auglýsingar. Vodaphone hvetur til þess að börn noti farsíma í auknum mæli og notar slagorð á ensku — „Power to you“. Hvað veldur? Er verjanlegt að beina auglýsingum að börnum með þessum hætti ?

Prýðileg umfjöllun var í Kastljósi (04.02.2010) um það sem kallað er „nýja setningagerðin (Það var hrint mér, það var kysst mig). Á óvart kemur að beytingin virðist hafa borist af landsbyggðnni til Reykjavíkur, Hefði fremur haldið hið gagnstæða. Auðvitað breytist málið. Það er eðli máls, ef svo má til orða taka. Þetta er þó breyting af því tagi sem Molaskrifara finnst að sporna skuli gegn. Líklega ein af mörgum neikvæðum afleiðingum minni áherslu á móðurmálskennslu í grunnskólum og framhaldsskólum. Kastljós á að fjalla meira um mál og málnotkun.

Enn halda fjölmiðlar áfram að troða upp á okkur þeirri málnotkun að tala um „síðasta haust“, „síðasta sumar“, þegar ætti að segja í fyrrahaust, í fyrrasumar. Hitt er óþörf enskun á íslenskunni. Á föstudagskvöld (05.02.2010) var í Útsvari talað um kvikmynd sem hefði verið frumsýnd „síðasta haust“.

Úr mbl.is (6.02.2010) „Þéttur snjóbylur“ hefur gengið yfir austurhluta Bandaríkjanna. Molaskrifara finnst ekki gottt að tala um „þéttan snjóbyl“. Við tölum um byl frekar en snjóbyl. Þarna hefði til dæmis mátt tala um að gríðarleg snjókoma hafi verið, glórulaus stórhríð eða iðulaus stórhríð.

Í fréttum Stöðvar tvö (05.02.2010) var talað um að „ljúka þurfi ýmisskonar pappírsvinnu“. Orðið pappírsvinna er íslenskun á enska orðinu „paperwork“,. Molaskrifara finnst þetta ekki aðlaðandi orðalag. Til dæmis hefði mátt segja að ljúka þyrfti ýmisskonar undirbúningi, ganga þyrfti frá skjölum, ljúka við skjalagerð og fleira. En mörgum finnst pappírsvinna sjálfsagt ágætt orð og ekkert um það að segja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>