«

»

Molar um málfar og miðla 1065

Molavinur, sem ekki vill láta nafns síns getið skrifar: ,, Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag, 18. nóvember, sagði Björn Malmquist fréttamaður að deilt hefði verið um kjörgengi manna í flokksvali Samfylkingarinnar laugardaginn 17. nóvember. Deilan stóð ekki um þetta heldur kosningarétt 350 félagsmanna í Rósinni. Það er sérkennilegt og í raun undarlegt og alvarlegt ef fréttamaður sem tekur að sér að miðla upplýsingum um stjórnmál og kosningar er ekki betur að sér um íslensk grunnhugtök á þessu sviði. Viti menn ekki um hvað þeir eru að tala eru þeir ekki færir um að miðla því til annarra.” Molaskrifari þakkar bréfið og er bréfritara sammála. Það verður að gera þá kröfu til fréttamanna sem segja okkur fréttir að þeir kunni skil á kjörgengi og kosningarétti og rugli þessu ekki saman.

Ekki fellir Molaskrifari sig við orðalagið að halda ávarp sem notað var í kvöldfréttum Ríkisútvarps (178.11.2012). Hann er á því að betra sé að tala um að flytja ávarp, halda ræðu, eða flytja ræðu. Kann þó að vera svolítil sérviska.

Auglýsingadeildir sjónvarpsstöðvanna virðast oft ekki sjá ritvillur í skjáauglýsingum. Í auglýsingu um myndbandamarkað á Stöð tvö segir ( 17.11.2012) : Síðasti Dagur Er Á Morgun. Velflestir grunnskólanemendur gætu sagt starfsfólki auglýsingadeildar að svona eigi ekki að skrifa þetta, heldur: Síðasti dagur er á morgun.

Í lok almennra frétta beggja sjónvarpsstöðvanna á laugardagskvöld (17.11.2012) var okkur sagt að nú væri röðin komin að feitum íþróttapakka! Smit eða samráð?

Ágúst Ragnarsson segir (18.11.2012): ,,Ég spila mikið golf á sumrin og fylgist með hvað er að gerast í íþróttinni úti í heimi.
En nú er ég í vandræðum. Hvaðan koma Ástralir sem eru ekki frá Ástralíu??
Hér er frétt í dag á RÚV:
„Jiménez lauk leik á samtals á 15 höggum undir pari og varð einu höggi á undan Svíanum Fredrik Andersson Hed en Ástralinn Marcus Fraser frá Ástralíu varð þriðji á samtals 12 höggum undir pari.” Ekki er nema von að spurt sé!

Í Danmörku og Noregi er nú verið að endursýna þáttaröðin Matador (1979) þar sem Erik Balling leikstýrði mörgum bestu leikurum Dana. Þessir þættir eru líklega eitt besta leikna efni sem framleitt hefur verið á Norðurlöndum af þessum toga. Þeir eru fyllilega samkeppnisfærir við breskt hágæðaefni í þessum flokki. Ríkissjónvarpið ætti að kasta út einhverju af ameríska ruslinu sem þar er á boðstólum á hverju kvöldi og endursýna þessa þáttaröð. Hún er sígild.

Molaskrifari hefur kvartað undan því að ekki séu sýndir erlendir fréttaskýringaþættir í Ríkissjónvarpinu. Forgangsröðunin í fjármálum nær ekki til slíks efnis. Dans, dans,dans og fleira slíkt er í forgangi. Ef áhugi væri fyrir hendi gæti Ríkissjónvarpið örugglega fengið að sýna til dæmis erlenda fréttaskýringaþætti frá NRK2 Urix. Þeir eru sýndir fjórum sinnum í viku og þar eru erlendum viðburðum og fréttum gerð mjög góð skil. Vandaðir þættir.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hvað áttu við, Pétur ?

  2. Petur skrifar:

    Sæll Eiður,

    Hver er rangfærslan varðandi Ágúst Ragnarsson? Það vantar reyndar gæsalappir í lok setningarinnar.

    Kveðja,
    Pétur

  3. Eiður skrifar:

    Rétt, Magnús. ….. endursýna þáttaröðina , – að sjálfsögðu. Og sömuleiðis þetta með hágæða …. svona smitast maður af auglýsingum ! Enginn er ónæmur , þótt hann þykist hafa verið bólusettur !

  4. Eirný Vals skrifar:

    Líklega er rétt að einhver ávarpi fund, samkomu eða þing, flytji ræðu og haldi erindi.
    Mér finnst rangt að einhver haldi ávarp.

  5. Magnús skrifar:

    Orðið hágæði er afleitt. „Jón er mikið hágæðablóð“. Því væri nóg að segja: „Þeir eru fyllilega samkeppnisfærir við breskt gæðaefni í þessum flokki.“ Gæði geta verið mikil eða lítil, ekki há eða lág.

    Innsláttarmistök eru algeng og engin ástæða til þess að hneykslast á þeim öllum. Mig grunar að Ástralinn frá Ástralíu hafi verið settur inn til að hafa samræmi við Svíann fyrr í setningunni og gleymst að taka út „frá Ástralíu“. Í pistlinum hér að ofan eru til dæmis ein slík innsláttarmistök (beygingarvilla?): „Í Danmörku og Noregi er nú verið að endursýna þáttaröðin Matador.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>