«

»

Molar um málfar og miðla 837

Í DV eru oft fréttir sem ekki sjá dagsins ljós í öðrum miðlum. Á miðvikudag (08.02.2011) var sagt frá því í DV að verjandi Baldurs Guðlaugssonar og hæstaréttardómari hefðu sést saman í bíó. Nú er auðvitað ekkert athugavert við það, nema af því að umræddur dómari á að dæma í máli Baldurs um meint innherjasvik sem nú er fyrir hæstarétti. Þeir munu vera gamlir kunningjar og væntu þess flestir að dómarinn segði sig frá málinu vegna vinartengsla við Baldur. Það gerði hann ekki. Ef satt er, gæti þetta líklega hvergi gerst nema í ,,réttarríkinu” Íslandi. Dóms er beðið.

Olíu- og bensínsalinn Atlantsolía lætur í veðri vaka í auglýsingum að fyrirtækið sé sérstakur boðberi samkeppni á eldsneytismarkaði. Molaskrifari athugaði vefsíðuna bensinverd.is. og skoðaði verð á höfuðborgarsvæðinu Þá kom í ljós að algengt lítaverð hjá N1 og Olís á bensín var 245,70. Talsvert dýrara hjá Shell sem þá var eitt félaga búið að hækka verulega eða í kr.250,90 Hjá ÓB og Atlantsolíu var verðið 245,50 og hjá Orkunni 245,50. tíu til tuttugu aura munur á verði vöru sem kostar rúmlega 245 krónur er enginn munur. Auðvitað dettur ekki nokkrum manni í hug að íslensk olíufélög hafi verðsamráð enn og aftur. Einhver þeirra hafa hlotið dóm fyrir slíkt, – en þeir sem semja auglýsingar fyrir Atlantsolíu hafa greinilega ekki háar hugmyndir um gáfnafar viðskiptavinanna. Það er alveg sama þótt ný nöfn (oft undir gömlum höttum) komi fram á sjónarsviðið. Verðmunur á olíu og bensíni fyrirfinnst enginn. Tíu aurar eru ekki verðmunur.

Orðið hvítþvottur var notað í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna í umfjöllun um skýrsluna um lífeyrissjóðina (08.02.2012). Molaskrifari þekkir sögnina að hvítþvo í merkingunni að hreinsa vel eða hreinsa af áburði um e-ð slæmt , jafnvel saknæmt, en nafnorðið hvítþvottur er honum ekki tamt. Hann hefði í þessu tilviki talað um kattarþvott. Málamyndaþvott.

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (08.02.2012) var sagt frá undirbúningi byggingarframkvæmda við íþróttavöll í Vestmannaeyjum. Þar á að reisa áhorfendastúku. Fréttmaður talaði um að byrjað yrði að slá upp fyrir grunninum. Molaskrifari vann tvö sumur í byggingarvinnu, 1953 og 1955. Þá voru grunnar grafnir og mótum slegið upp. Kannski er þetta eitthvað breytt núna.

Ríkissjónvarpið á ekki að leggjast í vörn fyrir mannréttindabrot í Aserbaijan eins og lesa mátti út úr fréttum á fimmtudagskvöld (09.02.2012).

Í lokin smá ábending til Stöðvar tvö og hvatning til vandvirkni. Kvikmyndin frábæra með Dustin Hoffman í aðalhlutverki heitir ekki Rain Men. Hún heitir Rain Man og er líkast til ein af tíu bestu kvikmyndum sem Molaskrifari hefur séð.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sjálfsagt rétt til getið. Grunnur hefur alltaf í mínum huga verið holan sem grafin er. Í henni eru gerðar undirstöður oftast þannig að steypu er hellt í mót sem slegið hefur verið upp.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Sennilega erum við að tala hvor í sína átt. Það sem ég á við er að grunnur hússins sem hér um ræðir verður steyptur. Því er rétt að tala um að slá upp fyrir grunni, þ.e.a.s. þeim veggjum sem í jörð standa og húsið sjálft hvílir á. Ofan á grunninn kemur svo botnplata. Fyrir hana þarf ekki viðamikinn uppslátt.
    Grunnur getur sem sagt bæði verið holan í jörðina og veggirnir sem í henni eru steyptir og ná lítið upp úr jörðu þegar fyllt hefur verið að þeim. Langlíklegast er að fréttamaður hafi verið að tala um steypumót veggjanna en ekki gröftinn sjálfan enda væri það í samræmi við málnotkunarhefð.

  3. Eiður skrifar:

    Hef aldrei heyrt orðalagið ,,að slá upp“ notað um að grafa. Allt annað er að slá upp fyrir botnplötu. Það er rétt og eðlilegt orðalag

  4. Þorvaldur S skrifar:

    „ Fréttmaður talaði um að byrjað yrði að slá upp fyrir grunninum. Molaskrifari vann tvö sumur í byggingarvinnu, 1953 og 1955. Þá voru grunnar grafnir og mótum slegið upp. Kannski er þetta eitthvað breytt núna.“
    Í minni sveit standa timburhús gjarnan á steyptum grunni. Til þess að svo megi verða þarf að slá upp fyrir grunninum og steypa hann síðan. Reyndar er líka til að húsin standi á hlöðnum grunni. Þessi orðanotkun á sér grunn til dæmis í orðabók félaga Marðar. Reyndar á hitt orðalagið, „að grafa grunn“ líka grunn í þeirri ágætu bók og þarf ekki að agnúast út í það. En það að slá upp fyrir grunni er fullboðlegt orðalag og samrýmist viðurkenndri og viðeigandi málnotkun. Reyndar held ég að það orðalag sé eldra en þátttaka Molaskrifara í byggingavinnu, a.m.k. töluðu föðurbræður mínir, sem fæddir voru upp úr aldamótum og lærðu smíðar í kreppunni, aldrei öðruvísi og höfðu þó margan grunninn steypt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>