Í fréttum Stöðvar tvö (28.09.2011) var sagt: … var samstaða einkennandi meðal lögreglumanna. Ekki er þetta lipurlega orðað. Betra hefði til dæmis verið: Mikil samstaða var meðal lögreglumanna.
Í tæplega mínútulöngu viðtali í sexfréttum Ríkisútvarpsins (28.09.2011) notaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þrisvar sinnum orðið markviss ! Ögmundur hefur vonandi meiri orðaforða en þetta gefur til kynna.
Í fréttum Stöðvar tvö (28.09.2011) var sagt frá hljómleikahöllinni, KB Hallen sem brann í Danmörku og sagt hún væri í Friðriksbergi. Íslensk (og dönsk) málvenja er að segja á Friðriksbergi, sbr. textann alkunna, Det var på Frederiksberg, det var i Maj, jeg fik en pige kær, og det var dig ….
Guðmundur Þór sendi eftirfarandi (28.09.2011): ,,Fyrirsögn á Vísir.is í dag:
Mikið um að bílar bakki á hvern annan.
Hvað þýðir þessi setning? Í fréttinni kemur fram að um er að ræða tilviki þar sem tveir bílar bakka samtímis út af bílastæði og rekast á. Hver á annan er merkingarlaust.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 áðan var lesið í belg og biðu á Suðurnesjum við Eyjafjörð. Taldi ég að hér væri um að ræða mistök í lestri. Sé hins vegar að á Vísi.is stendur: „hafa tugir lögreglumanna í sveitum víðsvegar um landið sagt sig frá þeim störfum, meðal annars á Suðurnesjum við Eyjafjörð, á Akranesi, Selfossi og í Bogarnesi.“ Nú hef ég búið á Akureyri allengi en aldrei rekist á Suðurnes við Eyjafjörð!” Þú hefur greinilega ekki farið nógu víða!
Í tíufréttum Ríkissjónvarps (28.09.201) voru nokkur gullkorn: Talað var um staðarhætti, þegar tala hefði átt um staðhætti. Þá var talað um almenna Þjóðverja, þegar átt var við þýskan almenning. Í íþróttafréttum var sagt um íþróttamann: Hann er enginn eftirbáti þeirra. Eftirbátur þeirra, hefði átt að segja. Loks sagði íþróttafréttamaður að við ramman reipi væri að draga fyrir norðankonur, – við ramman reip að draga, er sagt um það sem er erfitt viðfangs.
Hreiðar sendi (28.09.2011): ,,Á heimasíðu RÚV er frétt um kjarabaráttu lögreglumanna. Þar sendur meðal annars: Lögreglumenn skora á ríkisvaldið að lægja óánægjuöldur innan starfstéttarinnar í nýrri ályktun. Það kann að vera smekksatriði en þetta finnst mér röng uppbygging. Nær væri að segja,,Í nýrri ályktun lögreglumanna er skorað…..“ eða ,,Lögreglumenn skora í nýrri ályktun á ríkisvaldið…..“. Ég er sammála þér, Hreiðar. þetta er ekki vel orðað.
Ekki er von til þess að fólk beri virðingu fyrir Alþingi þegar þingmaður lýgur ítrekað um starfslok sín hjá ASÍ eins og fram kemur í Morgunblaðinu (30.09.2011).
Jóhannes sendi eftirfarandi: ,,Ég rak augun í þessa frétt hjá mbl.is og ákvað að senda þér fréttina sem hugsanlegt efni í Molar um málfar og miðla.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2011/09/30/setti_flugvelina_a_hlidina/
Japanska flugfélagið ANA hefur beðist afsökunnar á því þegar mistök flugmanns urðu til þess að ein farþegavéla félagsins fór á hliðina og hrapaði í loftinu áður en tókst að ná stjórn á henni á ný.
Er það kannski óþarfi að taka það fram að flugvélin hafi verið í loftinu þegar hún hrapaði? Ég hef ekki heyrt mikið um það að flugvélar séu að hrapa á jörðu niðri. , – Takk fyrir þetta, Jóhannes.
Guðmundur Þór sendi eftirfarandi: ,,Visir.is í dag: Annarsvegar, hins vegar:
á milli Vítisengla og áhangenda þeirra annarsvegar og gengja innflytjenda annarsvegar. Að öðru leyti skorinorður og vel skrifaður texti.
Blessaðir ,,læknirarnir“:Konan lést samstundis en læknar tókst að draga barnið úr kvið konunnar stuttu eftir. Að auki fremur ósmekklegt orðaval.” Takk, Guðmundur Þór.
Eftirminnilegt og óvenjulegt viðtal Brynju við Jónas Jónasson í Kastljósi (30.09.2011).
Undarlegt hvernig fjölyrt er um fjölmennan fund í Háskólabíói í vikunni. Þar voru 300 manns í 1000 manna sal. Fjölmenni? Nei.
Skildu eftir svar