Stundum eru fréttir í íslenskum fjölmiðlum svo augljóslega rangar að með ólíkindum er. Visir.is sagði lesendum sínaum að Sameinuðu þjóðirnar væru búnar að samþykkja kaup Microsoft á Skype símavefnum vinsæla! Visir. is segir (07.10.2011): Microsoft hefur fengið leyfi Sameinuðu Þjóðanna til að yfirtaka Skype. Microsoft mun greiða 8.5 milljarða dollara fyrir símaskiptaforritið vinsæla, en notendur forritsins skipta milljónum. Og:
Nefnd Sameinuðu Þjóðanna sem rannsakaði kaupin telur að Microsoft og Skype séu einungis í samkeppni á sviði myndsímtala.
http://www.visir.is/s.th.-gefa-microsoft-graent-ljos/article/2011111009153
Lausleg athugun leiddi strax í ljós að þetta var tómt rugl því Sameinuðu þjóðirnar hafa ekkert með mál af þessu tagi að gera. Það var Evrópusambandið og nefnd á þess vegum sem heimilaði kaupin. Sjá:
http://www.washingtonpost.com/world/europe/european-union-approves-microsofts-85-billion-acquisition-of-skype/2011/10/07/gIQAtQQCTL_story.html?hpid=z6
Það þarf víðáttumikla vanþekkingu til að rugla saman Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu. – Hvað er annars símaskiptaforrit? Skiptist fólk þá á símum ? Er Skype (sem Molaskrifari notar mikið) ekki samskiptaforrit ?
Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (08.10.2011) var sagt frá því að norskt flutningaskip hefði sokkið á Haugasundi við Noreg. Norskir fjölmiðlar segja að skipið hafi sokkið norður af Haugasundi sem er bær í Noregi. Það þarf að vera hægt að treysta því að fréttastofa ríkisins fari rétt með. Ekki er heldur verra að kunna svolítið í landafræði.
Fjölmiðlar sem miðla röngum upplýsingum, rangfærslum, eru hættulegir samfélaginu. gefa lesendum /hlustendum eftir atvikum, ranga mynd af því sem um er fjallað. Halda röngum upplýsingum að fólki. Þannig fjölmiðlar eru til dæmis Útvarp Saga og Morgunblaðið á seinni tímum,- svona stundum.. Í Morgunblaðinu segir (08.10.2011) í Staksteinum: ,,Það breytir því ekki að efnahags- og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar hefur gert erfitt ástand mun verra og dregið allan bata á langinn”. Og : ,,Staðreyndin er sú að staðan er miklu verri en nokkurn gat órað fyrir og yfirklór ráðherra breytir þar engu um.”
Á forsíðu Morgunblaðsins þennan sama dag segir: ,,Einkaneysla eykst. Aukin kortavelta og fleiri bílar nýskráðir”. Svo segir frá því að velta raftækjaverslana sé orðin áþekk því sem var í byrjun árs 2008, – fyrir hrun. Síðan segir að ein tegund verslana, fataverslanir, hafi ekki náð sér á strik. Jafnframt er þess getið að kortavelta erlendis hafi aukist. Er ekki fólk farið að kaupa föt í auknum mæli erlendis vegna þess að þau eru miklu ódýrari þar en hér ? Gæti verið skýringin. – Það er ekki lífsnauðsynlegt að ljúga að lesendum Morgunblaðsins þegar pólitískir skriffinnar blaðsins skrifa um efnahagsmál og pólitík.
Það er svo líka umhugsunarefni að dag eftir dag syngja grátkórar samtaka atvinnulífs og iðnaðar sama sönginn á síðum Morgunblaðsins og reyndar í öllum fjölmiðlum um að ríkisstjórnin eigi að gera meira fyrir þá, ríkisstjórnin beri ábyrgð á atvinnulífinu. Molaskrifari hélt að þeir sem réðu þessum samtökum væru menn andvígir ríkisafskiptum af atvinnulífinu. Merkilegur kór. Hann hefur einn megingalla. Hann er falskur. Rammfalskur.
Í sexfréttum Ríkisútvarps (08.10.2011) var sagt: Þrjú hundruð kíló af stórhættulegu sprengiefni hefur verið stolið … Lögregluþjónninn sem svo var rætt við sagði réttilega að þrjú hundruð kílóum af sprengiefni hefði verið stolið. Í sama fréttatíma var talað um 1,8 milljarð. Hefði átt að vera 1,8 milljarða. 1,1 milljarður , 1,2 milljarðar.
Molavin sendi þetta (08.10.2011): Lögregla rýmdi öll hús í 500 metra radíus… las einn reyndasti fréttamaður Sjónvarpsins í kvöld í frásögn af sprengingu sem varð á Jótlandi. Orðið radius kemur fram í dönsku fréttinni um þetta mál. Það hefði mátt þýða og væri mun skýrara og skiljanlegra að tala um öll hús í ,,500 metra fjarlægð.“
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jakob Jónsson skrifar:
11/10/2011 at 19:32 (UTC 0)
Gunnar Kr. Ég hef mikið velt fyri mér þessu með „appið“ og svei mér ef þetta er ekki ansi góð tillaga.
SnorriK finnst mér stunda nefstökkið ansi duglega. Ekki finnst mér Eiður vor …“spila sig sem fræðimann mikinn..“ heldur er þetta bara þörf, og skemmtileg umræða hér um orðalag og málfræði(van)kunnáttu íslenskra fjölmiðla. Við skulum ekki gleyma að tiltekið „radíusinnslagið“ var ekki frá síðuhaldara komið, heldur eingöngu innslag í umræðuna frá lesanda.
Takk fyrir mig Eiður, haltu áfram ótrauður
Kveðjur frá London
Jakob
SnorriK skrifar:
10/10/2011 at 23:47 (UTC 0)
Einnig má benda á að undirrituðum þykir það hrokakennt af höfundi að ætla sér að skrifa um málfar og senda það svo út á opinberar síður internetsins án þess að prófarkalesa pistilinn áður. Málfar inniheldur stafsetningu og ekki erum vér að tala um eina eða tvær, sem væri tittlingaskítur, heldur megnið af greininni.
„Orðið radius kemur fram í dönsku fréttinni um þetta mál. Það hefði mátt þýða og væri mun skýrara og skiljanlegra að tala um öll hús í ,,500 metra fjarlægð.““
Meira en helmingur innihalds orða í íslenska tungumálinu eru tekin úr öðrum tungumálum, eins og gengur og gerist milli tungumála. Tökuorð eru eftir nokkra notkun, tekin inn í orðabókina íslensku. Til eru þýðingar fyrir einhver þeirra og jafnvel má skella fram nýyrðum fyrir fleiri en hvenær mun gefast tími til þess?
„Eða finnst þér kannski bara alltílagi skiluru að senda inn grein semer skrifuð einsog hún sé bara eitthvað samtal?“ – spyrjum vér, herra blaða- og fréttamaður, þú sem spilar þig sem fræðimann mikinn. Ertu búinn að gleyma starfsreglum RÚV, að halda alltaf góða íslensku?
Finndu eitthvað sem skiptir meira máli, til að tuða um, heldur en einhvern tittlingaskít og slor.
Gunnar Kr. skrifar:
10/10/2011 at 11:33 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Hvernig væri að endurnýta orðið „Apparat“ í staðinn fyrir enska orðið „App“?
Þú færð þér N1-apparat í snjallsímann. Þetta er orð sem flestallir þekkja, en er nánast dottið út úr málinu í dag. Þó er enn sungið um að Jósafat sé heimskur en að hún Pálína sé apparat. Það gefur til kynna að hún hafi verið ansi snjöll, sem tónar við snjallsíma.
Orðið Apparatus merkir tæki eða tækjabúnaður.
Eiður skrifar:
10/10/2011 at 09:32 (UTC 0)
Takk fyrir sendinga , Jón Frímann. Víða er pottur brotinn.
Jón Frímann skrifar:
09/10/2011 at 23:23 (UTC 0)
Síðan má bæta því við að á Vísi.is kom þetta fram um eldfjallið El Hierro. Í þessari frétt er tala um að á Kanarí séu 500 eldfjöll. Þetta er auðvitað rangt. Enda er bara eitt eldfjall á El Hierro, eins og öðrum eyjum á Kanari (mér vitandi þá eru eyjar á Kanarí ekki með tveim eldfjöllum eins og gerist á Azores eyjum norðan við þær).
„Eyjan El Hierro er lítil eyja í Kanaríeyjaklasanum. Hún mótaðist eins og hinar í eldgosum. Á henni eru um 500 eldfjöll.“
http://www.visir.is/eldgosavidvorun-a-kanarieyjum/article/2011111008995
Í upprunalegu fréttinni sem þetta er unnið upp úr er talað um 500 volcanic cones. Það er eldgíga, eða bara gíga ef stutt á að fara með þetta.
Upprunalega heimild frétt Vísir.is er AP, eins og sjá má hérna sem dæmi, http://www.huffingtonpost.com/huff-wires/20111009/eu-spain-volcano-alert/
„Like all the Canary Islands, El Hierro was formed by volcanic activity. It has some 500 volcanic cones.“
Íslenskur fréttaflutningur er mjög slæmur eins og sjá má.