«

»

Molar um málfar og miðla 694

Það er vafasamur heiður fyrir íslenska Ríkissjónvarpið að hafa verið eina norræna ríkisstöðin sem ekki sýndi beint frá minningarathöfninni um þá sem létu lífið í ódæðisverkunum í Noregi. Þetta er enn eitt dæmið um þann alvarlega dómgreindarbrest sem ræður ríkjum í Efstaleiti. Hvers eiga íslenskir áhorfendur að gjalda?

Úr dv.is (19.08.2011) Steinsmiðjan S. Helgason hefur sent frá sér tilkynningu þar sem er áréttað að stuðningsyfirlýsing hennar við lekskólakennara var ekki beint að ríkisstjórn Íslands heldur var tilgangur hennar að sýna starfsstéttinni stuðning sem hefur ítrekað setið eftirð hvað launahækkanir snertir. Í þessum fjórum línum eru þrjár villur, tvær innsláttar- eða stafsetningarvillur, eftirð og lekskólakennarar. Svo ætti orðið stuðningsyfirlýsing að vera í þágufalli ekki nefnifalli. Þessar villur eru ekki í yfirlýsingu Steinsmiðjunnar sem dv.is birtir einnig.

Molavin sendi (21.08.2011): Morgunblaðið fær prik fyrir að segja: „Glerhjúpur Hörpu tendraður“ meðan ljósvakamiðlar sögðu að hann yrði „vígður.“ Molaskrifari tekur undir þetta.

Þorkell Guðbrandsson gaukar oft efni að Molum. Hann sendi þetta: ,,Set hér inn tilvitnun í grein á vefmiðli, sem kallast Evrópuvaktin:
„Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis hrekst úr einu horni í annað í umræðum innan nefndarinnar um opna fundi. Fyrst vildi hann athuga hvort opnir fundir samræmdust þingskaparlögum“
Nú er pólitík ekki mín deild, en þarna sé ég eina villu, sem er þó nokkuð algeng. Orðið er ,,þingskaparlög“. Einhvern veginn held ég að okkar kynslóð sé með það nokkuð á hreinu að stofn þessa orðs og annarra af sama uppruna séu „þingsköp“, þ.e. þær reglur sem gilda um þingið (Alþingi) og starfshætti þess. Sjálfsagt er eitthvað til sem heitir „þingskapur“, en það er held ég áreiðanlega eitthvað allt annað!
Þakka þér svo fyrir skemmtileg skrif um íslenskuna og aðhald þitt að fjölmiðlum í því efni.” Molaskrifari þakkar sendinguna og hvatninguna.

Molaskrifari er maður heldur íhaldssamur , ekki síst þegar kemur að móðurmálinu. Í ágætri efnisskrá tónleika fyrir styrktarfélaga Samtaka um tónlistarhús í Hörpu (19.08.2011) var sagt um verk eftir Tsjajkovskíj (ritað eins og í skránni) að það væri Vals úr Þyrnirós. Þarna hefði Molaskrifari viljað sjá talað um Vals úr Þyrnirósu. En þá kemur í ljós við athugun að þágufallsmyndina af orðinu rós, rósu er ekki að finna í beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar. Mörg þekkjum við þó þýðingu Steingríms Thorsteinssonar á ljóði Goethes ,, Sveinninn rjóða rósu sá, rósu smá á heiði” og undurfallegt lag Schuberts við þetta tregafulla ljóð. En líklega telst þýðing Steingríms ekki nútímamál. Það er auðvitað umdeilanlegt.

Það eru mikil útvarpsgen í þeim feðginum Jónasi Jónassyni og Sigurlaugu dóttur hans. Jónas laginn að finna áhugaverða viðmælendur og Sigurlaug fundvís og smekkvís á gott efni. Margar gersemar í fjársjóðakistum Ríkisútvarpsins eru verk Jónasar. – Að undanförnu hefur hann rætt við Íslendinga í Danmörku. Hljóðið í að minnsta kosti sumum þessara þátta hefur verið meingallað og tæpast útsendingarhæft. Það er eins og þættirnir hafi verið hljóðritaðir í einhverskonar bergmálsklefa eða tómri tunnu.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (21.08.2011) var talað um að halda ávörp. Málvenja er að tala um að halda ræðu, flytja ræðu, flytja ávarp. Molaskrifari kannast ekki við að talað sé um að halda ávarp. Má þó vera að sumum sé tamt að taka þannig til orða.

Egill sendi eftirfarandi (21.08.2011): ,,Ólafur Páll Gunnarsson sagði nú áðan, í Rokklandsþætti sínum á Rás 2, að Ólafur Elíasson hefði kveikt í glerhjúpi Hörpu í gærkvöldi. Það fór alveg framhjá mér. Aftur á móti sá ég að það var kveikt á ljósum í glerhjúpnum, en það er mikill munur á að kveikja í og kveikja á.” Egill sendi einnig: ,, „Hatturinn fauk af páfanum“ stendur á visir.is í dag, en ég hélt að hann væri með mítur á höfði. Hefur það e.t.v. breyst eins og íslenskukunnátta blaða- og fréttamanna?” Þetta  er rétt athugað.

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta verður æ skemmtilegra !

  2. Kristinn R. Ólafsson skrifar:

    Rétt er það: Páfi er með mítur á höfði á myndinni sem Egill vísar til; mynd tekinni í messu á sunnudagsmorgun í blíðskaparveðri. Það var hinsvegar á laugardagskvöld þegar bænavaka var að hefjast á Fjögurravindaflugvelli sem veðurguðir hófu að andskotast með eldglæringum, úrfelli og öðrum djöfulgangi og tóku kollhúfu Benedikts í sínar hvössu hendur.. 🙂 Menn á visir.is hafa því auðsæilega farið villir mynda og höfuðfata… En sú villa gefur okkur a.m.k. tækifæri til að nefna þetta ágæta tökuorð „mítrið“ oftar en einu sinni. Það hlýtur að vera guði þóknanlegt…! Dominus vobiscum! :-).

  3. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Er hægt að tendra glerhjúp? Í minni sveit eru eldur og ljós tendruð en kveikt á kertum og öðrum ljós- og hitagjöfum; þar með taldir glerhjúpar.

  4. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Egill. Allir hafa rétt fyrir sér.

  5. Egill skrifar:

    Til staðfestingar, hér sést fréttin og myndin af páfa með mítur á höfði:
    http://www.visir.is/hatturinn-fauk-af-pafanum/article/2011110829908

  6. Egill skrifar:

    Myndin, sem fylgdi fréttinni á Vísi, var af páfanum með mítur, en hún hefur e.t.v. verið tekin úr gömlu myndasafni. Þeir hafa líklega ekki nennt að finna til mynd frá umræddu atviki.

  7. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Kristinn. Þá er þetta komið á hreint. Vonandi leggur enginn kollhúfur við þessari góðu leiðréttingu.

  8. Kristinn R. Ólafsson skrifar:

    Hvorki hattur né mítur…

    „Hatturinn fauk af páfanum“ stendur á visir.is í dag, en ég hélt að hann væri með mítur á höfði. Hefur það e.t.v. breyst eins og íslenskukunnátta blaða- og fréttamanna?” Þetta er rétt athugað.“

    Hvorugt er reyndar rétt: Benedikt páfi var ekki með mítur þegar veðurguðir rifu af honum höfuðfatið á Fjögurravindaflugvelli hér í Madríd heldur kollhúfu sína. Hún nefnist m.a. „pileolus“, „subbiretum“, „soli-deo“ eða „submitrale“ á páfalatínu.
    Sjá:
    http://www.enterat.com/blogs/videos/zapping-television/2011/08/22/tormenta-papa-cuatro-vientos/?utm_source=rss&utm_medium=rss&utm_campaign=tormenta-papa-cuatro-vientos

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>