Í prentmogga í dag er frétt um flugslys . Þar segir:
“Talið er að flugvélin… hafi farist yfir opnum sjó…”
Á íslensku er aldrei talað um “opinn sjó”,hvað þá að flugvél farist „yfir opnum sjó”. Hér er að líkindum enn ein aulaþýðingin úr ensku á ferð. Við tölum um opið haf. Við tölum líka um auðan sjó, að vera kominn á auðan sjó (íslausan) þýðir að vandamál séu að baki eða leyst.
“Sungið fyrir sætan feng”, er hinsvegar fín fyrirsögn á baksíðu Mogga á Öskudaginn um syngjandi börn í sælgætisleit.
Svohljóðandi auglýsing vakti athygli mína í hádegisútvarpi RÚV í dag: “Tveir fyrir einn á gleraugum”. Þetta þýðir líklega , að sá sem kaupir ein gleraugu fær önnur í kaupbæti. Íslenskulegt er þetta orðalag ekki og hvorki Ríkisútvarpinu né auglýsanda til sóma.
Svo er spurt: Hver er tilgangur Fréttastofu Ríkisútvarpsins með því að bæta orðinu “nokkur” inn í nafn einstaklings sem nefndur var í kvöldfréttum. “Ragnhildur nokkur Ágústsdóttir” var þar sagt. Í íslenskri orðabók segir, að þegar orðið “ nokkur” sé notað með mannsnafni sé það til að sýna “ að maðurinn sé óþekktur eða ómerkilegur”.
Hversvegna þurfti fréttastofa Ríkisútvarpsins að niðurlægja umræddan einstakling ? Ekki eru þetta þau faglegu vinnubrögð sem fréttastofan státar af og hlustendur eiga kröfu á.
Það er heldur ekki traustvekjandi, þegar fréttamaður RÚV sjónvarps fer tvisvar rangt með nafn forsætisráðherra Noregs í sama fréttatímanum og ekki er talin ástæða til að leiðrétta eða biðjast afsökunar. Fréttaþulur hafði nafnið rétt í lok fréttarinnar, en þá var bæði búið að segja að forsætisráðherrann héti Thorvald Stoltenberg og Jens Stoltenberg. Síðara nafnið er rétt. Thorvald Stoltenberg er fyrrverandi utanríkisráðherra og faðir núverandi forsætisráðherra.
Það var hinsvegar gaman að heyra Þóru Tómasdóttur tala fallega norsku við Jens Stoltenberg í Kastljósi. Það er of algengt að heyra íslenska fréttamenn tala misgóða ensku við norræna viðmælendur.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Ásgrímur Hartmannsson skrifar:
27/02/2009 at 23:23 (UTC 0)
Í prentmogga í dag er frétt um flugslys . Þar segir:
Talið er að flugvélin… hafi farist yfir opnum sjó…
Til aðgreiningar frá lokuðum sjó…
Tveir fyrir einn á gleraugum.
Já, þetta er afar tormelt setning, skilin orðrétt. Hverjir eru þessir tveir? Af hverju eru þeir á gleraugum? Eða eru þeir þrír, og bara einn á gleraugum? Og af hverju er þessi eini á gleraugum? Venjulega eru menn með gleraugun á nefinu.
Það var hinsvegar gaman að heyra Þóru Tómasdóttur tala fallega norsku við Jens Stoltenberg í Kastljósi. Það er of algengt að heyra íslenska fréttamenn tala misgóða ensku við norræna viðmælendur.
Vond enska Íslendinga getur verið góð skemmtun.
Þráinn Bertelsson skrifar:
27/02/2009 at 18:38 (UTC 0)
Alveg er það dásamlegt að fyrrverandi fréttamaður skuli í ellinni gera það að sínu rórilli að leiðrétta málfar fjölmiðla. Miðað við þá herskara af málböðlum sem virðast vinna langan dag við að setja saman vonda texta er sýnt að einn málviti mun hafa nóg að iðja.