«

»

Molar um málfar og miðla 868

 

Úr grein í DV (21.03.2012) … þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefði verið mjög handgengur Davíð … Hér hefði blaðamaðurinn átt að skrifa , – sem, var mjög handgenginn Davíð. Að vera handgenginn einhverjum þýðir að vera í nánum tengslum við, nátengdur  eða undirgefinn einhverjum.

 

Það gerir ekki endasleppt við viðskiptavini sína Ríkissjónvarpið þetta laugardagskvöld (24.03.2012). Tvær endursýndar bíómyndir. Örugglega er þetta Norðurlandamet og sennilega Evrópumet.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (22.03.2012): Vita ekki hvort skotamaðurinn er á lífi. Þetta er lokasetninginn í frétt um umsátur um grunaðan morðingja í Toulouse í Frakklandi. Fyrirsögnin er samhljóða. Barnamálið er enn í sókn. Molaskrifari hefur aldrei fyrr heyrt orðið skotamaður. Þetta er óþörf nýyrðasmíð.

Í fyrirsögn á mbl.is (21.03.2012) segir: Skipið komið að höfn á Ísafirði. Betra hefði verið: Skipið komið í höfn á Ísafirði. Skip koma í höfn , – ekki að höfn. Í fréttinni segir: Sigurbjörg ÓF er komin að bryggju á Ísafirði en einn meðlimur áhafnar hennar slasaðist mjög alvarlega um borð og var kallað eftir aðstoð í morgun. Þarna er ambagan áhafnarmeðlimur enn á ferð. Betra hefði verið að  nota orðið skipverji.

Guðbrandur sendi eftirfarandi (21.03.2012): http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=165207  og segir síðan :
 ,,Reyndar forðast ég að kíkja á þennan miðil, sem nefnist AMX, en látum það liggja milli hluta sem og innihald,,fréttarinnar“. Mér er ofar í huga sá misskilningur á hugtaki, sem kemur fram þarna, þ.e. að ,,grafa yfir eitthvað“. Í mínum hug grefur maður gröf eða bara holu, eftir því við hvað á. Til að búa til gröfina mokar maður upp úr henni. Því vil ég meina að maður grafi ekki yfir eitthvað, það sé í eðlilslægri andstöðu við hugtakið. Þarna hefði því átt að standa eitthvað í þá áttina að umræddur maður ,,mokaði yfir“ fortíðina eða hvað það var sem þessi orðljóti miðill var með í huga” . Molaskrifari þakkar Guðbrandi sendinguna.

Hjalti segist (21.03.2012) hafa rekist á meðfylgjandi grein eftir Guðmund Franklin, sem er einn þeirra sem hafa haft sig í frammi í Útvarpi Sögu:
,,http://www.dv.is/blogg/adsendar-greinar/2012/3/21/gudmundur-franklin-hvad-eru-haegri-graenir/
Þarna er meðal annars að finna eftirfarandi setningu:
Flokkurinn vill að aðlögunarferlinu og aðildarviðræðum að ESB verði umsvifalaust hætt, umsóknin dregin til baka og framhaldið eingöngu að þjóðinni forspurðri í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir ítarlega endurskoðun EES samningsins.
Þarna virðist orðið forspurðri vera notað í þeirri merkingu að spyrja skuli þjóðina fyrst, áður en framhald er ákveðið, hvert svo sem það á að vera. Ég kannast ekki alveg við þessa notkun orðsins og vil frekar meina að þetta þýði í raun að framhaldið verði án þess að spyrja þjóðina, að henni forspurðri!”
Hjalti spyr hvað Molaskrifara finnist. Molaskrifari er á því að greinarhöfundur  skilji ekki orðið forspurður eða fornspurður. En að gera eitthvað að einhverjum forspurðum er að gera e-ð án þess að spyrja e-n.

Í helgarblaði DV er athyglisverð úttekt á því hvernig fáeinir forkólfar Framsóknarflokksins hafa rakað til sín milljónatugum og milljörðum í skjóli pólitískrar aðstöðu. Einhversstaðar mundi svona úttekt verða tilefni til frekari rannsókna. Hér á landi láta menn sér bara fátt um finnast og fletta yfir á næstu síðu. Og fólk heldur áfram að kjósa Framsókn, – færra fólk en áður,-  vonandi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>