Fyrir gamlan fréttamann er ótrúlegt að fylgjast með fréttum af veðurhamnum vestra. Geta vafrað milli nokkurra erlendra stöðva sem gera þessum náttúruhamförum skil. Fréttaöflunartæknin er ótrúleg. Ekki verður annað sagt en að fréttir CNN hafi borið af því sem var á boðstólum áskriftarpakka Molaskrifara. Langt er þó frá því að öll kurl séu komin til grafar í þessum hamagangi.
Molalesandi þakkar baráttu fyrir betra málfari í fjölmiðlum og segir: ,,Tilefni þessara skrifa er annars að minnast á orðalag sem heyrist og sést því miður allt of oft, þó að kannski hafi eitthvað dregið úr því.
Þetta heyrðist m.a. í hádegisfréttum í dag (27.10.2012) þegar þulurinn sagði: „Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum…..“
Ég get ekki að því gert en þetta eru þau mállýti sem mest og verst fara í mínar viðkvæmu taugar.
Ef þú ert sammála mér þá bið ég þig þess lengstra orða að leggja baráttunni fyrir útrýmingu þess það lið sem þú mátt.” Molaskrifari þakkar bréfið og tekur heils hugar undir efni þess. Hann hefur áður gert athugasemdir til dæmis við orðalagið samkvæmt lögreglunni sem honum finnst jafn ótækt og bréfritara að segja samkvæmt Sameinuðu þjóðunum.
Eftirfarandi sendi lesandi (26.10.2012): ,Úr DV í dag:
„Sé það rétt mat er ljóst að Pálmi mun tapa meira en tveimur milljörðum af þeim fjármögnum sem hann hefur lagt félaginu til síðastliðið ár.“. Það var og. Merkilegt hvernig svona lagað sleppur á skjáinn. Líklega vantar síurnar. Það les enginn yfir.
Íþróttafréttir Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (27.10.2012) sýndu varla hinn sanna íþróttaanda. Þar sáust dæmi um alveg óvenjulegan fautaskap. En þar voru líka málblóm.: .. átti annan besta fáanlega tímann. Og … tókst að lesa aðstæður vel. Hvað eiga íþróttamenn við þegar sagt er eins og sagt var í þessum fréttatíma, að einhver hafi stolið sigrinum? Var sigurinn óverðskuldaður?
Af mbl.is (28.10.12) Veðurfræðingar segja að fellibylurinn Sandy eigi eftir að ferðast yfir stórt svæði Bandaríkjanna, … Ferðast yfir stórt svæði er dálítið undarlegt orðalag þegar veður á úi hlut.
Á sunnudagskvöldið sýndi Ríkissjónvarpið góða og gamla gamanmynd sem gerð var árið 1947 og heitir á ensku The Secret Life of Walter Mitty. Þegar myndin var sýnd í Gamla bíói í Reykjavík líkast til 1949 eða 1950 Fékk hún það ágæta heiti; Dagdraumar Walters Mittys. Ríkissjónvarpið kallaði myndina í dagskrá hinsvegar Leynilíf Walters Mittys. Það er auðvitað ekki röng þýðing. Það er bókstafsþýðing eða jafnvel Google þýðing. Það er meiri reisn yfir eldra heitinu og það nær efninu vel. Ekki man Molaskrifari betur en í sumar þegar verið var að vinna að nýrri gerð, eða endurgerð þessarar myndar hér á landi að þá hafi jafnan verið talað um myndina undir gamla heitinu , Dagdrauma Walters Mittys.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/10/2012 at 12:42 (UTC 0)
Þetta er stórfrétt og eðlilegt að hún fái mikið rými í fréttum, – einnig hér á landi.
Konráð Erlendsson skrifar:
30/10/2012 at 11:45 (UTC 0)
Fréttamiðlunin er vissulega mögnuð, en:
Ætli engum finnist full mikið af því góða þegar fjórðungur íslensks útvarpsfréttatíma (hádegisfréttir RUV) fer í veðurfréttir úr öðrum heimsálfum? Við fengum meira að segja að heyra hvað Obama hafði um málið að segja. Það er eins og þetta sé að gerast hér innanlands. Það er ekki svona mikið við haft þó nokkur þúsund manns farist austur í Asíu. Ég er líka að verða búinn að fá alveg nóg af fréttum af forsetaframbjóðendum þar vestra sem búnar eru að dynja á okkur oft á dag, mánuðum saman.
K.