«

»

Molar um málfar og miðla 1638

Hér er gott dæmi um ísl-ensku, ef þannig má taka til orða. Þetta er af mbl.is (16.12.2014): „Við erum einnig í mjög góðu sam­starfi við Bruna­varn­ir Suður­nesja og störf­um sam­an öxl í öxl í veðrum eins og þessu. Við höf­um einnig verið að aðstoða þá í dag við sjúkra­flutn­inga,“ seg­ir Har­ald­ur sem tel­ur að veðrið sé að skána. Á ensku er talað um to work shoulder to shoulder , að vinna vel og náið saman. Þannig tökum við ekki til orða á íslensku. Við vinnum ekki öxl í öxl. En þegar mikið liggur við, snúum við bökum saman. Vinnum vel og náið saman og bjóðum mótlætinu byrginn.

 

Kolbrún sendi Molaskrifara línu (16.12.2014): ,,Má ég spyrja þig um eitt, þar sem þú skrifar um íslenskt málfar. Stundum hefur mig langað að spyrja þig áður en nú finn ég ekkert um þetta sem svarar minni spurningu. Í frétt Visis er talað um að útvarpstjóri þurfi að velja burt stóra þætti í starfi RÚV. Það er þetta að velja burt sem ég er ekki alveg sátt við. Ég bjó í Svíþjóð í mörg ár og er vön þessu orðatiltæki þar „att välja bort“ en er þetta rétt á íslensku að segja að velja burt.” Molaskrifari þakkar Kolbrúnu línurnar og spurninguna. Hann hnaut einnig um þetta. Hefur ekki áður heyrt talað um að velja eitthvað burt þegar þarf að skera niður eða hætta við einhver áform eða áætlanir. – Hér er fréttin af visir.is: http://www.visir.is/tharf-ad-velja-burt-stora-thaetti-i-starfi-ruv/article/2014712159989

 

Mjög margir fréttaskrifarar eru hættir að gera greinarmun á sögnunum að kaupa og að versla. sbr. þessa frétt af mbl.is (15.12.2014):

Þar segir m.a.: Þær fara síðan sam­ferða heim til Íslands á föstu­dag­inn. Helga tel­ur lík­legt að þær muni versla sam­an jóla­gjaf­ir næstu daga. Hér hefði farið betur á að segja til dæmis : Þær verða síðan samferða til Íslands á föstudaginn. Helga telur líklegt að þær muni kaupa saman jólagjafir næstu daga , eða , – versla saman til jólanna næstu daga. Við kaupum jólagjafir. Verslum ekki jólagjafir. Í auglýsingu sem tönnlast er á í útvarpi um þessar mundir býður N1 fólki að versla matvörur. Molaskrifara finnst þetta málleysa, en auglýsingastofur eru á öðru máli.

 

Mikið var Molaskrifari sammála umsjónarmanni Morgunútgáfunnar á mánudagsmorgni(15.12.2014) þegar hann sagði við íþróttafréttamann Ríkisútvarpsins að í íþróttafréttum væru alltof mikið fjallað um þjálfara. Íþróttafréttamaður samsinnti þessu með orðinu: Algjörlega. Örstuttu síðar sagði hann aftur algjörlega, þegar hann átti við að hann væri sammála umsjónarmanni, sama sinnis, hefði sömu skoðun. Ofnotkun þessa orðs í þessari merkingu er auðvitað að verða algjörlega óþolandi. Molaskrifari leggur til að umsjónarmenn Orðbragðs taki til sinna ráða gagnvart þessari ofnotkun orðsins, – hafi þeir þá ekki þegar gert það.

 

Í síðustu Kilju ársins í gærkvöldi (17.12.2014) bar margt á góma. Fróðlegur þáttur að vanda og vel unninn. En þarna var reynt að gera of mörgu skil á of stuttum tíma, – bækurnar, sem þarna bar á góma, áttu mismikið erindi í þáttinn. Molaskrifara finnast svonefnd ,,bóksalaverðlaun” orka tvímælis.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka gott bréf, Eysteinn. Velti þessu talstvert fyrir mér , finnst, finnast. Þú hefur mikið til þíns máls

  2. Eysteinn Pétursson skrifar:

    Alveg sammála um ofnotkun orðsins algjörlega. Sama má segja um orðið nákvæmlega sem oft er notað við sömu kringumstæður og algjörlega. En eitthvað verður fólk að segja. Það kemur vissulega margt til geina, svo sem hárrét, vissulega, alveg rétt (hjá þér), það má til sanns vegar færa, ég fellst alveg á það – o.m.fl.

    Versla í stað kaupa er trúi ég að ná yfirhöndinni í daglegu máli, og það þarf því virkilegt átak til að fréttaskrifarar forðist það.

    Hef aldrei fyrr heyrt talað um að menn ynnu öxl í öxl.

    Að lokum: „Molaskrifara finnast svonefnd…“ Þarna finnst mér eiga að standa „finnst“. Sögnin er þarna ópersónuleg og slíkar taka alltaf á sig mynd 3ju persónu eintölu. Það er hinsvegar mjög algengt að sögnin aðlagi sig þarna nafnorðinu sem á eftir kemur og á það jafnvel enn frekar við um ýmsar aðrar sagnir, svo sem „þykja“ (mér þykja epli góð) og „dáma“ (mér dáma ekki ólætin í honum).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>