«

»

Molar um málfar og miðla 315

Það er sumum fjölmiðlamönnum erfitt að segja rétt frá opnun kjörstaða. Annar umsjónarmanna Kosningakastljóss (28.05.2010) sagði okkur að kjörstaðir opnuðu. Lét þess hinsvegar  alveg ógetið hvað kjörstaðir mundu opna. Í morgunfréttum RÚV kl 07 00 daginn eftir var hinsvegar rétt með farið og sagt að kjörstaðir yrðu opnaðir.

Ef fréttamenn RÚV gerðu sér það ómak  að  skoða beygingu orðsins prófkjör í beygingalýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar, sæju þeir, að  eignarfall fleirtölu er prófkjöra, ekki prófkjara eins og  þeir tönnlast nú á í sífellu. Málfarsráðunautur ætti að kenna fréttamönnum að  nota þennan ágæta  vef Árnastofnunar.

Mér finnst ákveðin eftirsjá af Steinunni Valdísi í pólitíkinni, hefur mbl.is eftir stjórnmálafræðingi (27.05.2010).  Molaskrifari er á því að hér sé  notuð röng  forsetning. E-m er eftirsjá e-u , en ekki af e-u. Svo segir reyndar Íslensk orðabók líka.

 Í tíu fréttum RÚV  sjónvarps (27.05.2010) var talað um  skort á  afleysingu ! Í sama fréttatíma talaði fréttaritari um um utankjöratkvæðagreiðslu!. Hvernig  væri að vanda sig örlítið meira?

Lága verðið er að smita út frá sér, segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (27.05.2010). Af hverju ekki að segja: Lága verðið smitar út frá sér ?

 Á dögunum var birt  afar sérkennilegt viðtal í morgunþætti Rásar eitt, Vítt og breitt, við heimsspeking um mál nímenninganna, sem  ruddust ásamt fleirum  inn í Alþingishúsið  til að trufla þingstörfin eða hleypa upp þingfundi.  Svo kom  sami  dagskrárgerðarmaður með  viðtal (27.05.2010) við lagaprófessor  til að leiðrétta  ranghermi sín í  viðtalinu við heimsspekinginn. Það er  góðra gjalda vert , en  gerist of sjaldan, að  starfsmenn RÚV  viðurkenni, að þeim hafi skjöplast. Þeir mega  ekki láta samúð með  málstað leiða sig  svo langt út á þunnan ís,  að hann bresti undan þeim  eins og gerðist í þessu tilviki.

  Sjónvarpsstöðvar í Danmörku og Noregi hafa  að undanförnu minnst þess að   65 ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Hafa þær  sýnt    flokka heimildamynda um  styrjöldina. Hvernig   minnist Ríkissjónvarpið okkar þessara tímamóta? Það gerir það ekki. Það hampar hinsvegar Evróvisjón og  fótbolta öllum stundum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>