«

»

Molar um málfar og miðla 569

Og voru heimamenn meira og minna með  boltann, sagði íþróttafréttamaður  Ríkisútvarpsins (27.03.2011). Molaskrifari velkist svolítið i vafa um það hvað þetta merkir.  Í sama fréttatíma var fjallað um útflutning á æðardúni og  tekið svo til orða  að æðardúnninn hefði verið fluttur af landi brott. Ekki er þetta  nú beinlínis  rangt, en ekki  er oft  tekið svona til orða  um útflutningsvörur.

Lést eftir að hann varð úti  í Reykjavík, var skrifað á  visir.is (26.03.2011) Þetta var reyndar leiðrétt og þá  stóð:  Varð úti í Reykjavík, sem er  rétt orðalag.

 Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (23.03.2011) sagði fréttamaður:  Nýjar tölur  sýna að daglegar reykingar fullorðinna heldur áfram að lækka.  Þetta er  bjöguð setning. Betur hefði farið á að segja:  Nýjar tölur sýna að daglegar reykingar fullorðinna halda áfram að minnka. Eða: Nýjar tölur sýna að  enn dregur úr reykingum  fullorðinna.

Visir.is skrifar (24.03.2011): Þjónustan var ekki ábótavant. Þjónustunni var ekki ábótavant.

Og voru heimamenn meira og minna með  boltann, sagði íþróttafréttamaður  Ríkisútvarpsins (27.03.2011). Molaskrifari velkist svolítið i vafa um það hvað þetta merkir.  Í sama fréttatíma var fjallað um útflutning á æðardúni og  tekið svo til orða  að æðardúnninn hefði verið fluttur af landi brott. Ekki er þetta  nú beinlínis  rangt, en ekki  er oft  tekið svona til orða  um afurðir  eða  varning  sem  selt er til útlanda.

Enn skal  vitnað í nýlegt  bréf frá Molavini og velunnara  móðurmálsins. Hann segir:

,, Samkvæmt lögum skal Ríkisútvarpið ohf. „leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð“.

Væri ekki rétt að hafa þetta í huga þegar fréttamenn eru ráðnir til starfa? Öllu meiri kröfur mætti og skyldi gera til einnar helstu menningarstofnunar íslensku þjóðarinnar en einkamiðla.

Að mínu viti er sérstakur málfarsráðunautur næsta óþarfur ef fréttamenn hafa gott vald á íslensku máli. Hins vegar má starf hans sín lítils þegar fréttamenn eru bögubósar. Of seint er að fara að kenna fólki íslensku þegar það er komið í eina af helstu ábyrgðarstöðum íslenskrar tungu. Annað hvort öðlast fólk þegar frá öndverðu og smám saman gott vald á málinu, hvað sem skólagöngu líður – eða þá hreint ekki. Gott vald á tungunni er einfaldlega sumum gefið, öðrum ekki. Því miður.”   Molaskrifari bætir því einu við, að þetta er hverju orði sannara.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>