Hlé verður á Molaskrifum yfir páskana.
Með leyfi höfundar birtir Molaskrifari hér ljóð eftir skólasystur sína ágæta, Sigurlaugu Ó. Guðmundsdóttur. Við áttum samleið frá því í Austurbæjarbarnaskólanum haustið 1946 til stúdentsprófs frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1959.
Sigurlaug er gott ljóðskáld og hefur gefið út nokkrar ljóðabækur. Þessu ljóði hennar fylgir páskakveðja til Molalesenda.
Íslenskan
Af erlendum slettum er íslenskan full
svo að henni steðjar voðinn.
En skarn verður einungis skíragull,
ef skafinn er af því hroðinn.
Rétt eins og orð séu einungis hjóm,
og orðtökum vel megi breyta.
Menn arka þar yfir á skítugum skóm,
þó skrifandi eigi að heita.
Hvað er það sem gerir þjóð að þjóð,
er þrætur og óaran ríkja?
En íslenskar sögur og íslensk ljóð
fyrir enskunni mega víkja.
Um aldirnar börðust hér ötulir menn,
svo ættum við tunguna hreina.
Því vakni nú allir, sem vilja enn,
virðing að tungunni beina.
Sigurlaug Ó. Guðmundsdóttir , 2011-2012.
Gleðilega páska!
Skildu eftir svar