«

»

Molar um málfar og miðla 863

Vinur Molaskrifara sendi eftirfarandi (16.03.2012): ,,Var að hlusta á frásögn fréttamanns Stöðvar 2 af málflutningi Andra Árnasonar, verjanda Geirs. Fréttamanni sagðist svo frá, að Andri hafi sagt málflutning saksóknara vera fordómalausan. Ekki hygg ég nú að Andra hafi fundist það. Ætli Andri hafi ekki sagt ,,fordæmislaus“ en fréttamaður ekki vitað að fordómar þýðir allt annað en ,,fordæmi“. Svona rugl á ekki að koma út úr munni starfsmanns á fréttastofu.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Talsmaður Íslandsstofu sagði um rússneska ferðamenn í fréttum Stöðvar tvö (17.03.2012): Margir eiga mikinn pening. Mikilvægt er að talsmenn stofnana og fyrirtækja vandi málfar sitt. Þetta jaðrar við barnamál eða unglingaslangur. Þetta kemur einnig við sögu í Morgunblaðinu (19.03.2012) þar sem haft er eftir upplýsingafulltrúaVegagerðar ríkisins: .. og í raun sé löngu búið að nota þennan pening. Og: Einnig er líklegt að peningurinn fari í aðgerðir vegna Markarfljótsbrúar.

Morgunblaðið fylgir nú í fótspor DV. Þetta þykir sjálfsagt ýmsum undarleg fullyrðing. DV hefur lengi birt ættfræðifróðleik og sagt frá afmælisdögum , ekki bara fyrirmanna í þjóðfélaginu heldur líka Jóns og Gunnu. Morgunblaðið er nú farið að birta upplýsingar um ættfræði og afmælisdaga og ekki verður betur séð en sá starfsmaður DV sem þar annaðist þessi skrif sé nú orðinn starfsmaður Morgunblaðsins. Allt gott um það. Kvótakóngarnir og drottningarnar sem eiga Moggann hafa sjálfsagt getað boðið betri laun en DV En hvað um það, þetta er góð viðbót við efni Morgunblaðsins og laust við pólitík, skyldi maður vona !
Málfarsfemínistar vildu gera orðið starfsmaður útlægt á sínum tíma. Ekki mátti auglýsa eftir starfsmanni, – látið var í veðri vaka að orðið starfsmaður gæti aðeins átt við um karlmann. Það er rugl því auðvitað eru konur menn. Þá var farið að nota orðið starfskraftur í auglýsingum. Það óð alls staðar uppi og gerir víða enn. Meira segja sá ágæti Egill Helgason hefur smitast af þessu . Hann segir í bloggi sínu (17.03.2012): Hún kom sér upp framleiðslueldhúsi í Grafarvogi og réð til sín starfskrafta sem hafa reynst frábærlega. Hér hefði farið betur á á að tala um starfsfólk, starfslið, starfsmenn, ekki starfskrafta. Kannski er Molaskrifari bara skelfilega sérvitur, – eða hvað ?
Hann hitti á markið, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (17.03.2012). Hann skoraði mark, hitti markið.
Lottókynnir talaði um góuþræl, síðasta dag góumánaðar (17.03.2012). Réttara hefði verið að tala um síðasta dag góu, ekki góumánaðar. Sami kynnir sagði um Víkingalottó, að þar væru hundruð milljónir í boði. Rétt hefði verið að tala um hundruð milljóna eða mörg hundruð milljónir.
Hvað eru mannúðarglæpir, sem talað var um í fréttum Ríkissjónvarps (17.03.2012) ?
Tók reiði sína út á brautarstarfsmanni, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (17.03.2012). Betra hefði verið: Lét reiði sína bitna á brautarstarfsmanni.
Vatn sem bragð er af , segir í sjónvarpsauglýsingu. Molaskrifari hallast að því að hér ætti að segja: Vatn sem bragð er að. Bragð er að þá barnið finnur, segir gamalt máltæki. Lykt af, bragð að.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>