«

»

Molar um málfar og miðla 615

Þórhallur  Jósepsson  sendi  Molum eftirfarandi ábendingu: Stöð eitt er fyrirbæri, sem birtir dagskrá sína á vefnum. Í dag (26.05.2011) er birt dagskrá gærdagsins. Tvær bíómyndir. Önnur þeirra er kynnt svona:

„20:00 The Gauntlet   Lögreglumanninum Ben Shockley from Phoenix er falið það verkefni að halda til las Vegas og sækja þar ómerkilegt vitni í ómerkilegum réttarhöldum. Hann kemst hinsvegar að því að ekki er allt sem sýnist, og bæði mafían og Lögreglan vill ekki að hann og vitnið komist heilu og höldnu til baka..“.  Rétt er það. Það er merkilegt fyrirbæri,sem kynnir dagskrá sína með þessum hætti. Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í fréttum Stöðvar tvö 26.05.2011) sagði fréttamaður: … segir það orðum ofaukið. Hér er smáorðinu of  ofaukið.  Rétt hefði verið að segja: …. segir það orðum aukið. Mikilvægt er að fréttamenn kunni að nota algengustu orðtök íslenskrar tungu.

„Ég vona að aðferðirnar eru aðrar í dag,“ sagði Andri Freyr. Þannig segir  visir.is frá  viðtali við þáttastjórnanda á  Rás  tvö (26.05.2011).

Úr mbl.is (26.05.2011): „Hefur þó einhverja reynslu af því að fljúga flugvélum?“ Þetta hefði maður haldið að væri venjuleg innsláttarvilla , ó í stað ú, ef þetta væri ekki orðað  með sama  hætti í fyrirsögn fréttarinnar. Óskiljanlegt.

… eftir að hafa beðið úrlausn sinna mála..., sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í hádegisfréttum ( 27.05.2011).  Menn bíða  einhvers. Þessvegna hefði fréttamaður  átt að segja: … eftir að hafa beðið úrlausnar sinna  mála.  Fréttamenn  gera of lítið  af því að  skoða  beygingu íslenskra orða á vef Árnastofnunar. En þeir sem villurnar gera, telja  sig  líklega ekki  þurfa að  ráðfæra sig  við einn eða neinn. 

Eftirfarandi málsgrein er úr bloggi á DV (27.05.2011): Fyrir ofan Kórahverfið, milli Kóranna og Hvarfanna, í Kópavogi er lítil og sæt óbyggð mói vaxin hæð, þar sem tilvalið er að fá sér smá göngutúr og njóta útsýnisins yfir Elliðavatn við spóavall og lóukvak. Vinkona mín sem býr í þessu hverfi fer þarna út með litla hundinn sinn, sem fær aðeins að spretta úr spori og ganga þarfa sinna í leiðinni.  Hvað  finna lesendur margar ambögur í þessum fáu línum?

Svo segir  visir.is (27.05.2011): Það hefur orðið vart við einstaka kviður eða gufusprengingar í gígnum í nótt, en það líður lengri tími á milli þeirra en áður. Í fyrirsögn fréttarinnar er líka talað um kviður.  Stafsetningarorðabók er þarfaþing, ef  menn eru í vafa um rithátt orða.

Eftir  að hafa heyrt  Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu,  gera lítið úr stórathyglisverðri umfjöllun þeirra Jóhannesar Kr. Kristjánssonar og  Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi um læknadóp og unga  fíkla  hefur  Molaskrifari endanlega  slökkt á   Útvarpi Sögu og mun aldrei kveikja aftur. Hefur líka búið sér til lista yfir þau fyrirtæki,sem mest auglýsa  þar  til að geta  sneitt hjá þeim. Það liggur við að það sé  mannskemmandi á stundum að hlusta á skötuhjúin,sem  stjórna þessari stöð og  suma símavini þeirra.

10 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Franz Gunnarsson skrifar:

    Baldur:

    Hvernig talar Arnþrúður um hann Eið og aðra menn í þjóðfélaginu? Er í lagi fyrir hana og ykkur símavinina að ausa skít og rugli yfir menn og málefni eins og bersýnilega heyrist á öldum ljósvakans! Eruð þið svo gjörsamlega blind í ykkar eigin siðferðis og réttlætisbaráttu að í raun hafið þið misst sjónar á beinu brautinni! Er Útvarp Saga hafin yfir gagnrýni?

    Þú skalt kannski byrja á að taka til í eigin garði áður en þú krefst að aðrir taki til í sínum garði.

  2. Eiður skrifar:

    Það er sífellt verið að endurtaka efni í Útvarpi Sögu. Heyrði þetta um miðja vikuna, muni ég rétt. Þá var örugglega verið að endurtaka símaþátt. Útvarpsstjórinn tönnlaðist m.a. á því að Sigmar og Jóhannes væru búnir að stimpla heila stétt lögbrjóta. Það er rangt og útúrsnúningur.

  3. Eiður skrifar:

    Nei.

  4. Emil R. Hjartarson skrifar:

    Málið er í stöðugri þróun og verður svo að vera, annars deyr það. En eru eftirfarandi gullkorn úr fjölmiðlum í dag og í gær dæmi um þróun málsins eða öfugþróun. Auðga þau málið ?

    “ Rannsókn er hafin á RÚSTUM, póstskipsins PHÖNIX “

    “ Kindur hafa fundist í DAUÐASLITRUNUM vegna öskufalls“

    „Aska af STÆRÐARGRÁÐUNNI hálfur sentimetri dregur úr sólbráð“

  5. Baldur Bjarnason skrifar:

    Franz Gunnarsson,

    Kynntu þér skrif Eiðs Guðnasonar um Útvarp Sögu frá því að hann byrjaði skrif sína um stöðina, þá skilur þú hvað ég á við vona ég.

  6. Hallur Guðmundsson skrifar:

    Mikið ofboðslega er sögufólkið hörundsárt. Mér finnst að ef Eiður vill hætta að hlusta á Sögu þá hættir hann því, end of story. Ef Eiður kýs að fara að hlusta aftur á Sögu þá hann um það. Ég vil hins vegar benda á að það er ómaklegt og ógeðslegt að lítillækka umfjöllun Sigmars og Jóhannesar. Jóhannes gerir allt svona af heilum hug og dregur hvergi undan. Heimurinn er svona og líklega verri, höfum það í huga.

  7. Þorbjörg skrifar:

    ætlar þú kannski að birta listann yfir þessi fyrirtæki fyrir okkur hin? og hvenær var þessi þáttur sem Arnþrúður gerði lítið úr kastljósinu?

  8. Franz Gunnarsson skrifar:

    Baldur af hverju á Eiður að skammast sín fyrir að vilja ekki hlusta á Útvarp Sögu? Ræður hann ekki algjörlega sjálfur hvort hann hlusti á þessa stöð eða ekki? Má Eiður ekki hafa skoðanir á stöðinni eins og stöðin hefur skoðanir á honum eða er Útvarp Saga með einkarétt á gagnrýni en er sjálf yfir hana hafin? Ég kveiki einstaka sinnum á þessa útvarpsstöð og fer yfirleitt í hláturskast yfir ruglinnu sem berst úr viðtækinu. Skil Eið fullkomlega að nenna ekki að hlusta á bullið sem vellur upp úr sumum þáttarstjórnendum, viðmælendum og símavinum.

  9. Eiður skrifar:

    Gaman að þessu. ,,Þar sem þér og yðar líkum…“!

  10. Baldur Bjarnason skrifar:

    Varðandi neikvæð skrif yðar og tilraunir til niðurrifs á Útvarpi Sögu ættuð þér að skammast yðar, þér skuluð gera yður grein fyrir því að þetta er eini frjálsi fjölmiðill landsins, þar sem þér og yðar líkum eru gerð full skil af þeim er þér kallið símavini þeirra.

    Ég vill minna yður á að símavinir stöðvarinnar, greiða laun yðar hafið þér gleymt því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>