Fyrrverandi starfsfélagi úr blaðamennskunni skrifaði (23.11.2014): ,, ,,Frakkar eru nú þegar með níu herþotur staðsettar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum”. Þessi málsgrein er af Mbl.is í dag. Þarna er orðinu staðsettar algerlega ofaukið. Því færri orð því betri stíll í fréttum. Þetta var verið að reyna að kenna okkur ásamt öðru af málfarsráðunautum hér á árum áður. Ég hef áður minnst á orðskrípið meðlimur. Fleira má telja og verður gert síðar.” Molaskrifari þakkar gott bréf.
Molavin skrifaði (22.11.2014): „Forsetinn tilkynnti aðgerðaráætlun sína í nótt…“ sagði í sjónvarpsfrétt RUV (21.11.2014) um sjónvarpsávarp forseta Bandaríkjanna kvöldið áður. Það er villandi þegar fréttamenn nota íslenskar tímasetningar um erlenda viðburði. Gefur jafnvel til kynna að forsetinn hafi rofið dagskrá sjónvarps að næturþeli. Vitaskuld átti að segja að forsetinn hafi kunngjört áætlun sína „í gær“ þótt flestir Íslendingar hafi þá fyrir löngu verið búnir að slökkva á sjónvarpinu og sofnaðir. – Réttmæt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.
Halldór Högurður skrifaði (23.11.2014): ,,Sæll vertu. Ég veit ekki hvaða „brydd“ þetta er en fannst skrítið að sjá hlekk á facebook með textanum „Íslensk hjón skelltu sér með núll fyrirvara til London til að brydda upp á tilveruna.“
Að brydda upp á nýjungum kannast ég við en bryddar maður upp á tilveruna? Nema maður sé kannski löngu skráður látinn og nái undraverðum bata?” – Molaskrifari kannast ekki við þetta heldur. Þakka fyrir bréfið.
Molaskrifari upplifir það ævinlega sem þvingun af hálfu Ríkissjónvarpsins þegar hann er neyddur til að horfa á eða hafa opið fyrir íþróttafréttir , vilji hann horfa á veðrið. Hversvegna mega veðurfréttirnar ekki fylgja fréttum eins og þær hafa gert frá upphafi sjónvarps á íslandi. Hversvegna var þessu breytt? Er það að neyða fólk til að horfa á íþrótttafréttir?
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (21.11.2014) var okkur sagt að fyrir tveimur árum hefði Hanna Birna Kristjánsdóttir gjörsigrað prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Prófkjörið bara steinlá! Hanna Birna sigraði ekki prófkjörið. Hún vann sigur í prófkjörinu. Í sama fréttatíma var mjög góð samantekt með dagsetningum um feril lekamálsins frá upphafi. Skýrari umfjöllun um málið en var í fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld.
Það var ekki nákvæmt sem fram kom í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (22.11.2014) að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði lýst einróma stuðningi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Það kom hvergi fram að stuðningurinn hefði verið einróma. Það geta menn séð ef skoðaðar eru fréttir um fundinn og ummæli formanns flokksins eftir fundinn. http://m.visir.is/forsida/Frett?ArticleID=2014141119616
Í þættinum Morgunútgáfan í Ríkisútvarpinu verður klukkan stundum ekki neitt. Heldur dettur klukkan í eitthvað (24.11.2014). Klukkan er að detta í hálf níu! Hvað skyldi málfarsráðunautur segja um þetta?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar