Áhugamenn um vandað mál senda Molaskrifara stundum pistla. Slíkur pistill barst mér á dögunum frá Jóhannesi Tómassyni fyrrverandi blaðamanni. Allar eru ábendingar hans góðar og eiga fullan rétt á sér. Með hans leyfi birti ég pistilinn í heild:
Ágæti Eiður.
Af því að ég er í sömu stöðu og þú sem fyrrverandi blaðamaður fylgist ég þokkalega vel með fréttum í blöðum og ljósvakamiðlum. Þar eru iðulega á ferðinni óvandað málfar og ambögur eins og þú hefur verið duglegur að benda á, bæði hreinar villur og klaufalegt orðalag.
Ég leyfi mér að halda að flestir blaða- og fréttamenn skrifi ágætan texta en það liggur vissulega misvel fyrir mönnum. Staðreyndavillur og kannski málvillur og ambögur skrifast stundum á reynsluleysi en það á ekki að vera afsökun; á fjölmiðlum hlýtur yfirmaður að lesa fréttir og frásagnir blaðamanns yfir áður en þær birtast og því virðist stundum eitthvað vanta uppá vönduð vinnubrögð.
Sem bandamaður í þessari raun datt mér í hug að senda þér nokkrar ábendingar sem þú getur kannski notað í pistlum þínum. Þar sem ég hef hins vegar ekki fylgst stíft með þeim kann að vera að þú hafir þegar fjallað um þessi dæmi.
…. en ekkert hefur fjölgað í hópnum síðan þá. Algengt er að heyra í fréttum að eitthvað hafi staðið yfir eða gerst síðan þá og er þar gjarnan vísað til einhvers fyrri atburðar eða einhverra tímamarka. Þarna er þá óþarft orð, nóg er að segja …. ekkert hefur fjölgað í hópnum síðan. Ég nefni ekki ákveðin dæmi en þetta heyrist iðulega.
Fyrirtækið xx var selt til yy. Hlutir og fyrirtæki ganga kaupum og sölum. Þarna er til óþarft, það er miklu þægilegra að segja fyrirtækið xx var selt yy. Allt sem er styttra og knappara orðalag er að mínu mati betra.
Þjónustustig, gæðastig og vaxtastig – þetta hefur þú eflaust fjallað um áður. Hér eru ,,stigin” óþörf og yfirleitt nóg að segja þjónusta, gæði og vextir. Kannski getur þurft að bæta við lýsingarorði um góða þjónustu eða háa vexti. Í flestum tilvikum er líka eðlilegra að segja hljóð eða bara hávaði en ekki hljóðstig en það má kannski færa fyrir því verkfræðileg rök eða tæknileg að þetta tvennt sé ekki alveg það sama.
Svo má líka setja spurningamerki við eftirfylgni. Fylgni hélt ég að snerist um hvort einhver þróun máls fylgdi annarri þróun mála, hvort fylgni væri milli þess að a gerðist og b. En eftirfylgni er oft notuð í því samhengi að það þurfi að fylgja málum eftir þegar eðlilegra væri að nota eftirfylgd.
Ég hef þá trú að stéttin meti ábendingar þínar og það er nauðsynlegt að halda uppi rökstuddri gagnrýni. Spurning er hvort Blaðamannafélagið á ekki að taka íslenskt málfar fyrir á málþingi eða pressukvöldi og fara í smiðju til þín eftir efni.
Með kveðju og þökkum,
Jóhannes Tómasson
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/08/2009 at 23:09 (UTC 1)
Sæll Sigurður Grétar,
Nú skjátlast þér. Þú hafðir marga góði kosti sem sjónvarpsmaður, góða rödd og framsögn og skýra hugsun. Ég held að kennarinn hafi brugðist fremur en nemandinn. Margir fjölmiðlamenn skrifa vandaðan texta og gott mál, – en svo eru aðrir sem ættu að finna sér störf við hæfi. Auglýsingatextar fara hríðversnandi. Þeir eru svo gott sem hættir að fallbeygja nöfn fyrirtækja. Eitthvað er til á Selfossi,sem heitir Riverside Spa og er auglýst sem slíkt. Annan stað hef ég heyrt auglýstan á góðri íslensku : Á árbakkanum.
Mér fyndist í góðu lagi að segja á Rangárbökkum eða við Rangá Allt sem þú segir þetta sögulega lágmark og hámark er rétt. Gleymum svo ekki ársgrundvellinum sem fjölmiðlamenn hafa tekið sérstöku ástfóstri við og er það ekki ny bóla. Áhafnarmlimir dafna sem aldrei fyrr.
Sigurður Grétar Guðmundsson skrifar:
04/08/2009 at 21:07 (UTC 1)
Heill og sæll Eiður
Þú ruglaðir mig nokkuð með því að bæta millinafninu við; þess vegna gerði ég mér ekki grein fyrir því í byrjun hver þú ert, fyrrum Alþingismaður , ráðherra og kennari sem reyndi að gera mig að sjónvarpsmanni sem ekki tókst, nemandinn var víst ekki nógu næmur. En ég fagna umfjöllun þinni um íslenskt mál. Það líður vart sá dagur að maður krumpi sig ekki svolítið vegna ýmissar orðnotkunar hjá fjölmiðlafólki. Í dag er það einmitt fjölmiðlafólk og starfsfólk auglýsingastofa sem eru hinir raunverulegu þróunarstjórar málsins og það ráða þeir ekki nærri allir við.
Ég ætla hér ekki að fara út í nákvæm dæmi heldur benda á hvað mér sýnist vera rótin að vandanum. Svo virðist sem þeir sem flytja talað mál eða semja ritað skilji ekki til hlítar þann texta sem þeir eru sjálfir að semja. Afleiðingin verður þá oft því miður sú að fleiri orð eru notuð, hjálparorð sem eiga að fá okkur áheyrendur og lesendur til að skilja textann betur. Ætla þó að taka tvö dæmi. Í mínu ungdæmi var nægjanlegt að segja að eitthvað væri í lágmarki eða hámarki. En nú virðist enginn skilja þetta lengur því nú er allt í sögulegu hámarki eða sögulegu lágmarki. Hvað er bættara með því að bæta orðinu „sögulegt“ inn í. Ef miðað er við ákveðið tímabil, svo sem ár, þá er einfalt að geta þess. en almennt er orðið „sögulegt“ nútíma viðbót sem engum tilgangi þjónar. Svo er það vinsælasta orð þessar ágætu málþróunarstjóra okkar. Það dettur engum í hug að segja „veiðihúsið er á bökkum Rangár“. Þarna kemur skv. nútímamáli inn aukaorð og þá er sagt „veiðihúsið er staðsett á bökkum Rangár“. Mér finnst æði mikill blæbrigðamunur á þessum tveimur stuttu setningum um sama efni.
Með bestu kveðjum,
Sigurður Grétar
PS. Ágætur pistill hjá fjölmiðlamanninum Jóhannesi Tómassyni. Gott hvort okkar leiðir lágu ekki saman á þeim árum sem ég var pistlahöfundur við Morgunblaðið