Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins eru of margar misfellur í málfari. Að morgni fimmtudags (20.11.2014) var talað um að versla jólagjafir á netinu og fara í mollin. Við kaupum jólagjafir og moll er hallærisleg enskusletta (shopping-mall). Íslendingar tala um að fara í Kringluna eða fara í Smáralindina. Svo var okkur sagt að klukkan væri alveg að detta í hálf átta. Hún hefur vonandi ekki skemmst í fallinu.
Molaskrifari veit ekki hvaða málfarskröfur eru gerðar til þeirra sem falið er að sjá um fasta þætti í Ríkisútvarpinu. Í þessum hætti hafa ekki verið gerðar strangar kröfur til allra, sem þar koma við sögu.
Grunnhugmyndin á bak við Rás tvö á sínum tíma var að geta boðið hlustendum ólíkt efni á tveimur útvarpsrásum. Nú er sama efnið flutt á báðum rásum Ríkisútvarpsins frá klukkan hálf sjö á morgnana til klukkan níu. Getum við ekki fengið þátt á aðra rásina þar sem er meiri tónlist, minna um innihaldslítið fjas og umfram allt minna um málblóm, færri ambögur?
Kosið verður um vinnumatið, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (19.11.2014). Skyldu margir listar verða í framboði? Það verða greidd atkvæði um vinnumatið, ekki kosið um það.
Gamall vinur og skólabróðir sem lengi hefur verið búsettur í útlöndum skrifaði (20.11.2014): ,,Sá þetta í bloggheimum:
Guðrún Konný Pálmadóttir · Virkur í athugasemdum · Skóli Lífsins
Ömurð í einu orði sagt!
Hef ekki séð þetta áður. Hreint ágætt orð!” Molaskrifari tekur undir og bætir við að Guðrúnu Konnýju þekkir hann að góðu einu frá fornu fari. Ekki hissa þótt hún fáist við orðasmíð.
Af mbl.is (220.11.2014):,, Buster ersex ára springer spanielhundur og starfsmaður lögreglunnar á Selfossi …” Molaskrifari veit að það getur verið hundur í starfsmönnum og menn geta verið með hundshaus, en að hundar séu starfsmenn er nýtt fyrir honum. En sennilega hefur hann ekki hundsvit á þessu.
Í íþróttafréttum Ríkisútvarps (20.11.2014) var sagt um þjálfara að hann væri spenntur fyrir leiknum í kvöld. Að vera spenntur fyrir einhverju hefur í huga Molaskrifara alltaf þýtt að hafa mikinn áhuga á einhverju. Að vera spenntur fyrir einhverjum/einhverri gæti þýtt að vera svolítið skotinn. Þjálfarinn var samkvæmt málkennd Molaskrifara spenntur vegna leiksins í kvöld.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
22/11/2014 at 12:45 (UTC 0)
Nei, Björn, – eiginlega ekki. Fyrirtækið ætti að skammast sín, – svo og auglýsingatsofan sem hugmyndin sennilega er komin frá.
Björn Baldursson skrifar:
22/11/2014 at 11:22 (UTC 0)
Komdu sæll, Eiður.
Björn skrifar: Fyrirtækið Vodafone hefur dreift fjórblöðungi í hús. Á forsíðunni stendur skrifað stórum stöfum: Jólin eru Red í ár.
Getur þetta orðið lágkúrulegra?