Molaskrifari verður alltaf jafn hissa þegar fréttaþulir lesa augljósar villur, án þess að hika eða depla auga. Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (03.12.2011) las þulur: … segir lélegan undirbúning meirihlutans um að kenna. Hér hefði átt að segja: …segir lélegum undirbúningi meirihlutans um að kenna. Í sama fréttatíma var sagt frá mislingum í Evrópu. Talað var um að deyja af mislingum. Eðlilegra hefði verið að tala um að deyja úr mislingum. Það er í samræmi við málvenju.
Í fréttum Stöðvar tvö (03.12.2011) var sagt frá fundi fjárlaganefndar Alþingis og sagt að ekki hefði verið hægt að ljúka afgreiðslu fjárlaga í nefndinni því gögn hefðu verið ósamræmanleg. Molaskrifari hallast að því að betra hefði verið að segja að misræmi hefði verið í tölum í gögnum nefndarinnar. Svo var talað um að hafa öll gögn milli handanna. Betra: Vera með öll gögn í höndunum.
Hæstiréttur gefur misvísandi dóma í lánamálum og spyr lögmaður hvort það sé sanngjarnt … segir í frétt á á pressan.is (03.12.2011). Hæstiréttur gefur ekki dóma. Hægt er að tala um að dómar Hæstaréttar séu misvísandi. Ekki gefa dóma. Mikið er um ambögur á fréttavefnum pressan.is
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (04.11.2011) var í frétt um kosningar í Rússlandi talað um Kremlin sem er enska heitið á Kreml. Þá var líka sagt að kjörstaðir hefðu opnað og lokað. Kjörstaðir opna ekki neitt og loka ekki neinu. Kjörstaðir eru opnaðir og kjörstöðum er lokað. Sumum fréttamönnum gengur ákaflega illa að læra þetta , – sem er þó afar einfalt. Í sama fréttatíma var talað um úrkomuleysi þegar átt var við þurrk eða þurrkatíð. Í kvöldfréttum Stöðvar tvö var svo bætt um betur og sagt að vatnsborð Rínar hefði fallið vegna úrkomuleysis. Vatnsborð fljótsins hafði lækkað vegna þurrka. Það féll ekki. Í Ríkissjónvarpi var réttilega talað um þurrka, ekki úrkomuleysi.
Gunnar sendi annars eftirfarandi athugasemd við þessa frétt Bylgjunnar: ,,Tugþúsundir íbúa þýsku borgarinnar Koblenz hafa verið fluttir af heimilum sínum eftir að risastór ósprungin sprengja úr seinni heimsstyrjöldinni fannst í ánni Rín sem rennur í gegnum borgina. Eru sprengur ekki ósprungnar ef þær finnast ?” Hann bætir við: … þegar vatnsborðið í Rín féll óvenjulega mikið vegna óvenjumikils úrkomuleysis á svæðinu Er þessi texti ekki óvenjumikið bull? ” Molaskrifari getur alveg tekið undir það.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (04.12.2011) var talað um menn sem afplána dóma sína erlendis. Þarna var orðinu sína ofaukið. Nægt hefði að tala um menn sem afplánuðu dóma erlendis. Í sama fréttatíma var talað um unga menn sem starfað hefðu við vegavinnu. Molaskrifara, gömlum vegavinnumanni, hefði þótt fara betur á því að tala um unga menn sem verið hefðu í vegavinnu. Sagt er að engar fréttir séu góðar fréttir. Í níufréttum Ríkisútvarpsins á sunndagsmorgni (04.12.2011) voru engar innlendar fréttir. Greinilega hafði hreint ekkert til tíðinda borið á Íslandi.
Í fréttum Stöðvar tvö (04.12.2011) var fjallað um makríl og sagt að aflinn væri allur seldur erlendis. Makríllinn er ekki seldur í útlöndum eins og fréttamaður sagði. Hann er seldur til útlanda sem er annar handleggur.
Jólaandi sveif yfir á Árbæjarsafninu , var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (04.12.2011). Nægt hefði að segja: Jólaandi sveif yfir Árbæjarsafninu. Í sömu frétt var talað um útskurð á laufabrauðum ! Betra hefði verið að tala um útskurð á laufabrauði.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/12/2011 at 08:53 (UTC 0)
Heldur leiðast mér hártoganir. Lang algengustu viðskiptahættir í sjávarútvegi eru að afli er seldur hér innlendum eða erlendum kaupendum og síðan fluttur til útlanda ef svo ber undir. Það er liðin tíð (að mestu) að íslensk skip selji afla erlendis. Öðru hverju landa þó íslensk skip afla sínum erlendis (oftast loðnu) og er hann þá auðvitað seldur erlendis.
Þorvaldur S skrifar:
06/12/2011 at 07:23 (UTC 0)
Nú!
Það sem ég vildi reyndar sagt hafa með þessari kvkindislegu athugasemd var að málsgreinina má skilja á tvo vegu, hvort sem það var ætlun upphaflegs höfundar. Hafi hann ætlað að segja að aflinn hafi selst til útlanda var orðalagið að sönnu ekki til fyrirmyndar en hafi hann átt við að makrílarnir hafi verið fluttir til útlanda og síðan seldir þar, sem vel má vera – við getum ekkert ráðið um það af orðalaginu eins og þú leggur það fram alltént, er ekkert athugavert við framsetninguna.
Eiður skrifar:
05/12/2011 at 22:47 (UTC 0)
Aflinn var seldur til útlanda. Hann var ekki seldur erlendis. Salan fór fram á Íslandi en kaupandinn var erlendis.
Þorvaldur S skrifar:
05/12/2011 at 22:41 (UTC 0)
Nú; var aflinn þá ekki seldur í útlöndum? Ætli hann hafi verið gefinn þar?