«

»

Molar um málfar og miðla 1620

 

Molavin skrifaði (22.11.2014) : ,,Í fyrirsögn á Netmogga (21.11.2014) segir m.a.: „Hef­ur grætt millj­ón­ir á nammisölu“ Hér eru dæmigerð skrif frá fréttabarni. Þótt barnaorðið „nammí“ hafi náð nokkurri útbreiðslu í talmáli, gert af ungbarnahjalinu „nammí-namm“ er ástæðulaust að nota það í fréttaskrif í blaði, sem hefur alltaf viljað taka sig alvarlega, sem fréttablað amk. Sælgæti er hið hefðbundna orð.” – Satt og rétt. Þakka bréfið.

 

Á vef Ríkisútvarpsins (20.11.2014) segir: ,, Efling hefur sent ræstingarfyrirtækinu bréf þar sem bent er á að fjölmörg atriði sem tengjast kjörum og aðbúnaði sé verulega ábótavant.” Hér ætti að tala um að fjölmörgum atriðum væri ábótavant. Ekki að fjölmörg atriði sé ábótavant. Sjá: http://www.ruv.is/frett/keyra-kjorin-nidur-fyrir-botninn

Ætti ekki líka að tala um ræstingafyrirtæki, fremur en ræstingarfyrirtæki?

 

Í þessari frétt http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/20/mannlaus_trukkur_olli_miklu_tjoni/

á mbl.is (20.112014) segir frá því er mannlaus flutningabíll rann af stað og olli talsverðu tjóni. Í fréttinni segir meðal annars: ,, Flutn­inga­bif­reiðin rakst á bif­reiðar, ók niður bruna­h­ana og rakst á end­an­um á hús­næðið.” Molaskrifara finnst það undarlegt orðalag að bifreið segja að hafi rekist á húsnæði. Bifreiðin rakst á hús. Í fréttinni segir enn fremur: ,, Vöru­bíll­inn er tölu­vert tjónaður …” Átt er við að vörubíllinn hafi skemmst talsvert.

 

Ný ambaga hefur skotið upp kollinum í vélrænum þýðingum fésbókar: Nú eru menn farnir að líka við athöfnið mitt!!

 

Íslensk getspá er komin á 2007 línuna í auglýsingum. Fyrirtækið auglýsir, að þeir, sem hljóti veglegan vinning, geti notað andvirði til að snatta innanbæjar á þyrlu. Ósköp er þetta nú eiginlega hallærislegt! https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/149d2379c159057d

 

 

Molalesandi sendi eftirfarandi (21.11.2014):,, Ölgerð Egils Skallagrímssonar er með úrval af Kristal + drykkjum.
Þar af er einn með eftirfarandi bragði:
Bláberja- og limebragð.
Limebragð? Það er til íslenskt orð yfir frænku sítrónunnar. Það er límóna.” Þetta er hárrétt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Það er alltaf heldur hvimleitt að heyra spyril spyrja um eitthvað sem viðmælandinn er þegar búinn að segja. Ber með sér að sá sem spyr hefur ekki hlustað. Þetta mátti heyra undir lok Morgunútgáfunnar á föstudag (21.11.2014) er spurt var um útkomutíma geisladisks. Í sama þætti var talað um að ,,stækka vatnsmagnið” í Bláa lóninu”. Auka vatnsmagnið.

 

Orðbragð Ríkissjónvarpsins var skemmtilegt og fræðandi að venju í gærkveldi (23.11.2014), – ekki síst þar sem bent var á skiltavillurnar,sem eru ótrúlega víða og ótrúlega margar. – En hvaða máli skiptir það hvort fleiri orð eru karlkyns en kvenkyns? Það hefur nákvæmlega ekkert með jafnrétti kynjanna að gera. Það sem Guðrún Þórhallsdóttir málfræðingur sagði um þetta var mjög gott. Kjarni málsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>