«

»

Molar um málfar og miðla 746

Bílasalinn Ingvar Helgason og B&L gera atlögu að íslenskri tungu í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu (17.10.2011). Aðalfyrirsögn auglýsingarinnar er með stóru letri: Bíladílar í október. Í texta auglýsingarinnar segir: Við getum boðið þér díl í nýjan bíl. Þessi auglýsing er fyrirtækinu og auglýsingahönnuði þess til skammar.

Villandi fyrirsögn var á dv.is (17.10.2011): Skúli keypti Minjasafn OR. Við lestur fréttarinnar kom í ljós að Skúli sem hér átti í hlut keypti húsið sem hýst hafði Minjasafn Orkuveitunnar. Hann keypti ekki minjasafnið.

Það var hallærisleg hótfyndni hjá Staksteinahöfundi Morgunblaðsins (18.10.2011) þegar hann skrifaði um Pál Magnússon sem ráðinn hefur verið forstjóri Bankasýslu ríkisins og Pál Magnússon útvarpsstjóra að blanda föður þess fyrrnefnda í málið.

Kristján sendi eftirfarandi: ,,Stundum finnst manni að ambögur og málleysa í fjölmiðlum hér gætu bakkafyllt Þjórsá og yxi þar fjóluskrúð mikið á bökkum að auki. Þótt oftast sé ami að þessu geta kauðskan og klúðrið verið kátleg eins og í furðupistli sem slóðin hér á eftir leiðir til. Þar er rakinn spuni um að Hitler hafi átt marga náðuga daga í Argentínu eftir lok seinna stríðs og orðið þar jafnvel svo fjölkunnugur að hann ól tvær dætur er ritað í net-Vísi. Seigur þessi!
Þökk fyrir málfarspistla og fjölmiðlarýni. Ég les þá yfirleitt.
http://www.visir.is/segir-hitler-hafa-lifad-godu-lifi-i-argentinu-eftir-strid/article/2011111019170 Molaskrifari þakkar Kristjáni sendinguna.

Molavin sendi eftirfarandi: (16.10.2011): ,,Heitavatnsleysi í Hlíðahverfi vegna leka segir í forsíðu fréttar á visir.is og er endurtekið í frétt. Þetta hlýtur að vera óþægilegt fyrir Heitaveituna.’’ Nærri má geta. Og hann bætir við: ,,Ég hefði helst kosið að nöldra ekki meira um kjölfars-áráttuna í fréttamáli fjölmiðla, en þegar hún tengist eftir að-áráttunni þá stenst ég ekki freistinguna. Á mbl.is hefst frétt svo: Fimm létu lífið í Lettlandi snemma í morgun eftir að hluti þriggja hæða fjölbýlishúss hrundi í kjölfar sprengingar. Nær væri að segja ,,Fimm létu lífið þegar hús hrundi er sprenging varð…“ Satt og rétt, Molavin.

DV segir (17.10.2011) frá kunnum kaupsýslumanni sem nú er kominn á þriðju kennitölu og skilur eftir sig skuldaslóð þar sem skuldirnar nema hundruðum milljóna króna. Hann skákar sjálfsagt í því skjólinu að þetta sé löglegt. Þannig var það líka með kennitöluflakk Þjóðviljans og kannski Alþýðubandalagsins líka þegar Ólafur Ragnar Grímsson og fleiri þjóðkunnir menn réðu þar ríkjum. Það er eins og Molaskrifara minni að Landsbankinn hafi fengið að súpa seyðið af því á sínum tíma.

Hreiðar sendi þetta: ,,Eftirfarandi er ritað í frétt á www.dv.is í dag: Vegsummerki benda til þess að varðeldur hafi verið kveiktur og líkamsleifarnar eldaðar, að því er segir í frétt Telegraph.

Orðið vegsummerki er einkennileg smíð. Þetta á auðvitað að vera ,,verksummerki, – þ.e.a.s. ummerki um það verk sem hefur verið unnið á staðnum.

Orðið vegsummerki þekki ég aðeins lauslega en það hefur aðeins sést í lögregluskýrslum um umferðarslys og þá notað um hemlaför, glerbrot, brak úr ökutækjum og önnur þau ummerki sem umferðaróhapp skilur eftir sig á akbraut. Ég tel þó að sú notkun orðsins sé einnig vafasöm þótt vissulega eigi hún betur við en notkun orðsins í fréttinni á www.dv.is” Kærar þakkir, Hreiðar.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Vegsummerki, verksummerki. Hvort tveggja tilfærir félagi Mörður sem gott og gilt mál. Ætti þá okkur hinum að vera vorkunnarlaust að sætta okkur við hvort sem notað væri.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Glúmur.

  3. Glúmur Gylfason skrifar:

    Virðingarvert er framtak Eiðs þegar flestum virðist standa á sama um það eina sem þessi þjóð á eftir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>