Það ríður ekki við einteyming latmælið í Efstaleitinu. Þá er átt við að þar nenna menn ekki lengur að tala um Ríkisútvarpið heldur heitir þessi þjóðarstofnun nú samkvæmt skipun æðstu yfirmanna bara Rúv og dagskrárkynnir sjónvarps tönnlast í síbylju á hér — á rúv ( með sérkennilegum áherslum ) – rétt eins og hugsanlegt væri að verið væri kynna dagskrárliði eða þætti í einhverjum öðrum fjölmiðli! Nú nær latmælið lengra. Sifóníuhljómsveitin heitir ekki lengur Sinfóníuhljómsveit Íslands, eða sinfóníuhljómsveitin, ekki einu sinni sinfónían. Nú heitir þessi góða hljómsveit okkar sinfó. Þetta fékk þjóðin að heyra á jóladag í sjálfu sjónvarpi ríkisins. Þetta finnst Molaskrifara vera til skammar. Háborinnar skammar.
Í fréttum Stöðvar tvö (27.12. 2011) var sagt frá óveðrinu sem gekk yfir mið – og norður Noreg. Sagt var frá bíl sem skemmst hafði er tré féll á hann: Fréttaþulur las inngang að fréttinni. Hann var svona: Bíll Íslendings sem búsettur er í Noregi tókst á loft eftir að tré sem hann var lagður við, rifnaði upp með rótum vegna veðurofsans. Það var og. Bíllinn var lagður við tré. Ekki mikilli máltilfinningu fyrir að fara þarna.
Egill sendi þetta (19.12.2011) : „Þetta er stærstu tónleikar aldarinnar?“ spurði Andri Freyr nú í morgun í Ríkisútvarpinu.
„Þá var hann eitthvað að núll-einnast niðri, eða eitthvað.“
„Og ég var eitthvað, hvað er þetta?“
„Ég dreymi ekkert lengur.“
„Eigum við ekki að kveðja á plötu dagsins?“
Það er alltaf eitthvað að, hjá Andra, í útvarpi allra landsmanna.- segir Egill. –
Molaskrifari bætir við að á jóladag var sagt í Ríkisútvarpinu að fimm tónleikar hefðu selst upp. Átt var við að uppselt hefði verið á fimm tónleika.
Molalesandi sendi þessar línur um textavarp Ríkisútvarpsins (19.12.2011):
,,Mér datt í hug að senda þér nokkur gullkorn úr safni Textavarps sem er
fjölmiðill er ég nota mikið.
Þeir sem setja inn fréttir í textavarpið virðast ekki hafa lært að nota
tölustafi og birtast þar oft miklir langlokuhundar sem erfitt er að
skilja. Mótmælendur voru þrjúhundruðþúsund sem er sjötíu prósent meira
enn allt árið tvöþúsundogellefu sem er um fimmtíuþúsund komma átta
prósent og að barnabætur hafi rýrnað um tuttuguprósent síðastliðin tíu ár
hjá fimmtíu og átta prósenta fólks ,og verður þetta leiðingjarnt til
lengdar að ekki sé hægt að nota tölustafi í ártöl og fjölda mótmælenda
svo tekin séu dæmi. Það ætti ekki að vera þeim ofraun að nota % merkið og
tölustafi líkt og annað fólk á fjölmiðlum.
Bandarísk leikkona lét taka af sér nektarmyndir fyrir tímaritið Playboy
og segir í frétt að hún sé framan á Playboy og kannast ég ekki við
þetta orðalag að fólk sé framan á tímaritum , því eflaust er bara mynd af
henni á forsíðu tímaritsins.
Svolítið hefur verið fjallað um símahleranir og vill Textavarpið ekki
vera eftirbátur annara fjölmiðla þar og segir í titli fréttar ,,Tveir
starfsmenn tveggja mismunandi símafyrirtækja,, og ég spyr líkt og álfur
hvort ekki megi sleppa orðinu ,,mismunandi,,
Þetta voru bara nokkur gullkorn af þeim mikla fjölda er birtast í
Textavarpinu dags daglega.” Molaskrifari þakkar bréfið. og játar að hann er ekki mjög iðinn við að lesa fréttir í textavarpinu.
Es. Tölvunni minni er sýnna um réttritun og málfar en ráðamönnum Ríkisútvarpsins. Hún villumerkir bæði Rúv og Sinfó.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Nafnlausar athugasemdir verða ekki birtar. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli og nafnlausar athugasemdir. ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
29/12/2011 at 12:29 (UTC 0)
Smáviðbót, Björn, – mér sýnist nú mbl.is heldur ekki hafa látið þennan skilnað (hvort sem satt er nú eður ei) Önnu Mjallar framhjá sér fara. DV gerir kannski meira úr málinu. Þetta er svo sem bara ómerkileg smjattfrétt.
Eiður skrifar:
29/12/2011 at 11:14 (UTC 0)
Sæll Björn. Molana getur þú líka lesið á síðunni minni http://www.eidur.is . Ég birti lengi vel blogg á mbl.is. Mér hugnast hiunsvegar ekki hvernig blaðið í málflutningi skríður fyrir eigendum sínum og rangtúlkar allar fréttir úr efnahagslífinu og stjórnmálum hér á landi. Allt er nú orðið litað af hagsmunum eigenda , nema kannski dánartilkynningarnara. Lestu hálfkærongsleiðarann í dag þar sem ýjað er að því að ríkisstjórnin hér sé svona eitthvað í áttina við ógnarstjórnina í Norður Kóreu. Ekkert alvörublað sem ég þekki mundi birta svo bull í leiðara. Heiftin er óksapleg. Ég kaupi Mogga vegna minningargreinanna. Mér hungnast ekki eignarhald og Fraamsóknarforkólfatengslin í sambandi í eyjuna eða pressuna. Víst er það rétt að DV birtir fullt af ruisli ( það gera hinir miðlarnir svo sannarlega einnig). En ég veit ekki til þess að DV sé háð neinum sérhagsmunahópi, og DV hefur hreyft við og hrist upp í mörgum málum sem enginn fjölmiðill annar hefur litið við. Svo er líka ágætt að vita hverjir eiga afmæli eins og DV segir reglurlega frá! Ég fæ ekki greitt fyrir birtingu Molanna eins og sumir fá fyrir sín skrif. Þeim fylgja engar auglýsingar. Þessvegna er ég engum bundinn í þeim efnum. En það er ekkert víst að ég verði eil ífur augna karl á DV , – alls ekki,. En líki þér ekki DV farðu þá á http://www.eidur.is . K kv Eiður
Bjarni. skrifar:
29/12/2011 at 11:07 (UTC 0)
Í fréttahandriti eru tölur ritaðar með bókstöfum, meðal annars til að áætla tímalengd fréttarinnar. Þessu á auðvitað að breyta yfir í tölustafi þegar frétt er flutt yfir í textavarp.
Eiður skrifar:
29/12/2011 at 10:55 (UTC 0)
Þú ert að gríonast , Örn. Hvar er snilldin? Hver er er snilldin?
Björn skrifar:
29/12/2011 at 09:38 (UTC 0)
Sæll, Eiður. Þessi stutta fjarvera þín vakti athygli mína og annarra. En nú spyr ég: Geturðu ekki birt Mola þína á ögn virðulegri vettvangi en DV? Tvær helstu greinarnar í morgun eru um að Anna Mjöll ætlar að skilja við ríka karlinn. Afleit skrif. Aldursmunur hjónanna er ýmist 49 eða 50 ár. Auk annarrar ónákvæmni. Og Vala Grand er búin að finna draumaprinsinn sinn. Ég skil ekki enn af hverju þessi ungfrú er svona fræg.
Örn skrifar:
29/12/2011 at 00:35 (UTC 0)
Sæll Eiður
Fann mig knúinn til að senda þér þetta, skemmtileg lesning og dæmi um afbragðs blaðamennsku. Þetta er á Pressan.is
Birta Björnsdóttir fatahönnuður hefur skipt um stíl eftir eigin höfði – í orðsins fyllst merkingu. Birta er orðin dökkhærð.
Birta rekur fatahönnunarfyriræki sitt Juniform með glæsibrag en meðal viðskiptavina hennar er þekkt fólk úr samtímanum, bæði hér heima og erlendis. Birta hannar og rekur verslun undir nafninu Juniform og stílinn eru viðskiptavinir hennar farnir að þekkja í mílufjarlægð.
Með því að skipta úr ljósi hári yfir í dökkt jarðar Birta Björns í eitt skipti fyrir öll þá ímynd ljóskunnar sem Björn Blöndal ljósmyndari skapaði með bikinimyndum af henni sem gjarnan voru teknar í sjávarmálinu víða um heim.
En nú er öldin önnur.
Birta Björns hefur eignast tvö börn og notað síðasta áratug í að byggja upp tískuveldi sitt sem fært hefur henni velgengni sem ekki sér fyrir endann á.
Birta Björns er ljóskan sem varð dökkhærð – í alvöru!
Eiður skrifar:
28/12/2011 at 21:44 (UTC 0)
Það ofbýður sem sagt fleirum en mér. Ekki hissa.
Kristján skrifar:
28/12/2011 at 20:15 (UTC 0)
Hér á RÚV…..hér á RÚV….hér á RÚV. Við biðjumst velvirðingar á því að það vantaði texta við þessa frétt…..hér á RÚV. Það vantaði hljóð við þessa frétt hér á RÚV en við gerum aðra tilraun…..hér á RÚV.