«

»

Molar um málfar og miðla 257

Í þessum Molum eru ítrekað gerðar athugasemdir við sömu hlutina. Það er gert í þeirri veiku von að dropinn holi steininn. Það er engu líkara en fjölmiðlar hafi bundist samtökum um að kasta fyrir róða þeirri gamalgrónu málvenju að segja, í fyrra vor eða í fyrra sumar. Nú er í tísku að tala um síðasta sumar og síðasta vor. Þetta er auðvitað beint úr ensku,–„ last summer“,„last spring“Í fréttum Stöðvar tvö (11.02.2010) var í upphafi fréttatímans talað um um „síðasta sumar“. Um miðbik fréttatímans var talað um,„síðasta vor“ og í tíu fréttum RÚV sjónvarps þennan sama dag var talað um „síðasta laugardagskvöld“ þegar eðlilegra hefði verið að segja á laugardagskvöldið var.

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarpsins (11.02.2010) talaði íþróttafréttamaður tvisvar sinnum um „snjóstorm“. Orðið snjóstormur er ekki íslenska . Það er aulaþýðing úr ensku. Orðið snjóstormur er ekki til í íslensku. Finnst ekki í orðabókum. En bögubósar fjölmiðla keppast við að troða því í hlustir okkar. Nú leggur Molaskrifari til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins haldi sérstakan fund með fréttaliðinu til að leggja áherslu á að orðið snjóstormur er ekki til og ekki boðlegt. Hann gæti í leiðinni bent þeim á hin mörgu orð sem íslensk tunga á yfir snjókomu af ýmsu tagi. Líka mætti hann nefna þetta með „síðasta vetur“ og „síðasta sumar.“

Ekki var margt í dagskrá RÚV sjónvarps fimmtudagskvöldið 11. febrúar,sem höfðaði til Molaskrifara. Að loknum fréttum og Kastljósi: Eli Stone, bandarísk þáttaröð. Hrúturinn Hreinn. Aðþrengdar eiginkonur „Desperate Housewives„ bandarísk þáttaröð um nágrannakonur í úthverfi, Fréttir og veður, Herstöðvalíf, „Army Wives“ bandarísk þáttaröð um eiginkonur hermanna. Himinblámi, norsk þáttaröð. Þetta heitir að sinna menningunni. Tvær þáttaraðir um bandarískar eiginkonur af ýmsu tagi. Þetta er efnisröðun, sem segir sex ! Molaskrifari fór á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói þetta kvöld og naut frábærra hljómleika fram í fingurgóma.

Á vef RÚV er sagt frá efni Kastljóss og þar segir svo um einn gesta þáttarins: „Brynja fékk hann til sín í settið“. Ekki verður sagt að sérstaklega sé vandað til málfars eins og þetta er orðað.

Erfitt er að botna í því hversvegna fjölmiðlar (Stöð tvö 13.02.2010) ítrekað kalla til sem álitsgjafa lögfræðing,sem kunnastur er fyrir kennitöluflakk. Það er Molaskrifara með öllu óskiljanlegt. Er Stöð tvö að segja áhorfendum að það sé gott og gilt að skilja gamlar skuldir eftir á gömlum kennitölum og byrja upp á nýtt undir nýju númeri?

Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi pistil:

„Meintur lýðræðishalli í herbúðum Vinstri grænna hefur leitt af sér sitt af hverju; m.a. fréttatilkynningu þar sem bæði er fjallað um „aðferðafræði Vinstri grænna“ og „endurskoðun reglna um framkvæmd forvala.“ Fjögur nafnorð í einni bendu og orðið *forval* komið í fleirtölu. Voru þar úrvöl frambjóðenda? Jafnvel sumum frambjóðendum boðið upp á sjálfvöl.

*Aðferðafræði* (no.) er þýðing á enska orðinu *methodology.* Frjálsa orðabókin á Netinu skýrir orðið svo: „…the theoretical analysis of the methods appropriate to a field of study.“ Ekki fer á milli mála að það merkir viðurkenndar aðferðir við vísindarannsóknir Þetta orð er orðið eitt hinna margfrægu tískuorða, sem menn sletta óspart í rangri merkingu til þess að hljómi betur. Merkingarleysa umfram innihald.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>