Þórhallur Jósepsson sendi Molum þennan prýðilega pistil:
,,Fyrirsögn á vef DV, dv.is, minnti mig á tilhneigingu blaða- og fréttamanna sem virðist ágerast. Kannski eru þetta ekki villur, en stappa nærri því. Fyrirsögnin er: „Bilun kom upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar.“ Fregn af þessu tagi er líka orðið algengt að orða: „Bilun varð ….“ Hvers vegna ekki: „Þyrlan bilaði“?
Annað dæmi, skylt, og um það bil orðið ráðandi orðalag: „Bílvelta varð ….“ Það slæma við þetta er, að orðalagið gefur til kynna að bílvelta sé sé eins og hvert annað náttúrufyrirbrigði og ekkert við henni að gera, sbr. regnið féll, snjónum kyngdi niður. Skárra er að segja bíll valt, en auðvitað veltur ekki bíll nema ökumaður hafi velt honum, ökumaðurinn er alltaf gerandi og óþarfi að taka þá ábyrgð af honum í fréttum eins og þegar sagt er: Bíll fór út af veginum vegna hálku. Ekki er það hálkan sem stjórnar bílnum, eða hvað?
Enn annað. Ýmsir viðburðir fara nú eingöngu fram, samkvæmt fjölmiðlum, einkum útvarpi og sjónvarpi. Tónleikar fara fram. Hátíðir (eins og nýliðnar óteljandi bæjarhátíðir) fara fram, fótboltaleikir og -mót fara fram. Hvernig er það, er alveg hætt að halda tónleika, leika knattspyrnuleiki, efna til hátíða eða halda hátíð? Mér þykir nú mönnum ekki fara mikið fram með því að láta allt fara fram.
Og, eitt enn, fyrst ég nefndi fótbolta. Það er kannski sérviska, en mér finnst óþolandi að ekki séu lengur skoruð mörk í fótboltanum. Íþróttafréttamenn eru síklifandi á að leikmenn „setji“ mörk. Hvernig „setja“ menn mark í fótbolta?”
Molaskrifari kann Þórhalli bestu þakkir fyrir sendinguna.
Molaskrifari kynntist því í æsku að orðið brakandi gat haft ýmsar merkingar aðrar þær að það marraði eða brakaði í einhverju. Talað var um brakandi þurrk eða þerri. Sunnan og vestanlands var það þegar var sólskin og norðanátt. Líka var sagt að þvottur sem búinn var að hanga úti á snúru og var orðinn skraufþurr væri brakandi þurr. Nú er orðið brakandi mjög í tísku. Talað er um brakandi kjúklingasalat, – varla getur það getur kræsilegur matur, talað er um brakandi leikár (bæði dæmin eru úr útvarpsauglýsingum) og á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu (18.08.2011) er talað um brakandi ferskt grænmeti og er sú samlíking kannski ekki svo fjarri sanni. Á prýðilegum veitingastað þar sem Molaskrifari gæddi sér á fiskisúpu var orðið brakandi notað að minnsta kosti þremur stöðum á matseðlinum. Vinsælt orð nú um stundir. Alveg brakandi vinsælt
Úr mbl.is (17.08.2011): .. með þeim afleiðingum að tveir hestar sem voru í kerrunni lentu útbyrðis. Slysið gerðist skammt austan við Hvolsvöll. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvellu var dýrlæknir kallaður á staðinn .. Dálítið sérstakt, ekki satt?
Um sama atburð segir í Fréttablaðinu (18.08.2011): Hestakerra með tveim hrossum sem föst var í eftirdragi bifreiðar opnaðist á ferð rétt austan við Hvolsvöll í gærdag. Betra hefði verið: Hestakerra sem bifreið dró og í voru tveir hestar opnaðist á ferð rétt austan við Hvolsvöll í gær.
Sögnin að versla í merkingunni að kaupa er í sókn og þar kyndir Ríkisútvarpið undir. Á rás tvö (18.08.2011) talaði dagskrárgerðarmaður um að versla skólabækur. Ríkisútvarpið ætti frekar að sporna gegn þessari þróun en styðja hana.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Örlygur skrifar:
20/08/2011 at 13:03 (UTC 0)
Setja og skora eru bæði fín orð í tungumáli fótboltans. Gildir einu hver uppruni þeirra. Fínt að hafa fjölbreytni. Tek undir að oft verða tískuorð eins og brakandi hitt og brakandi þetta þreytandi og ofnotuð. Annað dæmi er orðið ,,klárlega“ sem er þó aðeins á undanhaldi. Þriðja dæmi er ,,einhvernveginn“. Sumir geta varla talað án þess að segj ,,einhvernveginn“ í öðru hverju orði. Fylgist til dæmis með Loga Bergmanni í spjallþáttum sínum – allt er einhvernveginn þar á bæ.
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
19/08/2011 at 19:12 (UTC 0)
„Og, eitt enn, fyrst ég nefndi fótbolta. Það er kannski sérviska, en mér finnst óþolandi að ekki séu lengur skoruð mörk í fótboltanum. Íþróttafréttamenn eru síklifandi á að leikmenn „setji“ mörk. Hvernig „setja“ menn mark í fótbolta?”“
Hér má svara Þórhalli því til að „skora“ og „setja“ eru hvorttveggja útlenskuslettur; „skora“ úr ensku og „setja“ úr dönsku. Má þó segja að setja sé skömminni skárra þar sem dönskuslettur eru mjög í útrýmingarhættu í ástkæra ylhýra málinu en enskar hins vegar vaða uppi. Er því fagnaðarefni sé þeirri þróun snúið við. Síðan má enn rökstyðja að að setja sé kórrétt íslenska meður því að sá sem setur mark hefur sannarlega sett mark sitt á leikinn.
En sérviska er hins vegar góðra gjalda verð, svo lengi sem hún verður ekki sérvitleysa.
Manni skrifar:
19/08/2011 at 12:45 (UTC 0)
Varðandi tískuorðið brakandi, þá þykir mér það henta mjög vel þegar lýst er nýju grænmeti enda brakar í því þegar það er ferskt en ekki þegar það eldist. Önnur tilvik þau sem þú lýsir þykja mér ekki ganga upp.