«

»

Molar um málfar og miðla 885

Einar sendi Molum eftirfarandi: „Hér er undirfyrirsögn úr netútgáfu Viðskiptablaðsins 13.4.12: „Kostnaðarsöm tilraunir ráðamanna í Norður-Kóreu fóru út um þúfur í nótt. Henni var ætlað að tryggja ímynd leiðtoga landsins.“ Getur ruglingur á eintölu og fleirtölu orðið öllu verri? Rétt væri að segja annað hvort „kostnaðarsöm tilraun ráðamanna fór út um þúfur“ o.s.frv., eða „kostnaðarsamar tilraunir ráðamanna fóru út um þúfur … þeim var ætlað að tryggja ímynd leiðtoga landsins“.” Einar benti síðar á að þetta hefði verið lagfært.Molaskrifari þakkar Einar sendinguna.

 

 Og hér er meira frá Einari (14.04.2012): ,,Á vísir.is var í gærkvöldi fjallað um hetjudáðir lögreglumanns í Víetnam, sem hékk utan á framrúðu hópferðabíls eftir að ökumaðurinn reyndi að flýja af vettvangi. Fréttin er annars ágætlega vel skrifuð, en undir lok hennar segir síðan: „Undarlega náðist atvikið á myndband og birtist það á vefsíðunni YouTube fyrr í dag.“

Mér er ekki ljóst hver ætlunin er með orðinu undarlega í þessu samhengi, er átt við að þetta undarlega atvik náðist á myndband eða náðist atvikið á undarlegan hátt á myndband?” Molaskrifari getur sér þess til að hér sé um aulaþýðingu úr ensku að ræða. Sagt hafi verið á ensku: Strangely enough the incident was recorded …. Eðlilegt hefði verið að segja á íslensku: Fyrir tilviljun náðist að mynda þetta atvik.

 

 Á vefsíðu Ríkisútvarpsins er (13.04.2012) talað um tómar lóðir í Mosfellsbæ. Eðlilegra væri að tala um auðar lóðir, eða lóðir sem ekki hefur verið byggt á.

 

Vikulegur ambögu- og slúðurpistill Rásar tvö frá Los Angeles ( Ell ei eins og þar er sífellt sagt)var á sínum stað (13.04.2012) . Þar var talað um góða kríteríu, að framkvæma plötu og vera á hallandi fæti, það lænöpp, sú upplína og er þá þágufallssýkin látin liggja milli hluta. Fólkið sem slúðrað er um fær yfirleitt auknefnið greyið, stelpugreyið. Rúsínan í pylsuendanum þennan föstudagsmorgun var þegar okkur var sagt að Chinese democracy væri kínverska lýðveldið ! (Democracy = lýðræði, republic=lýðveldi). Það ætti að vera fyrir neðan virðingu Ríkisútvarpsins að bjóða hlustendum sínum upp á þessa hörmung.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (13.04.2012) var sagt: Ummál upphandleggs hans voru … Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á að segja: Ummál upphandleggs hans var …, – ekki voru.

 

Hér hefur stundum verið gerð að umtalsefni sú fáránlega ákvörðun útvarpsstjóra að banna starfsmönnum í Estaleiti að taka sér orðið Ríkisútvarp í munn, en kalla stofnunina þess í stað RÚV ætíð og alltaf. Það er ekkert að því að nota skammstöfunina RÚV í erlendum samskiptum og á prenti með merki Ríkisútvarpsins. Í töluðu mál á hinsvegar að nefna stofnunina því nafni sem hún heitir og sætta sig við það að þessi stofnun er ekki einkafyrirtæki stjórnendanna sem þeir geta breytt um nafn á að vild – heldur er hún ríkiseign, þjóðareign. Á heimasíðu stofnunarinnar er birt dagskrá Rásar eitt, Rásar tvö og dagskrá RÚV, það er dagskrá Ríkissjónvarpsins. RÚV er sem sagt stundum Ríkisútvarpið allt og stundum bara Ríkissjónvarpið ! Þegar Ríkisútvarpið auglýsir eftir starfsfólki er það RÚV en ekki Ríkisútvarpið sem auglýsir og ræður í störfin. Er þá verið að óska eftir starfsmanni einvörðungu til Ríkissjónvarpsins eða til Ríkisútvarpsins alls? Það er óskiljanleg ákvörðun að dæma lögbundið heiti stofnunarinnar, Ríkisútvarpið, til dauða með þessum hætti. Raunar er vandséð að útvarpsstjóri hafi heimild til að vinna þetta óþurftarverk.

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>