Æ oftar heyrist sagt í fréttum að koma á móts við, þegar Molaskrifara þætti eðlilegra að tala um að koma til móts við, stíga skref til samkomulags eða málamiðlunar. Hann kom til móts við mig og borgaði helming kostnaðar. Á móts við er í huga Molaskrifara frekar notað um staðsetningu. Til dæmis: Á Hafnarfjarðarveginum á móts við Nesti.
Molaskrifari hlustaði skamma stund á Virka morgna á föstudagsmorgni (23.11.2012) og fékk staðfestingu á því að Ríkisútvarpsmönnum þykir einna mest gaman að tala við Ríkisútvarpsmenn. Hæg eru heimatökin.
Tugþúsundir andæfa yfirgangi forsetans, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (24.11.2012). Þetta var í Egyptalandi.
Hér er orðrétt tilvitnun (23.11.2012) í athugasemd frá einlægum aðdáanda svokallaðra Hraðfrétta í Kastljósi Ríkissjónvarpsins: ,,ég vildi bara láta þig vita meða við dagskrá Sjónvarpstöðvarninar rúv, þá vill ég að hver einasta króna sem ég borga í nefskatt fari í hraðfréttastrákana.” Svo er margt sinnið sem skinnið!
Kjarninn í menningarstefnu Ríkissjónvarpsins felst í því að dans og popp skipti mestu máli af öllu í lífinu. Það er heldur einhæf og vond stefna.
Það er hægt að hafa lúmskt gaman af því að fylgjast með því þegar ný orðatiltæki spretta úr jarðvegi tungunnar, – misgóð að vísu- og fá áheyrn hjá þjóðinni. Ekki er langt síðan að einhver fór að tala um að það sem væri í vændum, væri að gerast eða hefði verið að gerast væri að detta inn, hefði verið að detta inn, hefði verið að detta í hús. Nú er þetta á allra vörum. Ráðherrar og þingmenn tala í viðtölum við fjölmiðla um eitthvað sem var að detta inn eða er að detta inn ! Ekki er svo sem víst að þetta verði langlíft. Tískufyrirbæri eru það yfirleitt ekki.
Svo er hinum einkavædda auglýsingatíma , Hraðfréttum, úr Kastljósi dengt á okkur á laugardagskvöldi (24.11.2012) !
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (24.11.2012) í frétt um skoðun alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody´s á efnahagsmálum á Íslandi: Moody’s telur að efnahagsstefna stjórnvalda sé skynsamleg og horfur séu á að halli ríkissjóðs haldi áfram að minnka. Matsfyrirtækið Morgunblaðið sem hefur sérhæft sig í fréttamati á efnahagsmálum er alls ekki sammála þessu erlenda fyrirtæki. Enda tekur Moggi yfirleitt ekki mikið mark á útlendingum nema svo ólíklega vilji til að þeir séu honum sammála.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
26/11/2012 at 20:28 (UTC 0)
Það les hver milli línanna sem honum er efst í huga.
Arnar H skrifar:
26/11/2012 at 18:13 (UTC 0)
Sæll
Þú hefur orðrétt eftir aðdáenda Hraðfrétta: Hér er orðrétt tilvitnun (23.11.2012) í athugasemd frá einlægum aðdáanda svokallaðra Hraðfrétta í Kastljósi Ríkissjónvarpsins: ,,ég vildi bara láta þig vita meða við dagskrá Sjónvarpstöðvarninar rúv, þá vill ég að hver einasta króna sem ég borga í nefskatt fari í hraðfréttastrákana.” Svo er margt sinnið sem skinnið!
Er svo á ritara svokallaðra Mola um málfar að heyra, að vegna slakrar getu aðdáendans til að rita rétt og gott mál að hans skoðun sé eitthvað minna mark á takandi en ritarans svokallaða? Það les ég milli línanna hjá þér!
Svo er margt sinnið sem skinnið!
Þú gerir þér grein fyrir því að þín skoðun kann kannski ekki að endurspegla skoðun almennings. Jafnvel þykir mörgum bara nokk gaman að skemmtiefni sem ekki er skv. gömlum hefðum og langar að sjá eitthvað gegt og kreysý.
Góðar stundir.
Kv AH
Kormákur Bragason skrifar:
26/11/2012 at 16:59 (UTC 0)
Það er hægt að hafa lúmskt gaman af því að fylgjast með því þegar ný orðatiltæki spretta úr jarðvegi tungunnar….
Er ekki betra að sleppa því að tvítaka „því“ í setningunni og hafa hana heldur svona;
Það er hægt að hafa lúmskt gaman af því að fylgjast með þegar ný orðatiltæki spretta úr jarðvegi tungunnar….
Afsakið að ég kann ekki að skrifa réttar gæsalappir á þessa tölvu.
Það er tvíbent sverð, sem maður hefur í höndunum við málfarsábendingar. Mér dettur í hug að hægt sé að misskilja þessa setningu eða staðhæfingu; „Kjarninn í menningarstefnu Ríkissjónvarpsins felst í því að dans og popp skipti mestu máli af öllu í lífinu. Það er heldur einhæf og vond stefna.“ Er ekki hér átt við dans-og popptónlist?