«

»

Molar um málfar og miðla 948

Hvergi í veröldinni gæti það líklega gerst nema í íslenska Ríkisútvarpinu að það væri fyrsta frétt í fréttatíma klukkan 22 00 á laugardagskvöldi (07.07.2012) að erlendur ferðamaður hefði misst framan af fingri við að setjast á stól! Ótrúlegt en satt. 

Dálítið undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (07.07.2012): Að minnsta kosti 46 létust þegar það flæddi skyndilega í Krasnodar héraðinu í suðurhluta Rússlands í nótt. Og enn undarlegra er niðurlag fréttarinnar: Héraðsyfirvöld í Krasnodar segja að flóðin hafi verið kraftmikil og að jafnvel umferðarljós hafi ekki staðið af sér beljandi vatnsflauminn. Í stað þess að segja , þegar flæddi skyndilega hefði gjarnan mátt segja hvað orsakað hefði þessi skyndilegu flóð. Brast stífla? Mikil úrkoma? Hvað gerðist? Það er heldur ekki merkilegur mælikvarði á flóð hvort umferðarljós þoli flóðin! Í seinni fréttum frá Rússlandi kom fram að mikil úrkoma olli flóðunum, sem í Ríkisútvarpinu voru kölluð ,,skyndiflóð”. Það er svo sem ágætt heiti á því sem á ensku er kallað ,,flash flood”, – óvænt og óhemjumikil flóð. Kannski væri ,,leifturflóð” einnig nothæft orð. Bogi Ágústsson sleppti því réttilega í kvöldfréttum Ríkissjónvarps að nefna umferðarljósin!

Í tíufrettum Ríkisútvarps (06.07.2012) var sagt frá bilun í sjónvarpssendi á Suðurlandi. Sagt var að sjónvarpsútsending lægi niðri, sem er orðið fast orðalag í fréttum þegar truflanir eða bilanir verða á sjónvarpssendingum eða öðrum fjarskiptum. Fram kom að tæknimaður ynni að viðgerð. Síðan var sagt að ekki væri vitað hvenær tækist að koma í veg fyrir bilunina! Einfaldara hefði verið að segja að ekki væri vitað hve viðgerð mundi taka langan tíma eða hvenær viðgerð lyki. Aftur voru truflanir á útsendingum sjónvarps kvöldið eftir. Frá þeim var ekki sagt fyrr en eftir dúk og disk.

 

tekur þátt á móti, sagði þrautreyndur fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (07.07.2012). Molaskrifara finnst að Ríkisútvarpið ætti að halda sig við málvenjuna að taka þátt í móti og hins vegar að keppa á móti.

 Í kynningu á dagskrá Ríkissjónvarpsins í hádegisútvarpi (07.07.2012) var skýrt og með sterkri áherslu talað um ríkið /konnekktikött/ í Bandaríkjunum. Hér-hikk-á rúv kona sjónvarpsins endurtók þessa villu í dagskrárkynningu um kvöldið. Í sæmilega rétttum framburði er talað um /konnettikött/ Molaskrifari leggur til að nýir þulir fái blað með lista yfir þau erlendu orð sem óreyndum verða einna helst að fótakefli í framburði. Molaskrifari sér ástæðu til að endurbirta ágæta athugasemd sem Arnbjörn skrifaði nýlega við Mola, en hún er svohljóðandi: ,, Ensku heitin Bicester, Leicester, Worcester, Arkansas, Plymouth, Newcastle eru líkt og Connecticut erfið í framburði fyrir þá sem hafa ekki mikið vald á enskri tungu en þar er stafsetningin, eins og kunnugt er, mjög frábrugðin hljóðrituninni. Eg man hve hissa eg var þegar eg sá fyrst ‘martial law’ fyrst á prenti enda hafði eg hugsað mér lög sem marskálkar höfðu sett. Stafsetningarþrautin ‘Chzechoslovakia’ er svo annað dæmi um orð sem hefir reynst mörgum þung í skauti.”

Til hvers er Ríkissjónvarpið með hér-hikk-á rúv konuröddina, sem sífellt er að segja okkur frá því hvað er á dagskrá, ef ekki til þess að tilkynna um bilanir eða truflanir í útsendingu eins og urðu milli klukkan 19 00 og rúmlega 20 00 á laugardagskvöld (07.07.2012) Er enginn á vakt í Efstaleiti sem getur komið tilkynningum á framfæri við sjónvarpsáhorfendur? Undarlegt ef svo er.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ásgeir skrifar:

    hér er hlekkurinn>>>
    http://www.dv.is/folk/2012/7/8/tony-peralta-eydir-tveimur-timum-dag-i-kommentakerfum-islands/

  2. Eiður skrifar:

    Sæll, Ásgeir, – kærar þakkir fyrir þetta. Athugasemd þín hefur greinilega farið fram hjá mér. Var hún um annað efni en þetta?

  3. Ásgeir skrifar:

    Sæll Eiður!
    Ég sendi þér klipp úr Dv.is sem þú hefur etv séð. Það virðist hafa orðið til ný stétt í landinu sem ekki hefur fundist nafn á ennþá?

    dv.is „Tilkoma athugasemdakerfa netmiðlanna hefur valdið straumhvörfum í umræðum á Íslandi. Úr jarðvegi þessa nýja vettvangs hefur sprottið nýr þjóðfélagshópur; kommentarar. Kommentarar hafa á undanförnum mánuðum rutt sér æ meira til rúms í hinni opinberu umræðu“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>