«

»

Molar um málfar og miðla 870

Fyrirsögn á mbl.is (24.03.2012): 400 ,,einsamlir úlfar” í Evrópu. Hér er hráþýtt úr ensku, innan tilvitnunarmerkja þó. Á ensku er til hugtakið lone wolf sem notað er um úlf sem ekki samlagast eða fylgir hjörðinni. Í yfirfærðri merkingu er það notað um einfara, þá sem binda ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Í þessu tilviki hefði kannski mátt tala um 400 hryðjuverkamenn sem starfa án innbyrðis tengsla í Evrópu.

Skútan Aurora festist á rifi , sagði í fyrirsögn í Morgunblaðinu (24.03.2012).Þetta er mjög kurteislegt orðalag þegar sagt er frá því að skúta hafi strandað á rifi !

Trausti bendir (25.03.2012) á eftirfarandi fyrirsögn á dv.is: ,,Ríða um með stútfullt glas af brjóstamjólk Og bætir við: Ég hef nú vanist því að glös séu barmafull, en flöskur stútfullar!” Rétt er það, Trausti.

Á boðunardegi Maríu, samkvæmt tímatali kirkjunnar, hlustaði Molaskrifari á morgunandakt á Rás eitt. Þar sagði klerkur að María hefði verið flott. Látum það nú vera, en þegar hann talaði um að hún hefði verið nóboddí eins og það var svo guðrækilega orðað var Molaskrifara eiginlega nóg boðið , – og meira en það. Varla er það orð að finna í nýrri þýðingu Biblíunnar !

Í fréttum Stövar tvö (25.03.2012) sagði fréttamaður okkur frá ótrúlega hugvitssömum hreindýrabóndum á Grænlandi. Fram til þessa hefur fleirtalan af bóndi verið bændur ekki bóndar.

Það hefur vakið Molaskrifara til umhugsunar um siðræn gildi og gildismat þess samfélags sem við búum í að fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins skuli hafa séð ástæðu til að hrósa því alveg sérstaklega að Vigdís Hauksdóttir alþingismaður skyldi brjóta þingsköp, þingsiði ( og reyndar mannasiði) með netsendingu út af nefndafundi í þinginu. Enn meira umhugsunarefni er það jafnvel þegar fyrrverandi ráðherra, þingmaður og formaður stjórnmálaflokks einnig sér ástæðu til að verja það í Morgunblaðsgrein að starfsreglum Alþingis og sæmilegum mannsiðum skuli ekki fylgt. Telur það meira að segja sérstaklega hrósverða framkomu.
Er hér á ferðinni hið alkunna virðingarleysið fyrir lögum og reglum sem er landlægt á Íslandi og Salvör Nordal nefndi á blaðamannafundi Rannsóknarnefndar Alþingis í Iðnó hér um árið? Hve mikinn þátt þessi landlægi hugsunaráttur á í hruninu skal ósagt látið. Það er hins vegar ekki gott samfélag þar sem höfðingjarnir hvetja til þess að settum og réttum reglum sé ekki fylgt. Ef menn telja reglur óbrúklegar á að breyta þeim , ekki brjóta þær.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Það liggur alltént ljóst fyrir að þeir sem báru í bætiflákann fyrir athæfi Vigdísar höfðu tæplega heyrt um fyrirbærið „að kunna að skammast sín“ og alveg borin von að þingmaðurinn sjálfur kynni það. Þótti það þó æskilegur eiginleiki í minni sveit og sumir samferðamenn mínir minntir á að Hraunið væri fullt af mönnum sem ættu í erfiðleikum með það. Kannski er ekki tilviljun að sú stofnun er í kjördæmi þessa fyrrverandi ráðherra, þingmanns og formanns stjórnmálaflokks.

  2. Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:

    Þess ber að geta, að á fréttavef Morgunblaðsins strandaði Aurora á rifi, en festist ekki eins og í blaðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>