Í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag er notað orðið skattaskjól,sem er fínt orð yfir það sem á ensku er kallað “tax heaven”. En í fréttinni er þessi setning: “Þeir sem starfa við alþjóðlega skattaráðgjöf á Íslandi verður gert að halda lista …..”. Þarna á auðvitað að standa:” Þeim sem starfa við…” og svo framvegis. Hvar er máltilfinningin, Morgunblaðsmenn? Hún hefur verið víðsfjarri, þegar þessi frétt var skrifuð.
Í hádegisfréttum RÚV talaði fréttamaður um “.. að spyrða breytingunum saman…” Hann hefði betur talað um að spyrða breytingarnar saman.. Það held ég að sé réttara mál. Líklega er merking sagarinnar að spyrða fréttamanninum horfin úr huga, – að spyrða saman er að binda saman á sporðunum, tengja saman..
Svo eru hér í lokin tvö gullkorn eða málblóm af bloggsíðum frá í febrúar.
“Einstæðar mæður stóðu eftir með sárt ennið “ (05.02.2009). Talað er um að sitja eftir með sárt ennið, ekki standa.
“Víða liggur maðkurinn grafinn í mysunni.”. Það er erfitt að grafa nokkurn hlut í mysu. Talað er um að maðkur sé í mysunni, þegar eitthvað er gruggugt við eitthvað, eða ekki allt með felldu í tilteknu máli.
Og svo í lokin gullkorn frá í kvöld af síðu mikilvirks Framsóknarbloggara ,sem nú vill á þing,- hann var að skrifa um umræður í borgarstjórn Reykjavíkur:
“Ekki veit ég hvað manninum stóð til – en má vera að Ólafur F. hafi átt dálítið erfitt eftir að fyrri dylgjur hans og ásakanir í garð borgarfulltrúa Framsóknarflokksins……“. Þannig var nú það
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/03/2009 at 15:51 (UTC 0)
Hárrétt , Molester. Þetta á að vera „tax haven“. Biðst veðvirðingar á þessu. Fannst þetta ekki alveg rétt stafsetning, en athugaði ekki nánar.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
04/03/2009 at 13:51 (UTC 0)
Tvennt langar mig að leggja í púkkið til gamans. Íþróttafréttamaður sagði eitthvað á þessa leið: ,,Íslenska liðið hafði taglið og högldin í fyrri hálfleik en í þeim síðari riðu gestirnir lögum og lofum á vellinum.'' Eftirfarandi klausa var birt á heimasíðu banka og skil ég hvorki upp né niður í henni: ,,Innlend eftirspurn þarf ekki hjálp við að hverfa þessa daganna. Atvinnuleysið hefur stigið hratt undanfarið, væntingar minkað umtalsvert og samdráttur er verulegur í allri neyslu og fjárfestingu. Vaxtahækkunin er því ekki til að hjálpa til við að berja þróttinn úr innlendri eftirspurn. ''
Molester skrifar:
04/03/2009 at 13:31 (UTC 0)
Ekki er Molester mjög vel að sér í erlendum tungumálum fremur en því íslenska, en rámar samt í að enskumælandi þjóðir tali um „tax haven“ en ekki „tax heaven“. Gæti svo sem verið bölvað rugl í mér.