Rétt er að vekja athygli á ágætri grein Ólafs Sigurðssonar fyrrverandi varafréttastjóra Sjónvarps á bls. 28 í Fréttablaðinu í dag þar sem Ólafur vekur athygli á furðulegri fullyrðingu alþingismannsins Sigurðar Kára Kristjánssonar.
Þingmaðurinn sagði í útvarpsþætti nýlega, að á fyrstu árum Sjónvarpsins hefðu ráðherrarnir samið spurningarnar fyrir okkur fréttamennina. Nú veit ég ekki alveg hvernig Sigurður Kári kemst að þessari niðurstöðu. Varla hefur hann séð mörg viðtöl í fréttum fyrstu sjónvarpsáranna. Hann fæddist nefnilega ekki fyrr en tæplega sjö árum eftir að Sjónvarpið tók til starfa.
Þetta er auðvitað rakinn óhróður. Rakalaus sleggjudómur og rugl eins og Ólafur Sigurðsson rekur svo ágætlega.
En Sigurður Kári er í góðum félagsskap þegar hann heldur þessari staðleysu fram.
Í viðtali á 40 ára afmæli Sjónvarpsins sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands að sjónvarpið hefði fyrstu árin bara verið “þjónustustofnun við þá sem réðu landinu” og viðtöl við ráðamenn hefðu verið tekin aftur og aftur þangað til þeir voru ánægðir með útkomuna. Síðan hefði hann komið og gjörbreytt Sjónvarpinu. Þessum þvættingi Ólafs Ragnars gerði ég nokkur skil í 2. hefti 3. árgangs tímaritsins Þjóðmála.
Það er kannski ástæða til að óska Sigurði Kára til hamingju með félagsskapinn, en ég held ég láti það vera.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Flosi Kristjánsson skrifar:
15/01/2009 at 18:06 (UTC 0)
Vera má að stjórnmálamenn hafi ekki haft bolmagn til þess að semja eða láta semja „réttar“ spurningar fyrir viðtölin.
Hitt er til skjalfest, og það veit forseti lýðveldisins fullvel, að þeir sem voru nógu meðvitaðir um tæknimálin, eins og hann var örugglega, gátu stjórnað viðtölunum. Ég held mig misminni ekki að hann, sem fjármálaráðherra, hafi í viðtali framan við Arnarhvál, stoppað upptöku á viðtali vegna þess að hann hafði tafsað eða tvítekið eitthvað. „Stopp, stopp! Byrjum aftur!“ Cut! sega leikstjórarnir.
Man einhver eftir þessu?