«

»

Molar um málfar og miðla 811

Of algengt er að heyra orðalagið bílvelta varð sem notað var í sjöfréttum Ríkisútvarpsins (09.01.2012). Þar var sagt bílvelta varð í Skíðaskálabrekkunni (oft nefnd Hveradalabrekka) í stað þess að segja bíll valt í Skíðaskálabrekkunni. Þetta með bílveltuna sem varð var reyndar endurtekið í fréttum Ríkissjónvarpsins um kvöldið. Í sama fréttatíma um morguninn var talað um bæinn Sveinstungu í Norðurárdal. Bærinn heitir Sveinatunga og var rétt farið með það í fréttum klukkan átta. Enda Gísli Einarsson úr Borgarnesi þá kominn á staðinn.

Greint er frá því í DV (11.01.2012) að forseti Íslands hafi rokið burt úr viðtali við fréttamann Ríkissjónvarps sem reyndi að fá skýr svör við því hvort hann ætlaði að bjóða sig fram að nýju. Ríkissjónvarpið sýndi aðeins hluta viðtalsins. Hvenær fáum við að sjá allt viðtalið? Er verið að hlífa forsetanum ? Það hlýtur að vera frétt, ef satt er, að Ólafur Ragnar hafið flúið í fússi þegar reynt var af einurð að fá hann til að gefa skýr svör.

Málfar í morgunþætti Rásar tvö hefur stundum verið gagnrýnt hér í Molum við litlar vinsældir umsjónarmanna. Í morgun (09.01.2012) var þar talað barnamál klessa á , lenda í árekstri eða aka á eitthvað. Þá sagði umsjónarmaður frá blaðaskrifum um ósætti Baltasar Kormáks kvikmyndaleikstjóra og Guðlaugs Friðþórssonar sem vann það afrek að synda sex kílómetra í köldum sjó og ná landi eftir að bátur hans fórst. Guðlaugur er ósáttur við gerð myndarinnar. Umsjónarmaður sagði að hann væri mjög ósáttur við þennan ráðhag. Orðið ráðhagur segir orðabók að sé úrelt form orðsins ráðahagur sem þýðir kvonfang. Líklega hefur umsjónarmaður haft í huga orðið ráðslag sem þýðir ráðagerð. Það orð hefði verið eðlilegt að nota í þessu tilviki.

Á vef Ríkisútvarpsins segir (09.01.2012): Norska olíufélagið Statoil tilkynnti í dag að nýlega hefðu fundist miklar olíulindir á Norðursjó. Hið rétta er að hin nýja olíulind eða olíulindir eru í Barentshafi en ekki í Norðursjó. Þar á milli er langur vegur. Mbl.is hafði þetta rétt. Í Ríkisútvarpinu lifði þessi undarlega villa hinsvegar fram yfir hádegið.

Stundum er hægt að hafa lúmskt gaman af Mogga. Í þriggja dálka fyrirsögn á leiðarasíðu (09.01.2012) segir: Kröfur ESB kosta Spöl 250 milljónir kr. Spölur rekur Hvalfjarðargöngin. Við fyrstu sýn gæti lesandinn haldið að ESB væri að gera fáránlegar kröfur til Spalar. Það er kannski tilgangurinn með fyrirsögninni. Nei, aldeilis ekki. Þetta eru ekkert ósanngjarnar kröfur. Þetta eru bara kröfur um það að þeir sem fara um Hvalfjarðargöngin njóti sama öryggis og þeir sem fara um hliðstæð jarðgöng í Evrópu. En það er ekki að spyrja að frekjunni í þessu bannsetta ESB sem Íslendingum er aðeins til óþurftar og bölvunar að mati Mogga! En svona er nú Mogginn fínt og faglegt fréttablað.

Skrifað er á visir.is (09.01.2012): Útlit er fyrir umhleypingar næstu daga og má búast við áframhaldandi hálku og slæmri færð. Það er útlit fyrir umhleypinga ekki umhleypingar. Tilhleypingar munu hinsvegar afstaðnar hjá sauðfjárbændum.

Af mbl.is (09.01.2012): „Það hafa borist eftirspurnir frá aðdáendum,“ sagði Odd Gron, lögmaður hjá lögmannstofunni Lippestad …” Hér er greinilega ruglað saman eftirspurn og fyrirspurnum . Orðið eftirspurn er ekki til í fleirtölu. Meira úr sama brunni: Ísland er 5. feitasta þjóð í heimi en engu að síður virðast stjórnvöld ekki ætla að grípa til neinna sérstakra ráðstafanna (svo!) svo sporna megi við þessari þróun. Ísland er feit þjóð ! Það var og.

Af mbl.is (10.01.2012): Veður og skyggni er enn slæmt á Snæfellsnesi og gengur erfiðlega að koma rafmagni á alla notendur í Ólafsvík og Hellissandi. Vonandi fær enginn raflost.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>