«

»

Molar um málfar og miðla 742

Hér var fyrir nokkru nefnt að norska sjónvarpið (NRK2) hefði á laugardaginn var sýnt lokatónleikana í Proms tónleikaröð BBC (Last Night of the Proms). Af því tilefni nefndi maður sem gjörla þekkti til Ríkissjónvarpsins á árum áður að í eina tíð hefðu Proms-tónleikar frá BBC af og til verið á dagskrá sjónvarpsins. Það var þegar stjórnendur Ríkissjónvarpsins höfðu menningarlegan metnað til að bera fyrir hönd stofnunarinnar. Það er líklega borin von að við fáum að sjá þessa Proms tónleika eða 9. sinfóníu Mahlers sem norska sjónvarpið býður upp á seinna í þessum mánuði. Last Night of the Proms tónleikarnir verða endurfluttir á NRK2 laugardaginn klukkan 12 00 og á sunnudaginn klukkan 07 55 að íslenskum tíma.

Lesandi sendi Molum eftirfarandi (13.10.2011): ,,Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag var fréttakona að segja frá hörmulegu banaslysi á Djúpavogi. Hún las fréttina eins og um hversdagslegan og jafnvel gleðiatburð væri að ræða og án allrar hluttekningar. Þetta var ömurlegt á að hlusta.
Ég heyri vaxandi fjölda fólks, börn og fullorðna, tala um að kveikja á vaskinum þegar á að skrúfa frá krananum. Svo kveikir það á sturtunni þegar á að fara í sturtu. Ég get ekki fellt mig við þetta orðalag sem er því miður notað á mínu heimili.” Með þessum texta sendi lesandi mynd af skilti, líklega við Reykjavíkurhöfn. Á skiltinu stóð: Allur akstur bannaður nema langferðabílar.

Vinsældir vetrarhlaupa eru langt frá því að fara minnkandi,var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (13.10.2011).

Úr dv.is (13.10.2011): Þar er Houston sögð hafa neitað að festa sætisólar áður en vélinni var lagt af stað.. Vélinni var ekki lagt af stað. Vélin lagði af stað, væri skárra.

Í morgunþætti Rásar tvö (14.10.2011) talaði umsjónarmaður um sauðsvartan almenning. Það er föst orðvenja að tala um sauðsvartan almúgann og ástæðulaust að reyna að breyta því. En það eru víðar bögubósar. Í viðtali í DV við Vigdísi Hauksdóttur alþingismann sem fræg er að endemum í ræðustóli þingsins segir hún: … ég hafði sigur af hólmi í fyrstu umferð. Þingmaðurinn átti við að hún hefði sigrað, haft sigur, eða farið með sigur af hólmi. Fleiri gullkorn þingmannsins: .. þetta var þannig málum vaxið, ( málið var þannig vaxið). Þetta er bara að hríslast í sundur. (Þetta er riðlast, þetta er að hrynja.) Það er engu logið um það hvernig þessi þingmaður afbakar íslensk orðtök.

Á föstudagsmorgni komu 1,8 kíló af dagblöðum og ruslpósti inn um póstlúguna heima hjá Molaskrifara. Var þó hinn eiginlegi póstur ókominn. Endurvinnsla Sorpu fær sitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>