Úr mbl.is (07.07.2012) : ,,Þetta er rosalega góð byrjun,“ segir Trausti Bjarnason, bóndi á Á á Skarðsstönd, um veiðina í Krossá,… Gaman að þessu. Næstum eins gott og: Árni á Á á á.
Sívalaturn 375 ára, segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (07.07.2012). Ætti að vera: Sívaliturn 375 ára.
Lesandi (07.07.2012) vísar á þennan texta í Viðskiptablaðinu sem hann réttilega telur ekki mjög vandaðan. http://www.vb.is/skodun/74318/ .
Síðan segir sá sem sendi: ,,Þetta er ekki sérlega fallegur texti, hvað svo sem má segja um boðskap nýfrjálshyggjunar sem höfundur hefur haldið á lofti síðustu ár. Hann hefur fengið mikið lof frá AMX fyrir hugmyndafræðina en kannski mætti setja hana fram með örlítið betri hætti.”
Hér hefur stundum verið vakin athygli á undarlegum myndbirtingum með fréttum í vefmiðlum. Á mbl.is (07.07.2012) er sagt frá ökuferð sem sem endaði í tjörn við Flugstöð Leifs Eiríkssonar við Keflavíkurflugvöll. Með fréttinni er birt mynd innan úr flugstöðinni ! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/07/07/bilferdin_endadi_i_tjorninni/ Þetta er líklega gert í samræmi við það að betra sé að veifa röngu tré en öngu!
Bílvelta í Miklaholtshrepp, segir bæði í frétt og fyrirsögn á mbl.is (07.07.2012). Ætti að vera: Bílvelta í Miklaholtshreppi. Þágufallið af orðinu hreppur er hreppi. Nokkru seinna var frá því sagt að söngkona, ágæt, byði til tónleika í Háskólabíó. Molaskrifari hefði haldið betra hefði verið að segja að boðið væri til tónleika í Háskólabíói.
Á dv.is (07.07.2012) segir í fyrirsögn og frétt (oftar en einu sinni) að kona leitist eftir stuðningi: Arna Bára leitast eftir stuðningi í Playboy-keppni .. átt er við að konan sé að leita eftir stuðningi. En þarna er þó samræmi í vitleysunni.
Baldur Garðarsson sendi eftirfarandi (07.07.2012): Bendi á tvennt sem mér finnst ekki alveg í lagi :
a) Fyrirsögn á dv.is : ,,Situr uppi með sárt ennið“ (Kona keypti íbúð sem reyndist gölluð). Ég sé konuna fyrir mér sitjandi upp við dogg í sjúkrarúmi með plástur á enninu.
b) MBL 7.7.2012 bls. 43 : ,, 3 fyrir 2 á öllum nærbuxum – fáðu þá ódýrustu ókeypis“ (heilsíðuauglýsing frá versluninni Lindex. Svona auglýsing kostar mikið, lágmark að eitthvað vitrænt sé í texta hennar).
Molaskrifari þakkar Baldri sendinguna. Hann hefur ekki áður heyrt að sitja uppi með sárt ennið. Hins vegar er tiltölulega algengt að tala um að sitja eftir með sárt ennið , hafi maður verið svikinn eða plataður.
Lesandi vakti athygli á þessum undarlegu skrifum á dv.is. http://www.dv.is/folk/2012/7/8/tony-peralta-eydir-tveimur-timum-dag-i-kommentakerfum-islands/ . Molaskrifari lætur Molalesendum eftir að dæma þetta rugl.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar