«

»

Molar um málfar og miðla 1336

 

Molavin sendi eftirfarandi (24.10.2013): ,,Við óskum þessum nýju Lottómilljónamæringum innilega til hamingju með vinninginn.“ Þetta eru lokaorð Morgunblaðsfréttar (mbl.is24.10.13) um vinningshafa. Hér lætur blaðið sér nægja að birta fréttatilkynningu Íslenskrar getspár í heild sinni. Ekki haft fyrir því að umskrifa. Fréttamennska er að læðast út af ritstjórnum, hægt og hljótt. – Það er hverju orði sannara. Varla er mannekla mikil á mbl.is.

Þessu til viðbótar má vitna í umrædda frétt(atilkynningu), bætir Molavin við, og benda á klúðursleg skrif: ,,Vinningshafinn var ung fjölskyldukona frá Akranesi, þriggja barna móðir, sem er með miða í áskrift. En þar sem veðrið á Skaganum var svo gott í síðustu viku ákvað konan að bóna bílinn, fór í Olís og verslaði sér bón…“ Og verslaði sér bón! Ætli konan hafi ekki frekar keypt sér bón?

 

Molaskrifari hefur hrósað rafræna vikuritinu Kjarnanum í hástert og dáðst að þeim sem að því standa. Þeim fatast þó flugið dálítið í 10. útgáfu, eða tölublaði. Þar er talað um Vigdísi Hauksdóttur sem einn farsælasta stjórnmálamann landsins eftir hrunið! Skrítið mat og óskiljanlegt. Verið er að tala um þingmann sem er mikill ambögusmiður  segir hverja endileysuna á fætur annarri og lofaði milljörðum á milljarða ofan í rekstur Landspítalans fyrir kosningar, – engar efndir í augsýn. Sá sem þetta skrifaði í Kjarnann hefur kannski dvalist með Framsóknarnmönnum í Kakastan (sem aðrir kalla Kasakstan) undanfarnar vikur og mánuði og ekkert fylgst með pólitíkinni á Íslandi. Svona skrif eru ekki leiðin til að láta taka mark á sér.

Þá vekur einnig athygli í þessari útgáfu Kjarnans langloku drottningarviðtal við Hildi Sverrisdóttur sem nú sækist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í reykjavík. Faglegar eða fréttalegar forsendir þess viðtals blasa hreint ekki við og eru langsóttar. Kannski er þetta viðtal bara vinargreiði.

 

Í Kjarnaum (10. útgáfu 24.10.2013) segir: Eru einhverjir að ríða feitum hesti á að framleiða tónlistarmyndbönd hér á landi ….? Hér er orðtak rangt notað. Talað er um að ríða ekki feitum hesti frá einhverju, hagnast ekki á einhverju, komast ekki vel frá einhverju ( Sjá t.d. Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls 337). Sitthvað fleira var undarlegt í þessari grein í Kjarnanum. Annars hefur þetta ágæta vefrit   verið mikið til laust við málfarshnökra.

 

Af mbl.is (25.10.2013: Fjögur samtök munu vinna saman að þessu verkefni í ár. Betra væri: Fern Samtök munu vinna saman að þessu verkefni í ár.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Að sjálfsögðu, Þorvaldur.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Nú er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að einhver ríði feitum hesti frá viðskiptum. En það hljómar hins vegar ekkert sérstaklega að ríða feitum hesti á myndbandaframleiðslu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>