«

»

Frá fyrrverandi ,,valkvæðum heimskingja í utanríkisráðuneytinu”

Helsti talsmaður Heimssýnar, andstæðinga ESB aðildarviðræðnanna, vandar starfsmönnum utanríkisráðuneytisins ekki kveðjurnar á bloggi sínu fimmtudaginn 22. september. Páll Vilhjálmsson sem kallar sig blaðamann situr í stjórn Heimssýnar og hefur, muni ég rétt, verið kallaður framkvæmdastjóri þeirra sérkennilegu samtaka þar sem fallast í faðma gamlir kommar og erkiíhaldsmenn.
Orðrétt segir þessi aðaltalsmaður Heimssýnar: ,, Samkvæmt Evrópuvaktinni ætlar Jón Bjarnason að spyrja það (svo!) sem valkvæðu heimskingjarnir í utanríkisráðueytinu (leturbr. mín) með Össur á broddinum þykjast ekki skilja, um aðlögun að Evrópusambandinu.” Þetta er vissulega málefnalegt og merkilegt innlegg í umræðurnar um ESB-umsóknina og setur alla umræðuna á ,,hærra plan”. Stoltir hljóta þeir að vera forvígismenn Heimssýnar af þessum vinnumanni sínum. Ég var starfsmaður utanríkisráðuneytisins í hálfan annan áratug og er því samkvæmt þessu fyrrverandi ,,valkvæður heimskingi”. Það vefst hinsvegar fyrir mér hvað það er að vera ,,valkvæður heimskingi”. Orðið valkvæður þýðir valfrjáls í orðabókinni. Valfrjáls heimskingi ? Þetta er auðvitað bara bull. En Páll Vilhjálmsson leggst lágt til að koma klámhöggi sínu á starfsfólk utanríkisráðuneytisins. Og kallar sig blaðamann! Hér geta menn lesið þetta bull í heild.
http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/?offset=10

Í þessu samhengi má benda á greinina á heimasíðu Heimssýnar þar sem menn þykjast sjá fingraför og stíl Páls um ,,..helför Jóhönnustjórnarinnar með lýðveldið til Brussel …” Það var líka vandað og málefnalegt framlag af hálfu Heimssýnar til umræðunnar um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Greinina má lesa hér í heild:
http://heimssyn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=563:spaegipylsuleiein-inn-i-esb&catid=71:esb-umsokn-islands&Itemid=41 Þarf eitthvað að segja frekar um þá sem tala um helför í þessu sambandi ?

Það er annars umhugsunarefni og ber vott um undarlega þröngsýni og hugmyndalega örbrigð að tveir þáttastjórnendur í Ríkissjónvarpi ( Egill Helgason í Silfrinu) og í Ríkisútvarpinu (Hallgrímur Thorsteinsson í Vikulokunum) skuli bæði laugardag og sunnudag, tvo daga í röð, hafa fengið þennan sama Pál sem álitsgjafa í umræðumþáttum. Það virðist ekki um auðugan garð að gresja þegar finna þarf einhvern sem er andvígur aðildarviðræðunum við ESB. Í rauninni ættu fylgismenn aðildarviðræðnanna að fagna því í hvert sinn sem Páll mundar penna eða opnar munninn því ekki er það til þess fallið að stækka flokk aðildarandstæðinga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>