Í fréttayfirliti Ríkissjónvarps (09.02.2012) var sagt: … segir maður sem vinnur að endurskoðun kerfisins. Fréttin var um það hve flókið kerfi almannatrygginga á Íslandi er orðið. Svo kom fram í fréttinni að maðurinn var Árni Gunnarsson fv. alþingismaður, sem fer fyrir starfshópi sem er að endurskoða lög um almannatryggingar. Auðvitað átti að segja deili á Árna í fréttayfirlitinu, ekki bara að segja, – segir maður sem …. Kannski var það einhver sem lítt þekkti til mála sem samdi yfirlitið.
Tæknilega var útsendingin úr Hörpu á laugardagskvöld (11.02.2012) óaðfinnanleg. Það er tæknilegt afrek að koma svona flókinni útsendingu klakklaust til okkar. Molaskrifari er ekki mikið fyrir formúlutónlist af þessu tagi, en minnir á að hann skrifaði fyrir nokkru eftir að hafa heyrt lagið sem bar sigur úr býtum Mundu eftir mér frumflutt að annaðhvort yrði það lag mjög ofarlega eða neðst! Það er reyndar talsverð hætta á að þetta lag geti orðið í efsta sætinu í Baku. Athyglisvert var hve stór hluti áhorfenda í Hörpu voru börn og unglingar. Svona hefur uppeldshlutverk Ríkissjónvarpsins í tónlistarmálum lukkast vel !!!
Í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðva (10.02.2012) var ítrekað talað um kynferðismök. Nægt hefði að tala um kynmök. Svo er auðvitað mikið álitamál hvaða erindi nákvæmar lýsingar á kynmökum eiga í fréttatíma yfirleitt. Þar fannst Molaskrifara of langt gengið. Það er engin þörf á að lýsa þessu í smáatriðum. Nóg er samt.
Svo skal hér enn einu sinni minnt á muninn á stjórnarráðinu og stjórnarráðshúsinu, en sumir fréttamenn eiga ákaflega erfitt með að átta sig á þessu. Í fréttum Ríkissjónvarps (10.02.2012) var talað um sprengjuna við stjórnarráðið. Fréttaþulur hafði þetta hinsvegar rétt í yfirliti í fréttalok. Hann talaði um sprengjuna við stjórnarráðshúsið. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Stjórnarráðshúsið er hvíta húsið frá átjándu öld sem stendur austan við Lækjartorg. Þar er forsætisráðuneytið til húsa og þar fundar ríkisstjórnin. Fréttamanni tókst einnig að fara rangt með þetta í tíu fréttum Ríkisútvarpsins. Í fréttum Stöðvar tvö (11.02.2012) var svo allt einu farið að tala um húsið sem stjórnarráð Íslands! Þetta er endurtekið hér í þeirri trú að um síðir holi dropinn steininn.
Sjálfsagt er og eðlilegt að ræða við lífeyrisþega um skerðingu lífeyris. Það orkaði hinsvegar tvímælis hvernig það var gert í Kastljósi (10.02.2012). Þá var rætt um skerðingu lífeyris við vistmenn á elliheimili. Ræða hefði átt við fólk sem ekki dvaldi á stofnun því aðstæður þess eru allt aðar vistmanna. Svo er það ekki fagmannlega orðað, þegar efnislega er spurt: Nú er búið að skerða lífeyrinn þinn. Finnst þér það sanngjarnt? Þeir sem svona spyrja þurfa að lesa upp og læra betur.
Getur einhver fróður lesandi upplýst Molaskrifara um hvað það þýðir þegar Ríkissjónvarpið sýnir okkur kvikmyndir í samstarfi við tilteknar bifreiðategundir? Í hverju felst þetta samstarf ? Molaskrifari áttar sig ekki á þessu.
Molaskrifari nefndi í síðasta pistli að fréttalestur væri líklega svolítil búbót fyrir útvarpsstjóra. Nú veit Molaskrifari að útvarpsstjóri þiggur ekki laun fyrir fréttalestur og leiðréttist það hér með og hann beðinn velvirðingar á því að þetta skyldi vera gefið í skyn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar