Úr Fréttablaðinu (08.09.2011): (um skólphreinsistöð) … sem sett er saman á Egilsstöðum úr elementi frá Danmörku og tanki frá Tékkalandi. Hér er líklega átt við einingar eða einingu frá Danmörku og tank eða geymi frá Tékklandi.
Eftirfarandi er úr frétt á visir.is (07.09.2011): Það fékk farþegi á leið frá Phoenix til Texas í Bandaríkjunum að kynnast á dögunum.
Þeir sem sest hafa upp í flugvél þekkja það þegar að röddin í flugfreyjunni biður farþega um að slökkva á farsímum sínum á meðan flugi stendur. Ekki er þetta nú vel skrifað. Það fékk farþegi að kynnast, – því fékk farþegi að kynnast. Röddin í flugfreyjunni… ! Rödd flugfreyjunnar ….
Ekið var á hund í Keflavík segir á mbl.is (078.09.2011). Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/09/07/ekid_a_hund_i_keflavik/ Það fer fátt framhjá Mogga.
Ríkissjónvarpið keppist nú við að kynna vetrardagskrá sína. Molaskrifari þarf að hlusta betur á langa kynningarauglýsingu þar sem meðal annars er talað um spurningaþátt sem sé móðir allra spurningakeppna og að okkur verði boðið upp á allskonar drama. Molaskrifari hefur áður vikið að því að stjórnendur Ríkisútvarpsins eru að vinna skemmdarverk með því að útrýma og bannfæra orðið Ríkisútvarp. Til þess hafa þeir enga heimild.
Annað er stofnunin að gera sem einnig er ámælisvert. Í tíma og ótíma tönnlast þulir í sjónvarpi á : Hér á Rúv, með einkennilega tilgerðarlegum áherslum. Efni er ekki flutt á Ríkisútvarpinu eða á Ríkissjónvarpinu. Það er flutt í Ríkissjónvarpinu og í Ríkisútvarpinu. Hvar er nú málstefnan? Hvar er nú málfarsráðunautur? Er Ríkisútvarpið að apa eftir Útvarpi Sögu þar sem alltaf er sagt á Útvarpi Sögu?
Frá Agli (08.09.2011): ..Í Virkum morgnum á Rás 2 var sagt: „John Paul annar páfi“, en ekki: „Jóhannes Páll páfi annar“. Þekkingarleysi þáttastjórnenda?” – Molaskrifari spyr: Ertu hissa?
Enn eitt dæmið um óþarfa þolmynd , visir.is (08.09.2011): Unglingsstúlka var bitin af hundi í Reykjavík í gær . Betra hefði verið: Hundur beit unglingsstúlku í Reykjavík í gær. Þannig var þetta orðað á mbl.is
Í hádegisauglýsingum á Rás eitt (08.09.2011) var auglýstur sjósiginn fiskur ásamt steingrím í eftirrétt. Steingrími, hefði það átt að vera.
Í auglýsingu frá Honda segir á visir.is (08.09.2011): Raðaðu þínum þörfum saman. Þetta orðalag finnst Molaskrifara eiginlega vera óttalegt bull!
Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins er merkilegt fyrirbæri. Í kvöld (08.09.2011) var lesin auglýsing frá konu sem ekki var hægt að skilja á annan veg en svo að konan sem var að baki auglýsingunni talaði fyrir hönd allra mæðra á Íslandi. Hvaðan kemur konunni slíkt umboð? Og hversvegna tekur Ríkisútvarpið við svona auglýsingum ?
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
09/09/2011 at 20:36 (UTC 0)
í aðsendri grein í fréttablaðinu í gær sagði: ,,Þar nefni ég sérstaklega Norðurlöndin, og þá einna helst Færeyjar og Pólland“. Hvað finnst Agli og öðrum molavinum um svona landafræðigreiningu?