«

»

Molar um málfar og miðla 557

Hér hefur oftlega verið vikið að mikilvægi þess að þulir  og fréttamenn hlusti á það sem þeir lesa.  Ekki er síður mikilvægt, að  fréttamenn og þáttastjórnendur hlusti á það sem viðmælendur þeirra hafa fram að færa. Í  morgunþætti Rásar tvö (15.03.2011) var  rætt við Ágúst Valfells kjarnorkuverkfræðing um   hættuástandið í kjarnorkuverinu í  Fukushima. Ágúst   sagði að  nýjar fréttir  hermdu, að búið væri að  ráða niðurlögum hins ógnvekjandi elds  sem  logað hafði í geymslu  fyrir úrgangseldsneyti í orkuverinu.  Það var eins og  hvorki umsjónarmenn  né fréttastofan heyrðu hvað hann sagði. Fréttin um þetta  kom ekki fyrir  eyru hlustenda  fyrr en alveg  í lok áttafrétta  í morgunútvarpinu.  Þegar fylgst er með erlendum fréttamiðlum  skynjar maður að í fréttaflutningi  frá Japan  gætir hér ekki sömu yfirvegunar og hjá  fagfólki erlendra fjölmiðla. Það  gilti um  morgunþátt Rásar tvö  í morgun(15.03.2011). Þar er löngu  tímabært að  skipta um áhöfn.

  Í  sexfréttum Ríkisútvarps  og í sjöfréttum  Ríkissjónvarps 13.03.2011) var talað um rafmagnsskammtanir í Japan.  Orðið skömmtun er ekki  til í fleirtölu. Hér  hefði því átt að tala um  rafmagnsskömmtun.   Samvinna um útvarps- og sjónvarpsfréttir leiðir,  þegar verst lætur, til samnýtingar á ambögum.

 Úr mbl.is (14.03.2011): Atvikin sýni hinsvegar að geislavirk efni berist með vindstraumum frá kjarnorkuverinu.  Með  vindstraumum ?   Af hverju ekki  með vindi ?

  Í fréttum Stöðvar tvö (13.03.2011) var ítrekað talað um innkaupaverð á olíu. Málvenja er að tala um innkaupsverð.  Meira úr fréttum Stöðvar tvö (14.03.2011): Lýsingin á honum svipar þó til… las þulur  án þess að hika.  þetta er gott dæmi um fallbeygingafælni, sem nú verður æ meira áberandi. Þulur hefði átt að segja:  Lýsingunni á honum svipar  þó til ….. …Í  morgunfréttum Ríkisútvarps  (15.03.2011) sagði fréttamaður:  Talið er að geislun geti gætt…. Þarna átti  orðið  geislun  að vera í eignarfalli, geislunar. Einhvers gætir … geislunar gætir.

  Í  Daglegu máli í morgunþætti Rásar eitt var haldið áfram að fjalla um  Laka og Lakagíga (14.03.2011). Verið var að reifa  skýringar og  tilgátur um uppruna og merkingu  orðsins  Laki.  Umsjónarmaður hafði fengið ábendingu ,sem   tengdi orðið við eldvirkni og  sagði:  Það er  svona tekin  eldfjallafræðin á þetta.  Undarlegt orðalag. Að taka eitthvað á eitthvað. Þetta orðalag er   ekki hluti af daglegu máli Molaskrifara. Málfar í Daglegu máli á að vera til  fyrirmyndar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>