«

»

Bessastaðafarsinn eða er það sirkus?

Nýr þáttur hófst í leikhúsi fáránleikans á Bessastöðum í gær. Þetta er samt ekkert þjóðleikhús. Þetta er leikhús eins manns sem leikstýrir og leikur sjálfur aðalhlutverkið. Hann samdi líka textann. En þetta er ekki venjulegur farsi, því verið er að sýna íslensku þjóðinni ókurteisi og lítilsvirðingu. Það hefur enginn forseti áður gert. Ólafur Ragnar er fyrstur til margs.

Forseti Íslands sagði þjóðinni í gær að það væri lýðræðisleg og siðferðileg skylda hans að hugsa nú málið vandlega og taka til þess svo sem eina eða tvær vikur. Lýðræðisleg skylda? Hvaða bull er þetta? Og Morgunblaðið segir í stórri fyrirsögn 828.02.2012) Forsetinn ætlar að íhuga vilja fólksins. Á kjörskrá á Íslandi er um 230 þúsund manns. Rúmlega 30 þúsund manns skoruðu á Ólaf Ragnar að fara enn á ný í framboð. 200 þúsund manns skoruðu ekki á hann. Við erum kannski bjánar. En við erum ekki svona miklir bjánar. Hvað í ósköpunum hefur þetta með lýðræðislega skyldu að gera? Nú eða siðferði? Nákvæmlega ekki neitt. Enn eitt bullið frá Bessastöðum.

Aftur og aftur segist Ólafur Ragnar hafa talað skýrt á nýársdag. Hann ætlaði ekki að bjóða sig fram aftur. En eins og rækilega hefur verið bent á talaði hann alls ekki skýrt. Það gerðu Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir þegar þau tilkynntu þjóðinni að þau mundu ekki bjóða sig fram að nýju. Þau töluðu mannamál sem allir skildu. Núverandi forseti talaði í véfréttarstíl. Það heyrðu allir sem hlustuðu og skilja mælt mál. Ef hann talaði svona óskaplega skýrt í ávarpi sínu hversvegna hefur hann staðfastlega neitað í tvo mánuði að svara öllum spurningum fréttamanna um það hvort hann ætlaði fram aftur? Eru þetta heilindi ? Svari nú hver fyrir sig.

Nokkuð er um liðið síðan Ólafur Ragnar Grímsson varð sér og okkur öllum til skammar í hádegisverðarboði fyrir erlenda sendiherra í danska sendiráðinu við Hverfisgötu skömmu eftir hrun. Frásögn norska sendiherrans af því sem þar fór fram rataði í norska fjölmiðla. Forseti Íslands sagði norska sendiherrann segja ósatt í frásögninni til norska utanríkisráðuneytisins. Hann vissi alveg hvernig skýrslur sendiherra væru og gaf í skyn að á þeim væri ekki mikið að byggja. Þetta sagði hann þjóðinni í sjónvarpi. Ég sem þetta skrifa las frásögn annars sendiherra af þessum fundi. Ræddi fundinn við enn annan. ,,Svona lagað upplifir maður bara einu sinni á ævinni”, sagði sá (This was a once in a lifetime experience). Allt bar þetta að sama brunni. Forsetinn sagði þjóðinni ekki satt. Nú sýnir forsetinn íslensku þjóðinni ókurteisi. Viljum við þannig forseta? Svari nú hver fyrir sig.

Nú reynir forseti Íslands að segja okkur að hann hafi talað skýrt á nýársdag. Það gerði hann ekki. Fær svo vini sína til að skipuleggja undirskriftasöfnun sér til stuðnings. Það mistekst. Jafnvel þótt verðbólgin orð séu notuð á Bessastöðum til að lýsa fjöldanum. Þetta voru ekki nema 30 þúsund af 230 þúsundum. Þeim tölum getur jafnvel núverandi forseti ekki breytt.

Það er misnotkun á Bessastöðum að setja þennan farsa á svið þar og gera forsetasetrið þar með leikhúsi fáránleikans. Þetta er farsi. Fáránlegur farsi. En auðvitað má líka kalla þetta sirkus eins og Valgerður Bjarnadóttir alþingismaður gerði í morgunþætti Rásar tvö í morgun. Sirkus og farsi í boði ábúandans á Bessastöðum.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

    Þakka þér fyrir þessa ágætu og þörfu grein með góðum athugasemdum. Ertu annars viss um, að Dorritt hafi ekki eitthvað með þetta að gera, og sé aðstoðarleikstjóri forsetans? Ég leyfi mér að taka undir orð Jóns Baldvins í nýlegu viðtali, þar sem hann er spurður, hvernig honum lítist á nýju nábúana þarna upp í Mosó. Svar hans var það, að þau Ólafur og Dorritt væru velkomin í nágrennið, þótt hann(Jón) sé nú ekki viss um, að Dorritt myndi sætta sig við að vera venjuleg bóndakona uppí Mosó, sem væri að hirða um hænsni og rækta kálmeti, enda héldi hann nú, að hún hafi verið að fjárfesta í forsetaembætti á sinni tíð frekar en öðru. Þetta mætti nú hafa í huga í þessu sambandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>