Stórgott innslag Þóru Arnórsdóttur um sorphirðu og endurvinnslu í Kastljósi (20.10.2011). Viðtalið við formann umhverfisnefndar Reykjavíkur var eiginlega fáránlegt. Maðurinn sagði að ekki mætti rugla fólk í ríminu með því að láta það fara að flokka rusl! Ef þetta er til marks um þá sem stjórna Reykjavíkurborg þá mega Reykvíkingar eiginlega biðja guð að hjálpa sér. Og VG í borgarstjórn telja það sáluhjálparatriði og bóka að engir einkaaðilar komist að við sorphirðu eða endurvinnslu sorps! Ja, hérna. Hverskonar rugl er þetta? Annars mega önnur sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu eins og til dæmis Garðabær skammast sín fyrir lélega frammistöðu í þessum efnum. Þau gæta sín hinsvegar á því aðs enda ekki kjána í sjónvarpið þegar fjallað er um þessi mál. Þetta var eiginlega sorglega hlægilegt.
Úr sexfréttum Ríkisútvarpsins (18.10.2011): Ríkisendurskoðun gaf síðasta vetur út …. Hversvegna ekki: Ríkisendurskoðun gaf í fyrra vetur út….?
Dyggur Molalesandi sendi þetta(18.10.2011): ,,Í hádegisfréttum og á vef Ríkisútvarpsins (18.10.11) er íþróttafrétt: Erla Steina hætt í fótbolta . Þar segir m.a.: Hún er annar íslenski leikmaðurinn sem hverfur úr herbúðum Kristiansand, sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar, á skömmum tíma en Margrét Lára Viðarsdóttir gekk til liðs við Turbine Potsdam á laugardaginn.
Þetta er einstaklega klúðursleg setning, með tvíteknu tilvísunarfornafninu sem með skömmu millibili – „… sem hverfur úr herbúðum K. sem Elísabet G. þjálfar …“ . Við lestur fréttarinnar í hádegisfréttunum gerði íþróttafréttamaðurinn Haukur Harðarson ekki greinarmun við kommurnar heldur las í belg og biðu. Í hádegisfréttum heyrði ég fréttina svona: … sem hverfur úr herbúðum Kristiansand sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar á skömmum tíma … . Já, Elísabet þjálfar Kristiansand á skömmum tíma! Greinilega rösk kona hugsaði ég með mér og missti því af seinni hluta setningarinnar.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Egill sendi Molum þetta (18.10.2011) : ,,Lögreglan lýsti eftir X Þóri Xsyni á visir.is, en svo stendur í myndatexta X Þór Xson. Hér er ruglað saman nöfnunum Þór og Þórir. Þór, Þór, Þór, Þórs og Þórir, Þóri, Þóri, Þóris.” Takk fyrir sendinguna, Egill.
Það var ekki samræmi í fréttum Ríkissjónvarpsins (18.10.2011) þegar sagt var í fréttayfirliti við upphaf og lok frétta að 500 palestínskir fangar fengju frelsi í skiptum fyrir einn ísraelskan hermann. Í fréttinni kom hinsvegar fram að palestínsku fangarnir sem fá frelsi eru rúmlega þúsund.
Það er undarlegur ósiður sumra fjölmiðla að birta fréttir og láta líta svo út sem það gætu verið innlendar fréttir. Það á við um þessa frétt á dv.is (18.10.2011). http://www.dv.is/frettir/2011/10/18/niu-ara-stulka-keyrdi-drukkinn-fodur-sinn/
Það kemur hvergi fram í fréttinni hvar þetta átti sér stað. Með því að rýna í myndina (myndbandið) sem fylgir fréttinni sést að þetta er úr Detroit Free Press. Einstaklega ófagleg vinnubrögð. Eins og verið sé að reyna að blekkja lesendur.
Líklega heldur upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur að við séum kjánar. Hversvegna? Hann segir að jarðskjálftar sem eiga rætur að rekja til þess að menn dæla vatni niður í iður jarðar séu ekki af manna völdum. Segir þetta í fréttum sjónvarps án þess að depla auga.
Molavin sendi eftirfarandi (19.10.2011): ,,Af mbl.is: Tugir villidýra, þar á meðal ljón, tígrisdýr, birnir og úlfar, ganga lausum hala í Ohio í Bandaríkjunum. Góð tilraun, en mislukkuð.,,Leika lausum hala“ hefði átt vel við.
Þeir blaðamenn, sem vilja skreyta málfar sitt með gömlum og góðum orðasamböndum, verða að þekkja þau. Eða að minnsta kosti að kunna að fletta þeim upp. Sé það of mikil fyrirhöfn má alltaf nota google.com.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
22/10/2011 at 05:00 (UTC 0)
„Þáskildagatíðin vefst fyrir mörgum. Fulltrúi Karl hefði átt að skrifa: „… að spyrja hvers vegna Reykjavík fari ekki bara af stað sjálf, án tillits til hvað nágrannasveitarfélögin hyggist gera.““
Þáskildagatíðin? Hvað er þáskildagatíð? Að sögn Björns Guðfinnssonar er þáskildagatíð sett saman svona: Ég mundi hafa flokkað. Hefði setningin um sorpið verið sett í þskt. myndi hún hafa hljóðað svo: …hvers vegna Reykjavík mundi ekki hafa farið af stað… Tæplega fer vel á því. Sennilega á Gunnhildur þó við að viðtengingarháttur fari betur í setningunni Karls. Um það má þó deila. Hvort tveggja hljómar þokkalega og er í samræmi við hefð, viðurkennt og viðeigandi. Hins vegar er gott að þekkja í sundur þáskildagatíð og viðtengingarhátt.
Og svo er það hitt. „Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn „Tugir villidýra gengu lausir“. Eins gott að passa sig á stórhættulegum tugum sem ganga lausir.“ Það er einmitt í samræmi við hefð, viðurkennt og viðeigandi að sögn og sagnfylling lagi sig að frumlagi setningar. Og þar sem frumlagið í tilvitnaðri setningu er „tugir“ liggur ljóst fyrir að sá sem sagði: „Tugir villidýra gengu lausir“, hefur góða máltilfinningu og full ástæða til að vara sig einmitt á þessum tugum villidýra.
Gunnhildur skrifar:
21/10/2011 at 17:12 (UTC 0)
Þáskildagatíðin vefst fyrir mörgum. Fulltrúi Karl hefði átt að skrifa: „… að spyrja hvers vegna Reykjavík fari ekki bara af stað sjálf, án tillits til hvað nágrannasveitarfélögin hyggist gera.“
Karl Sigurðsson skrifar:
21/10/2011 at 14:00 (UTC 0)
Sæll aftur.
Mér þykir leitt að þú skulir enn eiga erfitt með að skilja svarið. Vildi að ég gæti hjálpað þér við það, en mér sýnist viljinn ekki vera fyrir hendi þín megin. Nema það sé getan, sem ég leyfi mér að efast um.
Hvað varðar það sem þú sagðir um mína eigin flokkun, þá væri það í það minnsta illskiljanlegt ef ég henti rusli óflokkuðu (þú misstir þarna úr eitt u). Sem betur fer er það ekki tilfellið. Ég flokka nefnilega pappír frá öðrum úrgangi. Hins vegar er það að mínu mati mjög lítil flokkun, eins og kom fram í máli mínu, en stendur til bóta. Plastið er nefnilega næst á dagskrá.
Kær kveðja,
Karl.
Eiður skrifar:
21/10/2011 at 13:48 (UTC 0)
Sæll, Karl. Ekkert að þakka. Svarið er jafn óskiljanlegt og áður. Enn óskiljanlegra að formaður umhverfis- og samgönguráðs reykjavíkur skuli henda rusli óflokkuð. Margir sem búa í Reykjavík og nágranna sveitarfélögunum flokka sorp að eigin frumkvæði. Ég bý í Garðabæ .þar sem sveitarfélagið stendur sig illa í þessum efnum, en tel ekkert eftir mér að fara með allan pappír og plast í endurvinnslui hjá Sorpu.
Karl Sigurðsson skrifar:
21/10/2011 at 13:36 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Ég þakka hlý orð í minn garð. Hins vegar þykir mér áhugavert að maður sem fylgist jafn vel með málfari og þú skulir ekki vera betur á vaktinni þegar kemur að merkingu.
Ef grannt er skoðað sést berlega að Þóra er að spyrja hvers vegna Reykjavík fer ekki bara af stað sjálf, án tillits til hvað nágrannasveitarfélögin hyggjast gera. Svar mitt við þeirri spurningu var einmitt á þá leið að það gæti ruglað fólk í ríminu ef sveitarfélög sem eru jafn nálægt hvert öðru fara mismunandi leiðir í endurvinnslu. Þetta er auðvelt að skilja, nema ríkur vilji sé til annars.
Kær kveðja,
Karl Sigurðsson
Formaður Umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.
Kristján skrifar:
21/10/2011 at 10:48 (UTC 0)
Meira af villidýrunum í Ohio:
Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn „Tugir villidýra gengu lausir“. Eins gott að passa sig á stórhættulegum tugum sem ganga lausir.