«

»

Molar um málfar og miðla 669

Rétt fyrir  tíu fréttir  (25.07.2011) var auglýsing í Ríkissjónvarpinu  þar sem ungt fólk var hvatt til að nota ekki munntóbak. Gott. Í kjölfar  þeirrar auglýsingar komu tvær  auglýsingar þar sem hvatt var til bjórdrykkju. Vont.  Brot á lögum bann við áfengisauglýsingum. Hverskonar stofnun er þetta Ríkisútvarp  orðið?

Tekið er að glæðast  yfir laxveiði,  var sagt í   sexfréttum Ríkisútvarpsins (24.07.2011) Ekki getur  þetta  talist vel orðað. Hægt hefði verið að segja að laxveiði væri að glæðast.  Í fjögurfréttum  sama  dag  var sagt: … en stafkirkjan var gjöf Norðmanna til  íslensku þjóðarinnar til tákns um vináttu þjóðanna. Til tákns um !   Hér hefði mátt segja: … til staðfestingar vináttu þjóðanna. Eða bara : … tákn um vináttu  þjóðanna.  Í sama fréttatíma sagði sami fréttamaður:… hefur viðurkennt að hafa unnið ódæðið og segist hafa  staðið einn að þeim. Þeir sem svona  tala  við okkur eiga  ekki  erindi við okkur á öldum ljósvakans. Eftirfarandi er   af vef Ríkisútvarpsins. Fyrirsögnin er: Sprengjur duna á Tripóli. (Fyrirsögnin var reyndar lagfærð síðar) Svo er sagt: Fleiri sprengingjar dundu á höfuðborg Líbíu snemma í morgun að staðartíma.  Fleiri sprengingjar ! Það var og !

Sjóræningjar tóku yfir ítalskt tankskip út af strönd Benín í dag. Þetta er af mbl.is (24.07.2011). Ekki vel orðað. Þeir tóku skipið ekki yfir.  Þeir  náðu  því á sitt vald.

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan  fimm að morgni (25.07.2011) var frá því greint að norski fjöldamorðinginn Breivik hefði ætlað að myrða  Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra á Útey, en honum var seinkað , var sagt. Þarna skín líklega enska  í gegn (e. he was delayed). Rétt  hefði verið að segja að honum hefði  seinkað.  Sama orðalag  var notað í morgunútvarpi Rásar tvö , –  honum hefði verið seinkað. Honum seinkaði, eins og var réttilega sagt í sjöfréttum.  En þarna  var þó fréttastofan að fylgjast með því fréttin  var úr Aftenposten í Osló  þennan sama dag. Það hefur   verið  fremur  sjaldgæft að heyra  nýjar fréttir í næturfréttum  Ríkisútvarpsins. Of oft hefur nánast það sama verið endurtekið frá   miðnætti til morguns.

Egill sendi Molum línu, en hann heyrði eftirfarandi í  síðdegisútvarpi  Ríkisútvarpsins (25.07.2011):   Verða þetta ekki fjórir tónleikar?
Takk fyrir! 
Molaskrifari bætir við: Það er því miður of algengt að heyra talað um  þrjá tónleika  og  fjóra tónleika,  í staðinn  fyrir að tala um þrenna  tónleika,  ferna tónleika.

Sjónvarpsfréttamönnum hættir stundum til að    segja okkur hvað sjáum. Segja það sjálfsagða.  Molaskrifari gerðist sjálfsagt sekur um  þetta á sinni tíð.  Þegar sýnt var í Ríkissjónvarpinu (24.07.2011) frá minningarathöfn í dómkirkjunni í Osló sagði fréttamaður okkur, að konungshjónin hefðu grátið.  Það þurfti ekki að segja okkur það. Þarna átti þögnin við. Þetta var öðruvísi hjá BBC.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er örugglega rétt, Jóhann. Stafar líklega einkum af því að ég kann ekki fingrasetningu á lyklaborði. Stundaði nám í MR en ekki vélritunarskólanum.

  2. Jóhann Ómarsson skrifar:

    Sæll Eiður. Takk fyrir pistlana, þeir eru oft áhugaverðir. Það stingur hins vegar stundum í augu hvað þú ferð frjálslega með notkun á stafabilum í skrifum þínum – það er kannski eitthvað sem þú þyrftir að laga. Í þessum tiltekna pistli eru t.d. nokkur dæmi um vandræðagang í þeim efnum , ég læt þig sjálfan um að finna þau. Bestu kveðjur, Jóhann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>