«

»

Molar um málfar og miðla 835

Tryggvi Gunnarsson, kennari, skrifar grein í DV (06.02.2012) undir fyrirsögninni Ólöglegur undirskriftalisti. Þar er átt við undirskriftasöfnun sem Óalfur Ragnar Grímsson hefur fengið nokkra húskarla sína til að efna til um að skora á hann að bjóða sig fram að nýju. Ólafur Ragnar sýnir þjóðinni ómælda lítilsvirðingu svo og þeim sem kynnu að vilja bjóða sig fram með því að neita að svara hvort hann ætli að bjóða sig fram að nýju. Tryggvi bendir á að með fyrri undirskriftasöfnun gegn Icesave hafi aðstandendur söfnunarinnar með blessun Ólafs Ragnars í bak og fyrir brotið landslög. Það sama sé nú að gerast. Tryggvi segir: Engar upplýsingar eru gefnar um aðstandendur listans, engin vitneskja fæst um hverjir eru skráðir og því er alls óvíst um hvort tölur um fjölda undirskrifta séu réttar. Og vegna hinnar algjöru leyndar getur hver sem er sett inn nöfn og kennitölur annarra án þeirra vitundar og vilja. Leynibrallið er sem sagt alltumlykjandi þennan nafnalista sem þýðir aðeins eitt: Þetta er skýlaust brot á lögum um persónuvernd. Þessi undirskriftalisti er af þessum sökum jafnólöglegur og listinn í Icesave-málinu á síðastliðnu ári.
Og Tryggvi spyr: Ætlar forsetinn að taka við þessum ólöglega nafnalista og setja á laggirnar símhringingaþjónustu á vegum embættisins í samstarfi við þá aðila sem standa að gerð listans og taka nokkrar sýndar stikkprufur á kolólölegum leynilista eins og átti sér stað fyrir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu? … Ætlar Óalfur Ragnar að endurtaka þann fáránlega skrípaleik um nafnaalista sem fer gegn lögum landsins ? Svarið við þessum spurningum Tryggva er auðvitað : Já. Hér skipta lögin engu máli. Ekki frekar en þegar Ólafur Ragnar Grímsson braut nýlega landslög við ráðningu bílstjóra til að skutla sér milli staða. Það er nú reyndar ekki svo að landslög falli úr gildi þegar ekið er inn um hliðið til Bessastaða.

Þekkti staðarhætti, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.02.2012) . Hér hefði átt að segja: Þekkti staðhætti, – þekkti aðstæður á staðnum.

Skrifað er á fésbók (05.02.2012) Ég setti lítinn platta með tveimur hjörtum fyrir ofan höfuðlagið hjá manninum mínum. Höfuðlag er lögun höfuðs, höfðalag er hinsvegar sá endi rúms þar sem höfuð er lagt á kodda. Undarlegt kannski, – en svona er þetta.

Uppstoppuðum lunda var stolið á veitingastað í Vestmannaeyjum. Um þessa stórfrétt var skrifað á mbl.is (06.02.2012): Lögregla hafði upp á þjófinum sem staddur var á veitingastaðnum Lundanum með lundann. Þágufall orðsins þjófur með greini er þjófnum, ekki þjófinum eins og mbl.is skrifar.

Framkvæmdastjóri Mannréttindastofu Íslands leggur til að íhugað verði að hætta þátttöku í Evróvisjón vegna stórfelldra mannréttindabrota yfirvalda í Aserbaijan þar sem keppnin á að fara fram í ár. Dettur einhverjum í hug í að stjórnendur Ríkisútvarpsins leiði hugann að þessu ? Nei.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hvaða bull er þetta Einar Garðar? Klaga í Emil? Klaga hverja og hvenær? Hvaða drengir? Annars var sú ágæta regla í gildi á vinnustaðnum Laugavegi 176 þar sem Sjónmvarpið var til húsa að neysla áfengis var bönnuð og man ég ekki til þess að nokkur maður hafi brotið það bann. Þú verður að skýra mál þitt nánar, Ekki dylgja.

  2. spritti skrifar:

    Kannski skrúfaði konan, plattan á ennið á manninum sínum. Mér datt það einna helst í hug.

  3. Einar Garðar Þórhallsson skrifar:

    Fremur leiðinlegt nagg Eiðs um fráfarandi forseta. Ég hélt að ólundin hefði slípast af Eiði eftir sjónvarpsárin á Laugaveginum, þegar drengirnir máttu ekki fá sér einn gráan eftir erfiða uppsetningu á sjónvarpsleikriti, án þess að hann klagaði í Emil.. En Eiður hefur alltaf verið góður íslenskumaður.

  4. Eiður skrifar:

    Já, – svo er að sjá.

  5. Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:

    Stóra orðabókin um íslenska málnotkun
    þjófur no kk

    þjófurinn brýst/braust inn
    þjófurinn stelur/stal
    þjófurinn lætur/lét greipar sópa ()
    þjófurinn kemst/komst undan
    () góma þjófinn
    () grípa þjófinn
    () handsama þjófinn
    þjófurinn næst/náðist
    koma upp um þjófinn
    hylma yfir með þjófinum

    Sýnist stóra orðabókin um íslenska málnotkun skrifa þetta vitlaust eins og mbl.is.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>