Nýlega heyrði Molaskrifari endurtekinn þátt Í Ríkisútvarpinu (frá 1987?) um Hannes Hafstein okkar fyrsta innlenda ráðherra og þjóðskáld. Þessi þáttur var lokaþátturinn í röð fjögurra þátta. Klemens Jónsson leikari sem um skeið var leiklistarstjóri útvarpsins stýrði gerð þessara þátta. Þarna var allt eins og best varð á kosið; stórkostlegur flutningur enda komu þar margir okkar bestu upplesara við sögu, – eins og Arnar Jónsson og Hjörtur Pálsson. Efnistök voru frábær. Þessi þáttur var sannkölluð perla úr safni Ríkisútvarpsins. Í dagskrá Rásar eitt er oft að finna úrvalsefni. Í þáttunum Víðsjá og Samfélaginu í nærmynd er oft mjög áhugavert efni, yfirleitt vel flutt og vel framsett.
Orðið fjárfestir beygist: fjárfestir, fjárfesti,fjárfesti, fjárfestis. Það er því undarlegt að heyra aftur og aftur í fréttum (t.d. 06.12.2011) talað um þennan erlenda fjárfesta (Huang Nubo).
Í Spegli Ríkisútvarpsins (06.12.2011) var sagt: Bókin rekur hvernig … Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að sagt væri: Í bókinni er rakið hvernig ….
Kynnir í Kastljósi sagði (07.12.2011): Fjárlög voru samþykkt fyrir stundu og var hart deilt um ýmsa þætti þess. Svona á ekki að tala.
Konur fá inn í þjóðsönginn, segir í fyrirsögn á mbl.is (07.12.2011). Þetta er klaufalegt orðalag um það að dætur, ekki aðeins synir komi við sögu í þjóðsöng Austurríkis.
Ágúst þakkar Málfarsmola og bendir á frétt (07.12.2011) á vef Ríkisútvarpsins þar sem þessa setningu er að finna: Reikistjarnan hefur verið skírð Kepler 22-b. Ágúst segir síðan: ,,Ég rakst á þessa frétt á RÚV áðan og hef oft tekið eftir því áður, að þegar ýmsum hlutum eru gefin nöfn er sagt að þetta og hitt sé skírt. Í mínum málskilningi eru hlutir nefndir og börnum gefin nöfn við skírn. Þegar fólk hefur þetta svo fyrir sér í fjölmiðlum hvað eftir annað er ekki furða þó að hefð komist á þetta málfar.” Þetta er hárrétt ábending. Kærar þakkir Ágúst.
Egill sendi eftirfarandi (08.12.2011): ,,Ég horfði á þáttinn „Geðveik jól“ á Skjá einum í kvöld, sem var söfnunarþáttur fyrir gott málefni, Geðhjálp. Þetta var ljómandi afþreying þar til kom að Íslandspósti. Starfsmenn allra hinna fyrirtækjanna höfðu oftar en ekki haft fyrir því að semja íslenska jólatexta og lögðu mikið í myndbandagerðina. Svo kom Íslandspóstur með erlent jólalag þar sem allt var sungið á ensku og lítið lagt í myndbandið, sem var allt tekið í Dómkirkjunni. Þarna var skitið langt upp á bak, ég slökkti á sjónvarpinu og sá því ekki það sem á eftir kom. Dómgreindarleysi að syngja á ensku, ekkert annað!”
Heklubók Þóru. Þannig hljóðar fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (08.12.2011). Þetta er ekki bók um Heklu. Þetta er bók um hekl. Þessvegna hefði fyrirsögnin átt að vera: Heklbók Þóru. Það finnst Molaskrifara að minnsta kosti.
Klaufalegt orðalag á dv.is (08.12.2011) Hann hafði ekki leyfi til að vera á bílnum og reyndist hafa tekið hann ófrjálsri hendi af fjölskyldumeðlim. Óþörf og kjánaleg þolmyndarnotkun. Ættingi , náinn ættingi, væri betra en orðskrípið fjölskyldumeðlimur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/12/2011 at 19:52 (UTC 0)
Kærar þakkir, Jón. Þetta er ekkert ,,nöldur“.
Jón Sveinsson skrifar:
11/12/2011 at 19:37 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Nokkrir molar úr fréttum RUV-sjónvarp í kvöld 11.12.
Sagt frá skíðafólki í Bláfjöllum í dag og þess getið (með mynd) að þar hafi stúlka rennt sér á einum fæti. (Jú það virtist vanta annan fótinn frá hné og reyndar notaði hún eitt skíði).
Og þá úr íþróttum : Þar var talað um fljótasta mark sem hefði komið í knattspyrnu (reyndar skorað eftir 29 sek. ef ég man rétt)
Og svo í umfjöllum í handboltaleik Fram og Vals. Þar var sagt í lok fréttar að „úrslitin hefðu geta fallið sitt hvorum megin2. Leikurinn vannst með einu marki.
„Nöldurkveðja“ Jón Sveinsson.
Eiður skrifar:
11/12/2011 at 13:40 (UTC 0)
Já, þetta ber vott um mikla vandvirkni ! Svo sannarlega.
Björn skrifar:
11/12/2011 at 10:59 (UTC 0)
Í dv.is 10. desember er grein sem nefnist Námskeið VG og hefst á orðunum „Sú tíðindi að Jón Baldvin Hannibalsson ætli… Ætlaði blm. að vanda sig?