«

»

Molar um málfar og miðla 310

Það voru aðstandendur lekavefsins Wikileaks, sem greiddu ferðakostnað  Kristins Hrafnssonar fréttamanns Ríkissjónvarpsins til Bagdad í Írak í vor. Frá þessu greindi Birgitta Jónsdóttir Alþingismaður í útvarpsþætti Sigurjóns M. Egilssonar  Á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 11. apríl síðastliðinn. Orðrétt sagði Birgitta: Þannig að það sé skýrt ,að það var Wikileaks, sem greiddi fyrir ferðina út, en ekki Ríkisútvarpið.

 Hlustendum og áhorfendum var aldrei sagt frá þessu. Ljóst er að Ríkisútvarpið hefur  brotið meginreglu  alvörufjölmiðla, þegar það kaus að segja  ekki frá því að utanaðkomandi aðili hefði kostað  þessa fréttaöflun. Þetta varðar trúverðugleika Ríkisútvarpsins og Kastljóss.

 Kristinn Hrafnsson fréttamaður  segir í athugasemd  við Mola um málfar og miðla 309 á  eyjan.is: Kostnaðinum var skipt og hugsa ég að Wikileaks hafi greitt um 2/3. Þau Birgitta og Kristinn verða að koma sér saman um hvað er  rétt. Greiddi Wikileaks allt eða  tvo þriðju ? Það skiptir raunar ekki öllu máli.  Það sem skiptir máli er, að hér voru hafðar uppi blekkingar gagnvart áhorfendum.

Í Molum um málfar og miðla  309 var einnig bent á að aldrei þessu vant  hefði í Kastljósi ekki verið gerð grein fyrir hver ræddi við hermanninn fyrrverandi. Þar var brotin vinnuregla,sem Kastljós hefur alltaf haft í heiðri. Um það segir  Kristinn  Hrafnsson:  „Ég hef verið í talsverðu sambandi við Ethan McCord, fyrrverandi hermann. Ekki var raunhæft að RUV kostaði ferð til Bandaríkjanna eða gervihnattasamband, til þess að taka við hann viðtal. Þess í stað var samstarf við Fiji sjónvarpsstöðina í Japan eða útstöð hennar í Bandaríkjunum. Japanska sjónvarpsstöðin fékk efni til birtingar sem tekið var af okkur í Bagdad en í staðinn fékk RUV viðtalið við Ethan. Þess má geta að ég lóðsaði framleiðanda Fiji-TV að Ethan og ræddi ítarlega við hann um uppleggið. Það er auðvitað umhugsunarefni hvort ekki hefði átt að geta þessa i sambandi við birtinguna“.

Auðvitað átti að segja áhorfendum frá þessu. Hversvegna leyna því ?  Þetta er  annað  dæmi um slæm vinnubrögð.   Ríkissjónvarpið mun ekki biðja hlustendur afsökunar. Það er ekki til siðs í Efstaleitinu. Athugasemd Kristins má lesa í heild á Molar um málfar  og miðla  309 á  eyjan.is

  Í fréttum Ríkissjónvarps var fjallað um utankjörfundaratkvæðugreiðslu  í Reykjavík vegna komandi  kosninga og   tók fréttamaður  svo til orða, að þátttakan færi stigmagnandi.  Hér var átt  við að þátttaka í atkvæðagreiðslunni  færi vaxandi. Þessi frétt var svo endurtekin orðrétt í fréttum RÚV á miðnætti. Það var  eins og enginn hefði heyrt  þessa villu,sem kannski var mismæli hjá annars ágætum fréttamanni.

  Allir eru velkomnir að hringja,  sagði útvarpsstjóri Útvarps Sögu (20.05.2010). Útvarpsstjórinn hefði átt að segja: Öllum er velkomið að hringja. Í þessum sama  þætti hnakkreifst útvarpsstjórinn við hlustanda,sem hringdi til þáttarins og skellti símanum á hann í lokin. Þá  fékk  maður  á tilfinninguna, að ef til vill væri ekki allt  með felldu þar á bæ. 

 Smáfrétt úr mbl.is (20.05.2010):Íbúa við Laxakvísl í Reykjavík var mjög brugðið þegar hann kom að bíl sínum í morgun því einhver hafði pakkað hann inn í plast og dagblöð, þannig að ekki var hægt að opna hann. Matarleyfum og ýmsu rusli hafði einnig verið kastað yfir bílinn. Eigandinn segir að bíllinn hafi verið rispaður.Við þessa frétt er að minnsta kosti tvennt athugavert: Einhverju er pakkað inn, – þess vegna átti að segja: … einhver hafði pakkað honum inn. Svo er orðið matarleifar, ekki  skrifað  með y  heldur i . Leyfist mér að leifa grautnum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>