Í seinni fréttum sjónvarps (08.11.2012) var sagt frá báti sem fékk á sig brotsjó undan Vestfjörðum. Sagt var að báturinn hefði komið til hafnar í Bolungarvík með skipverjana tvo heilu og höldnu. Hér hefði ef til vill átt betur við að segja með skipverjana tvo heila á húfi.
Neyslugrannur fyrir sportjeppa, segir í bíladómi í Fréttatímanum (09.11.2012). Þetta er ekki vel orðað. Þarna ætti til dæmis að standa: Neyslugrannur miðað við sportjeppa, eða neyslugrannur af sportjeppa að vera.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (09.11.2012) var sagt að eftirlit með skuldum væri ábótavant. Þegar betur var að gáð og fréttavefur Ríkisútvarpsins var skoðaður mátt sjá sömu villuna bæði í fyrirsögn og texta: Eftirlit ráðuneyta með skuldum stofnana er mjög ábótavant að mati Ríkisendurskoðunar en skuldir þeirra námu um tuttugu milljörðum íslenskra króna í lok síðasta árs … Þetta er ekki með neinu móti hægt að kalla vönduð vinnubrögð. Málfarsráðunautur , – sé hann enn að störfum, verður að herða róðurinn. Þetta á auðvitað að vera: Eftirliti ábótavant. Eitthvað er ekki bótavant, heldur er einhverju ábótavant. Sjá http://www.ruv.is/frett/eftirlit-med-skuldum-stofnana-abotavant Svona stóð þetta óbreytt meira en klukkutíma eftir að fréttin var lesin. Enginn hlustar , enginn sér…. Ótrúlegt.
Athyglisverður og fróðlegur þáttur um björgunarsveitirnar í Ríkissjónvarpinu í kvöld (11.11.2012) á eftir Landanum,sem var góður að vanda. Björgunarsveitirnar ættu að fá hlutdeild í Lottópeningunum, hluta af því sem íþróttafélögin og UMFÍ (sem orðið er frægt að endemum fyrir brask) fá núna. Sennilega hefur enginn stjórnmálamaður kjark til að leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Lagabreytingu þarf til að breyta skiptingu lottófjárins.
Daginn eftir sögulega flengingu formanns Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri (12.11.2012) skrifar Moggi leiðara, – ekki um að formaðurinn ætti nú að staldra við og hugsa sinn gang, – nei. Moggi skrifar leiðara um framhjáhalda forseta í Banaríkjunum og fleiri fyrirmanna úti í heimi! Gaman að þessu.
Eftir að hafa hlustað á fréttir í Ríkisútvarpinu klukkan sex að morgni (09.11.2012) stillti Molaskrifari á Útvarp Sögu. Þar var á dagskrá endurfluttur símatími Péturs Gunnlaugssonar stjórnarformanns Útvarps Sögu. Þar var ausið svívirðingum yfir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þannig að Molaskrifari hefur ekki áður heyrt annað eins orðbragð í útvarpi. Stjórnlagaráðsmaðurinn og þáttarstjórnandinn Pétur, jánkaði öllu sem sagt var. Sá sem svívirðingunum jós, heitir Björn eða Bjössi og titlar sig rafvirkja. Næst kom gamall framsóknarmaður úr símahirð Söguhjúa (þeir sækja í þessa stöð), Kristinn Snæland sem lofaði prísaði svívirðingarnar sem ausið hafði verið yfir Össur. Þá slökkti Molaskrifari. Hvert var tilefni svívirðinganna? Þróunaraðstoð Íslendinga við fátækar þjóðir en sá málaflokkur heyrir undir utanríkisráðuneytið og þar með Össur. Svona sóðaskapur á ekkert skylt við fjölmiðlun. Þetta var ótrúlegt á að hlýða.
Af 200 stofnunum voru 70% rekin með halla miðað við fjárveitingu , segir í undifyrisögn á Morgunblaðinu. (10.11.12). Hér ætti auðvitað að standa: Af 200 stofnunum voru 70% reknar með halla …
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar